Tíu prósent allra nýfæddra barnaí Malaví deyja og 17% deyja áður en þau ná 5 ára aldri. Helsta dánarorsök barna í Malaví er alnæmi, lungnabólga og malaría en tveir síðastnefndu sjúkdómarnir eru einstaklega erfiðir börnum. Barnadeildir spítala – þar sem þær eru yfirhöfuð til – eru yfirfullar af börnum sem berjast við þessa sjúkdóma. Það er því mikilvægt að styðja við og bæta heilbrigðisþjónustu fyrir börn í landinu.
Héraðssjúkrahúsið í Mangochi-héraði í Malaví þjónustar um 750.000 manns og er helsta sjúkrahús svæðisins. Sjúkrahúsið hafði einungis 36 rúm fyrir börn en að jafnaði voru um 80 börn sem þurftu aðhlynningar við á sjúkrahúsinu og því mjög þröngt á þingi.
Aurora velgerðasjóður styrkti hönnun og byggingu á viðbyggingu við barnadeild sjúkrahússins og tvöfaldaði þar með rúmpláss sem eru sérstaklega ætluð börnum. Deildin var tekin í notkun á haustmánuðum 2009 og hefur aðstaða fyrir börn og umsjónarmenn þeirra lagast til muna við þessa viðbót, auk þess sem aðstaða starfsfólks deildarinnar er öll önnur og betri.
Í nýju viðbyggingunni eru 36 sjúkrarúm ásamt 10 rúma gjörgæslu- og nýburadeild, móttökudeild og vaktstöð fyrir hjúkrunarfólk.
Styrkurinn frá Auroru fór í að byggja viðbygginguna, en einnig fjármagnaði Aurora kaup á nýjum rúmum og leiktækjum fyrir börn.