Þriðja árið í röð framkvæmdi Aurora áhrifamat til að meta áhrif Sweet Salone verkefnisins á líf Sierra leoníska handverksfólksins sem vinnur fyrir verkefnið.
Almennt séð gefur áhrifamatið ágætis mynd af efnahagslegri stöðu handverksfólksins í Sierra Leone. Það sýnir vöxt framleiðslunnar fyrir hvert ár og þar ber að líta nokkra vitnisburði frá þeim sem koma að verkefninu.
Við getum státað okkur af því að framleiðsla jókst um 983% árið 2021 frá árinu á undan! Jú, þetta er ekki innsláttarvilla, það var nær þúsund prósenta aukning í framleiðslu! Síðustu ár höfum við einnig statt og stöðugt verið að auka fjölda þess handverksfólks sem vinnur við Sweet Salone verkefnið. Árið 2019 voru þau 31 talsins og voru komin upp í 44 á síðasta ári.
Við erum ótrúlega stolt að sjá beinu áhrifin af aukningu í framleiðslu, en það þýðir auknar tekjur fyrir framleiðendurna. Þrátt fyrir að fleira handverksfólk taki nú þátt fær hvert og eitt þeirra mun meira fyrir en áður, sem þýðir að talsvert hærra hlutfall þeirra getur nú lagt fyrir þann pening sem þau fá í gegnum verkefnið. Fyrir okkur er þetta gríðarlega mikilvægt.
Við erum einnig mjög stolt af því að kynjahlutfallið er að jafnast en árið 2021 voru 40% handverksfólksins konur, miðað við 30% árið 2019. Áhersla okkar á ungt fólk hefur einnig skilað sér í því að hlutfall handverksfólks undir 40 ára aldri hefur aukist frá 60% í 70%.
Velkomið er að skoða frekar niðurstöður gagnasöfnunar okkar og áhrifamatið hér.