Louise Bourgeois er í hópi þekktustu listakvenna samtímans. Hún lést árið 2010 á 99. aldursári, enn þá í fullu í fjöri og starfaði af þrótti sem listamaður. Hún hóf feril sinn sem listmálari en um miðja síðustu öld fór hún að takast á við skúlptúr sem síðan þróaðist út í viðamiklar innsetningar. Þar er hún brautryðjandi og af mörgum talin vera sá listamaður sem brúaði bilið milli nútímalistar og samtímalistar.
Á hundrað ára afmælisári Bourgeois voru sýningar á verkum hennar eftirsóttari en nokkurn tíma áður og því var þetta einstakt tækifæri fyrir Listasafn Íslands að setja upp sýningu af þessari stærðargráðu. Sýningin var sú fyrsta í Evrópu eftir andlát listakonunnar og komu erlendir gestir gagngert til Íslands til þess að bera hana augum.
Styrkur Aurora velgerðasjóðs til Listasafns Íslands fór í uppsetningu á verkum Louise Bourgeois og einnig til útgáfu veglegrar bókar sem gaf Íslendingum tækifæri til að kynnast betur þessari merku listakonu.