Tau frá Tógó er íslenskt góðgerðafélag sem selur vörur sem saumaðar eru á saumastofu heimilis systur Victorine fyrir munaðarlaus börn í Tógó. Á heimilinu er starfrækt lítil saumastofa sem er helsta tekjulind heimilisins og nokkurs konar iðnskóli fyrir elstu börnin á heimilinu og önnur ungmenni úr nágrenninu.
Tau frá Tógó kaupir vefnaðarvörur (svuntur, innkaupapoka, smekki, buddur, skokka o.fl.) af saumastofunni og selur varninginn hér á landi. Allur ágóði af sölunni fer aftur til heimilisins. Um þriðjungur er notaður til að panta fleiri vörur og tryggja þannig vöruflæði og tekjur fyrir heimilið og tveir þriðju hlutar fara í menntunarsjóð fyrir börnin.
Mikið hefur áunnist í samskiptum við saumastofuna frá árinu 2012. Gæði framleiðslunnar hafa aukist, afgreiðslutími styst og öll afgreiðsla pantana er nákvæmari og faglegri. Tau frá Tógó hefur verið í samstarfi við kunna íslenska hönnuði til að útbúa verkefni fyrir saumastofuna og þróa þannig verkkunnáttu og fagleg vinnubrögð. Þessi hönnunarverkefni hafa þjálfað nemendur saumastofunnar í því að taka á móti sniðum og frumgerðum, fylgja þeim nákvæmlega eftir og afhenda fullmótaða vöru. Einnig hafa þau hlotið þjálfun í því að stjórna flæði pantana, hráefniskaupum, ritun reikninga, samskiptum við flutningsmiðlara og útfyllingu tollskýrslna.
Tau frá Tógó hafði áhuga á að senda Elvu Káradóttur, hönnuð og kjólameistara, til Tógó til að leiðbeina nemendum á verkstæðinu varðandi kvenflík sem hönnuð er af Helgu Björnsson. Elva er íslenskur hönnuður og kjólameistari. Hún hefur áralanga reynslu frá París og vinnur reglulega fyrir tískuhúsin Nina Ricci og Chanel.
Aurora velgerðasjóður styrkti för Elvu til Tógó til þess að vinna með saumastofunni í nokkra daga. Þar leiðbeindi hún þeim varðandi það hvernig best er að fylgja eftir sniðum, stilla spor á saumavélum, vanda frágang, velja efni og tvinna og almennt standa sem best að framleiðslunni.