Árleg plötuverðlaun Auroru velgerðasjóðs
Kraumsverðlaununum og úrvalslista verðlaunanna, Kraumslistanum, er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.
Kraumsverðlaunin voru fyrst veitt árið 2008 og hefur verið úthlutað árlega síðan. Úrvalslisti verðlaunanna, Kraumslistinn, samanstendur af 20 plötum.
Verðlaunin snúast ekki um eina ákveðna verðlaunaplötu heldur að beina kastljósinu að Kraumslistanum í heild sinni og þeim 6 hljómplötum sem ár hvert hljóta Kraumsverðlaunin.
Kraumsverðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Allar útgáfur íslenskra listamanna eru gjaldgengar til verðlaunanna – hvort sem þær koma út á geisladisk, vínyl eða á netinu. Listamenn og hljómsveitir þurfa ekki að sækja sérstaklega um að plötur þeirra séu teknar til greina af dómnefnd eða greiða þátttökugjald.
Kraumslistinn er yfirleitt kynntur 1. desember ár hvert, á degi íslenskrar tónlistar.
Aðstandandi verðlaunanna var upphaflega Kraumur tónlistarsjóður sem starfræktur var á vegum Auroru velgerðarsjóðs. Frá lokun tónlistarsjóðsins árið 2016 hefur Aurora velgerðasjóður staðið að verðlaununum.
Hægt er að sjá hverjir hafa prýtt listann og hverjir hafa hlotið verðlaunin á hverju ári frá upphafi á heimasíðu Kraums tónlistarsjóðs.