Mæðraklúbbar í Sierra Leone

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2014 – 2016
ISK 11.500.000
Sierra Leone

UNICEF

Börn í Sierra Leone hefja sjaldan skólagöngu sína á réttum aldri. Þetta er vandamál sem bregðast verður við ef takast á að bæta menntun barna þar í landi. Eins og staðan er í dag getur aldursamsetning barna í hverjum bekk verið æðimisjöfn. Niðurstöður annars verkefnis á vegum UNICEF, sem stutt var af Auroru velgerðasjóði, sýndi mikilvægi mæðraklúbba til þess að takast á við þennan vanda og er stuðningur við mæður nauðsynlegur í þeirri viðleitni að tryggja að börn gangi í skóla.

Í þessu verkefni var byggingum í nokkrum héruðum í Sierra Leone breytt í nokkurs konar leikskóla (e. Early Learning Center), með það að markmiði að búa til örvandi umhverfi fyrir börn í fátækum þorpum. Gert var ráð fyrir að mæður sem tilheyra mæðraklúbbunum yrðu mikilvægir þátttakendur í leikskólunum. Þær fengu þjálfun í hvernig eigi að vinna með börnunum, hvernig styðja megi við að börn séu skráð í grunnskóla á réttum aldri, hvernig megi halda þeim sem lengst í barnaskólum og hvernig megi ýta undir meiri þátttöku samfélagsins í skólastarfinu. Þar að auki fengu þær þjálfun í að búa til leikföng fyrir börnin úr efnivið sem fyrirfinnst í þorpunum til þess að leikskólarnir séu sem ódýrastir í rekstri og sjálfbærir fyrir samfélögin.

Nánari lýsingu á verkefninu má fá í skýrslu sem er hér til hliðar.

Þetta verkefni er eitt fjögurra menntaverkefna sem Aurora hefur styrkt með UNICEF í Sierra Leone á tímabilinu 2008–2016.