skipulagsskrá

1.0. Heiti stofnunarinnar:

1.1.   Stofnunin heitir Aurora velgerðasjóður ses. Stofnunin starfar samkvæmt lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

2.0.   Heimili og varnarþing:

2.1.    Heimili og varnarþing stofnunarinnar er að Kjalarvogi 7-15, 104 Reykjavík.

3.0.   Stofnendur, stofnfé og önnur framlög:

3.1.    Stofnendur eru hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir, kt. 290162-2039, og Ólafur Ólafsson, kt. 230157-5619,  búsett í Sviss.

3.2.    Stofnfé stofnunarinnar er að fjárhæð kr. 1.000.000.000 í reiðufé, sem stofnendur og Kjalar hf., kt. 631291-1129, Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, leggja henni til sem stofnfé við stofnun hennar.

3.3.    Stofnféð mun verða ávaxtað samkvæmt ákvörðun stjórnar.

3.4.    Ávöxtun stofnfjár ásamt öðrum framlögum og styrkjum sem stofnuninni áskotnast verður notað í samræmi við tilgang stofnunarinnar eins og hann birtist í 4. gr. skipulagsskrárinnar.

3.5.    Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum eignum er hún kann að eignast síðar. Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.

3.6.    Ráðstöfunartekjur stofnunarinnar eru vaxtatekjur og annar arður af stofnfé, og annað fé sem sjóðnum kann að áskotnast. Stofnunin veitir viðtöku hvers konar gjöfum og framlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum og félögum. Nöfn þeirra sem styrkja stofnunina skulu færð í sérstaka nafnaskrá sem er í vörslu stjórnar hennar. Við ráðstöfun tekna stofnunarinnar í formi fjárframlaga skal gæta þeirra markmiða sem fram koma í 4. gr.

3.7.    Stofnunin skal hafa sjálfstæðan fjárhag og kennitölu, og skal stjórn sjá til þess að bókhald stofnunarinnar verði fært. Starfsár og reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið.

4.0.   Tilgangur stofnunarinnar:

4.1.    Megintilgangur stofnunarinnar er að stuðla að og styrkja menningar- og góðgerðastarfsemi á Íslandi og erlendis. Í því felst til dæmis fjárhagslegur stuðningur við einstaklinga, félög, félagasamtök og samfélög af ýmsum toga, auk stuðnings við þá sem höllum fæti standa vegna aðstæðna sem þeir búa við s.s. vegna veikinda, slysa, eða af öðrum ástæðum.

4.2.    Áhersla er lögð á stuðning við menningar- og/eða mannúðarverkefni sem hafa víðtæk áhrif til almannaheilla.

5.0.   Stjórn:

5.1.   Stjórn stofnunarinnar skal skipuð fimm einstaklingum. Báðir stofnendurnir sitja sjálfkrafa í stjórn stofnunarinnar, en tilnefna síðan að auki þrjá einstaklinga til að sitja í stjórninni með sér. Kjörtímabil stjórnar er á milli aðalfunda eða aukaaðalfunda.

5.2.    Stjórnin skiptir með sér verkum.  Atkvæði þriggja stjórnarmanna þarft til að taka ákvörðun um málefni sjóðsins.  Undirskriftir þriggja stjórnarmanna skuldbinda stofnunina.

5.3.    Stjórnin skal vinna að markmiðum stofnunarinnar sem fram koma í 4. gr. og skal gæta þess eftir fremsta megni að kostnaður af starfseminni sé hóflegur og í samræmi við rekstraráætlanir. Óheimilt er að binda eignir stofnunarinnar skuldbindingum sem óviðkomandi eru tilgangi stofnunarinnar. Formaður boðar til stjórnarfunda, en jafnframt skulu fundir haldnir ef einhver stjórnarmanna óskar þess. Í því tilviki skal stjórnarfundur haldinn innan 3ja vikna frá því að ósk um fund kemur fram. Stjórnarfundir skulu skráðir í gerðarbók. Stjórnin skal setja sér starfsreglur um störf sín og hvernig hún hyggst vinna samkvæmt markmiðum 4. gr. Mikilvægar ákvarðanir má ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið sé þess nokkur kostur. Reglur stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi skulu gilda um stjórnarmenn við afgreiðslu mála.

5.4.    Stjórn stofnunarinnar ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans, ef hún telur það nauðsynlegt. Að öðrum kosti skal stjórnarformaður fara með prókúru fyrir stofnunina. Stjórnin getur veitt öðrum prókúru fyrir stofnunina eða ákveðið að fela þriðja aðila umsýslu eigna hennar eða framkvæmd einstakra verkefna. Allar meiriháttar ákvarðanir skal þó ávallt bera undir stjórn, enda ber hún ábyrgð á rekstri stofnunarinnar.

5.5.    Aðalfundur stofnunarinnar skal haldinn ár hvert í mars eða apríl. Verkefni aðalfundar er að greina frá starfsemi stofnunarinnar og samþykkja ársreikning stofnunarinnar fyrir undanfarið almanksár, auk þess sem stofnendur tilnefna á honum meðstjórnarmenn sína. Aukaaðalfundir skulu haldnir þegar stofnendur stofnunarinnar óska þess eða meirihluti stjórnar. Ef taka á til meðferðar á aðalfundi eða stjórnarfundi tillögu til breytinga á skipulagsskrá þessari skal meginefni tillögunnar fylgja fundarboði.

5.6.    Stjórn skal halda bókhald og skila ársreikningi á aðalfundi, endurskoðuðum af löggiltum endurskoðanda. Stjórn velur endurskoðanda stofnunarinnar. Stjórn stofnunarinnar skal gera fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár. Stjórnin skal fylgjast grannt með fjárhag stofnunarinnar, einkum með því að tekjur stofnunarinnar standi undir kostnaði og skuldbindingum.

5.7.    Hver sem er, einstaklingur og lögpersónur, getur gerst hollvinur stofnunarinnar að fengnu samþykki stofnenda stofnunarinnar og samkvæmt nánari reglum sem stjórnin setur. Hollvinir skulu hafa rétt til setu á aðalfundi stofnunarinnar með málfrelsi og tillögurétt, nema stjórn taki ákvörðun um annað.

5.8.    Ef annar stofnenda fellur frá, þá skal hinn stofnandinn tilnefna alla aðra stjórnarmenn stofnunarinnar. Að báðum stofnendunum látnum, þá skulu börn þeirra þrjú sjálfkrafa sitja í stjórn stofnunarinnar, eða sérstakir tilnefndir fulltrúar þeirra, enda hafi þau þá náð 20 ára aldri, nema þau biðjist undan þeirri skuldbindingu, og saman skulu þau börn stofnenda og/eða sérstakir fulltrúar þeirra sem í stjórninni sitja tilnefna aðra stjórnarmenn hennar. Ef hvorki stofnendum, börnum eða niðjum þeirra verður til að dreifa, sem áhuga hafa á að láta málefni stofnunarinnar til sín taka þá skal stofnuninni slitið og eignum hennar varið í samræmi við ákvæði 4. gr.  

6.0.   Breytingar á skipulagsskránni og staðfesting:

6.1.    Tillögur að breytingum á skipulagsskrá þessari skal leggja fyrir aðalfund eða aukaaðalfund þar sem þær skulu kynntar og afstaða tekin til þeirra og greidd um þær atkvæði. Tillögur um breytingar á skipulagsskránni skulu berast stjórn með nægilegum fyrirvara svo unnt sé að geta slíkrar tillögu í fundarboði. Til að breytingar á skipulagsskránni geti öðlast gildi þurfa 3/4 stjórnarmanna stofnunarinnar að samþykkja þær.

6.2.    Tillögur um að fella niður skipulagsskrá stofnunarinnar og leggja hana niður skal farið með sama hætti og breytingar.

6.3.    Komi til þess að sjálfseignastofnunin verði lögð niður skal stjórn hennar gera upp skuldir og eignir og slíta svo rekstri hennar, ef einhver er. Skulu eftirstandandi eignir renna til málefna sem stjórn stofnunarinnar ákveður, en þó innan markmiða 4. gr. skipulagsskrár þessarar.

6.4.    Hafi innan 2ja ára frá stofnun stofnunarinnar ekki verið breytt lagaákvæðum um skattskyldu íslenskra sjálfseignastofnanna til greiðslu skatts af fjármagnstekjum þeirra, þá skal stjórn hennar skoða fýsileika þess að sameina sjálfseignastofnunina annarri sjálfseignarstofnun sem stofnuð er af stofnendum hennar í öðru landi innan evrópska efnahagssvæðisins, með sömu ákvæðum í skipulagsskrá, sem tryggir að stofnunin hafi allar fjármagnstekjur sínar, eða hærra hlutfall þeirra en íslensk lög gera ráð fyrir, til ráðstöfunar samkv. tilgangi sínum,  og leggja slíka tillögu fyrir aðalfund og/eða aukaaðalfund stofnunarinnar.

6.5.    Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari. Sé skipulagsskrá breytt eða sé samþykkt að hún sé lögð niður skal leita samþykkis dómsmálaráðherra.