Tölvuverkefni í Sierra Leone

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2016-2017
ISK 1.200.000
Sierra Leone

SAMSKIP - Idt labs - Arion banki - Islandsbanki - Revolutum

Árlega er töluvert skipt út af tölvum á stórum vinnustöðum. Kröfur starfsmanna um hraða og afl tölvubúnaðar eru stöðugt að aukast og því er oft skipt út tölvum sem ekki lengur uppfylla þarfir fyrirtækja en eiga engu að síður eftir dágóðan líftíma.Eitt slíkt fyrirtæki er Samskip, alþjóðlegt flutningafyriræki með yfir 1.400 starfsmenn á víð og dreif um heiminn. Fyrirtækið gaf Auroru töluvert af notuðum tölvum og tölvubúnaði til þess að nota í tölvuverkefni í Sierra Leone.

Tölvunotkun í Sierra Leone er ekki útbreidd og fáir eiga slíkan búnað. Jafnvel háskólinn í höfuðborginni Freetown á lítið af tölvum og sá tölvubúnaður sem er þar fyrir hendi er að stórum hluta úreltur. Því gefst ungu, menntuðu fólki takmörkuð tækifæri til að kynnast tölvum og því síður að læra að nota þær.

Aurora í samstarfi við Samskip og tölvufyrirtæki í Sierra Leone sem nefnist Idt labs ákvað að bjóða upp á frítt tölvunámskeið fyrir ungt fólk. Tveir starfsmenn Samskipa undirbjuggu tölvubúnaðinn og aðstoðuðu við námskeiðið og Idt labs bauð fram aðstöðu fyrir tölvunámskeiðið sjálft, kennara og sáu að stórum hluta um umsóknarferlið fyrir þátttakendur. Þeir nemendur sem kláruðu námskeiðið voru síðan leystir út með verðlaunum – fallegu skírteini og tölvu til eigin nota, en það síðastnefnda var óvæntur glaðningur sem nemendurnir vissu ekki af fyrir fram.

Yfir 300 manns sóttu um að komast á námskeiðið en 85 manns fengu að taka þátt og sátu þau fimm daga námskeið. Á námskeiðinu var þeim kennt að nota helstu forrit á borð við Word og Excel og einnig var þeim kennt á notkun Internetsins, hvernig hægt er nota leitarvélar og stofna netföng. Þátttakendur voru á aldrinum 18–40 ára og var kynjaskipting nokkuð jöfn. Þátttakendurnir voru að hluta til háskólanemar, en einnig einstaklingar sem reka sín eigin fyrirtæki og aðrir á almennum vinnumarkaði. Mikið þakklæti og ánægja var með þetta verkefni og komust margir í kynni við tölvu í fyrsta sinn.

Þetta verkefni var tilraunaverkefni hjá Auroru velgerðasjóð, tilraunaverkefni sem gekk vonum framar. Það er því von okkar að við getum fengið önnur fyrirtæki í lið með okkur og endurtekið þetta verkefni enda þörfin mikil.