Aurora er stolt að kynna að við nýlega skrifuðum undir samning við Utanríkisráðuneyti Íslands um samfjármögnun til frekari uppbyggingu á Lettie Stuart Pottery (LSP) í Sierra Leone. Verkefnið kallast Handleiðsla, fyrstu skrefin í sjálfbærum rekstri Lettie Stuart Pottery og miðast við að koma leirkeraverkstæðinu í sjálfbært rekstrarhorf.
Aurora velgerðasjóður er búinn að byggja upp, ásamt samstarfsaðilum, vel starfhæft leirkeraverkstæði rétt fyrir utan Freetown, höfuðborg Sierra Leone. Þar hefur einnig verið settur á laggirnar skóli þar sem nemendur læra að verða leirkerasmiðir.
Með stuðningi frá Utanríkisráðuneytinu mun Aurora fá liðsinni tveggja frábærra leirkerasmiða Guðbjörgu Káradóttur og Péter Korompai, sem munu dvelja á verkstæðinu samanlagt í 3 mánuði við handleiðslu og rannsóknir. Þau hafa bæði áður unnið fyrir Auroru og gefið mikilvægan stuðning við að koma verkstæðinu á laggirnar og aðstoðað við keramikskólann.
Að gera LSP að sjálfbæru verkstæði til framtíðar, sem getur haldið áfram að þjálfa ungt fólk, einkum konur, í framleiðslu leirmuna er lóð á vogarskálina á móti gífurlegu atvinnuleysi sem er landlægt í Sierra Leone. Hráefni til framleiðslu og eftirspurn eru til staðar og svigrúm fyrir mun fleiri starfandi leirkerasmiði í landinu. Með því að styrkja stoðir LSP eykst fjölbreytni í iðnaði og handverki og tækifæri skapast fyrir ungt fólk að koma undir sig fótum og sjá sér farborða til framtíðar. Með þessu verkefni er komið inn á fjölmörg heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna, einkum markmið 4, 8 og 9 um menntun fyrir alla, góða atvinnu og hagvöxt og nýsköpun og uppbyggingu.
Leirkeraverkstæðið er mjög einstakt og ekki mörg verkstæði í Afríku sem státa af getu til hábrennslu og þekkingu heimamanna til að búa til góða keramikvöru. Þetta verkefni er því ekki einungis atvinnuskapandi og áhugavert að því leiti heldur einnig er verið að ýta undir að varðveita handverk og þekkingu í landinu sem og að taka hana á næsta stig. Vörur handunnar í Sierra Leone úr hráefni frá nærumhverfinu eiga því mikið markaðstækifæri á heimsvísu núna þegar kröfur um sjálfbærni og uppruna handverks verða stöðugt háværari.
Sierra Leone Adult Education Association (SLADEA) er samstarfsaðili Auroru í Sierra Leone og rekur verkstæðið.