Menntun stúlkna í Sierra Leone

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2013 – 2015
ISK 31.000.000
Sierre Leone

UNICEF

Borgarastríðið í Sierra Leone stóð yfir í heilan áratug (1991–2002) og kom það illa niður á öllum innviðum samfélagsins, þar með talið menntakerfinu. Varð það til þess að stór hluti barna hafði ekki aðgang að neinni menntun. Þegar stríðinu lauk voru innan við 70% barna með einhverja grunnskólamenntun. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í menntamálum undanfarin ár og hefur Aurora verið virkur þátttakandi í stuðningi sínum við yfirvöld. Nýjasta stefnuskrá yfirvalda í Sierra Leone í menntamálum nær yfir tímabilið 2014–2018 og kallast hún Learning to Succeed.

Þetta verkefni Auroru velgerðasjóðs byggir á fyrra verkefni sjóðsins sem unnið var að á tímabilinu 2008–2012. Markmið þess var að auka aðgang grunnskólabarna að menntun og að bæta gæði menntunar í grunnskólum í Kono-héraði.

Verkefnið Menntun stúlkna í Sierra Leone hafði víðara umfang. Markmiðið var meðal annars að bæta gæði náms í grunnskólum landsins og veita barnshafandi stúlkum og börnum sem urðu fyrir áföllum vegna ebólufaraldursins sem geysaði 2014–2015 aðgang að góðri menntun.

Menntun stúlkna í Sierra Leone er eitt fjögurra menntaverkefna sem Aurora hefur styrkt með UNICEF í landinu á tímabilinu 2008–2016.