Aurora velgerðasjóður ráðstafar 210 milljónum króna til fjögurra styrktarverkefna hérlendis og í Afríku

23.01.08

Stjórn Aurora velgerðasjóðs kynnti í dag þá ákvörðun sína að ráðstafa alls 210 milljónum króna til fyrstu styrktarverkefna sjóðsins. Hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir landslags-arkitekt og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og Alfesca, stofnuðu velgerðasjóðinn fyrir réttu ári á fimmtugsafmæli Ólafs, 23. janúar 2007, og lögðu honum til einn milljarð króna í stofnframlag. Sjóðnum var síðar gefið nafnið Aurora (segulljós), honum voru settar samþykktir og starfsreglur og sjóðsstjórn skipuð.

Gert er ráð fyrir að verja arði og vaxtatekjum sjóðsins til ýmissa verkefna í þróunar-löndum og til að göfga mannlíf á Íslandi með því að styrkja verkefni á sviði menningar, mennta og lista í samræmi við samþykktir sjóðsins og ákvörðun sjóðsstjórnar hverju sinni.

Stjórn velgerðasjóðsins tilkynnir nú um fyrstu styrkina úr sjóðnum, samtals 100 milljónir króna, til fjögurra verkefna árið 2008. Tvö þessara verkefna eru til þriggja ára og í raun ráðstafar stjórn velgerðasjóðsins því alls 210 milljónum króna:

Verkefnin sem hlutu styrki til þriggja ára:

Menntamálaráðherra Síerra Leóne, dr. Minkailu Bah, kom til Íslands í tilefni af ákvörðun Aurora velgerðasjóðs um að styðja uppbyggingu menntakerfis landsins. Hann hitti m.a. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að máli og notaði tækifærið til að heimsækja bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Fuglasafn Sigurgeirs er kennt við Sigurgeir Stefánsson á Ytri-Neslöndum við Mývatn, áhugamann um fuglalíf og náttúru sem lést af slysförum árið 1999. Hann safnaði uppstoppuðum fuglum og eggjum og átti orðið um 320 uppstoppaða fugla og egg undan um 100 tegundum varpfugla á Íslandi. Aðstandendur Sigurgeirs ákváðu að ráðast í að byggja hús yfir safnið og hýsa þar líka Sleipni, bát Jóns Sigtryggs-sonar á Syðri-Neslöndum, eitt fyrsta samgöngutæki Mývetninga. Nýja sýningarhúsið var orðið fokhelt á árinu 2006. Þar vantar ýmsan búnað til sýningahalds og Aurora velgerðasjóður ætlar að hlaupa undir bagga. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:
„Fjölskylda Sigurgeirs heitins Stefánssonar á heiður skilinn fyrir að hafa lagt út í að byggja hús yfir fuglasafnið og undirbúa sýningahald þar af fádæma metnaði og þrautseigju. Stjórn Aurora velgerðasjóðs hefur ákveðið að leggja henni lið svo Fuglasafn Sigurgeirs fái sem fyrst þann aðbúnað sem því ber til að auðga mannlíf og menningu í Mývatnssveit og á landinu öllu.“

Heilbrigðisverkefni í Malaví. Aurora velgerða-sjóður greiðir kostnað við viðbyggingu barnadeildar héraðssjúkrahússins í Mangochi og gert er ráð fyrir að nýja húsið verði tekið í gagnið í haust. Barnadeildin er alltof lítil og gert er ráð fyrir að hægt verði að tvöfalda húsrými hennar og bæta 36 sjúkrarúmum við þau 36 rúm sem fyrir eru. Einnig á að koma á laggirnar 10 rúma gjörgæslu- og nýburadeildum, móttökudeild og vaktstöð fyrir hjúkrunarfólk. Jafnframt verður farið í nauðsynlegar framkvæmdir við rotþrær og fráveitulagnir tilheyrandi barnadeildinni/sjúkrahúsinu. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:
„Brýnt er að auka og efla heilbrigðisþjónustu í Malaví, ekki síst við börn. Tíunda hvert lifandi fætt ungabarn deyr og sautján börn af hverjum hundrað deyja áður en þau verða fimm ára. Þarna er því augljóslega verk að vinna og Aurora velgerðasjóður ætlar að leggja sitt af mörkum til að bæta heilbrigðisþjónustu við barnadeild héraðssjúkrahússins í Mangochi í Malaví.“
Menntaverkefni í Síerra Leóne. Markmiðið er að styðja Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir 2015. Aurora velgerðasjóður og UNICEF á Íslandi munu vinna í sameiningu að því marki að 85% barna í Síerra Leóne njóti grunnmenntunar í skóla árið 2010. Sjóðurinn ver jafnvirði 120 milljóna íslenskra króna til að reisa skólahús í Síerra Leóne á árunum 2008-2010. Í hverju húsi verða þrjár til sex skólastofur þar sem gert er ráð fyrir að kenna börnum á aldrinum 6-12 ára. Jafnframt útvegar sjóðurinn húsgögn og nauðsynlegan búnað í skólana og sér húsunum fyrir vatni, hreinlætisaðstöðu og leiktækjum utan dyra. Þá mun sjóðurinn standa straum af kostnaði við að mennta og þjálfa kennara, horfa jafnframt sérstaklega til menntunar og öryggis stúlkna og styðja hópastarf kvenna og mæðra. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Menntun er eitt helsta vopnið gegn fátækt í heiminum og gefur einkum börnum færi á mannsæmandi lífskjörum, eykur sjálfsvirðingu þeirra og hefur víðtæk áhrif til að skapa upplýst samfélag. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur að mati stjórnar Aurora velgerðasjóðs gert heildstæða aðgerðaáætlun um uppbyggingu grunnmenntunar í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims. Þar er ráðist að rótum vandans og tekið á flestum þáttum sem standa í vegi þess að börn á grunnskólaaldri, einkum stúlkur, njóti þeirra menntunar sem þau eiga rétt á.“

Kraumur tónlistarsjóður er sjálfstæður sjóður á vegum Aurora velgerðasjóðs. Hann hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Íslenskt tónlistarlíf er sérstakt um margt, einkum vegna áberandi krafts og áræðis sem einkennir tónlistarfólk af yngri kynslóðinni. Sykurmolarnir og Björk ruddu braut í tónlistarútrás sem á sér enga hliðstæðu. Fjöldamargir tónlistarmenn fetuðu í fótspor þeirra með undraverðum árangri og nú er tónlistarlíf á Íslandi orðið einn sterkasti þátturinn í ímynd lands og þjóðar út á við. Óvenjulegt samspil dægurtónlistar og sígildrar tónlistar getur orðið drifkraftur frekari landvinninga. Stuðningur við unga tónlistarmenn, til verkefna og samstarfs af ýmsu tagi, skýtur styrkari stoðum undir þennan mikilvæga vaxtarbrodd í íslensku menningarlífi.“

Six artists and bands received the 2024 Kraumur Music Awards 

Six artists and bands received the 2024 Kraumur Music Awards 

The Kraumur Music Award was awarded for the seventeenth time last night for the Icelandic records that stand out in terms of quality, ambition and originality.  The Kraumur Music Award is an annual album award that has been awarded since 2008. It is intended to...