Sex listamenn og hljómsveitir hlutu í dag Kraumsverðlaunin 2014 en tilkynnt var um vinningshafana við hátíðlega athöfn í Vonarstrætinu. Verðlaunahafarnir eru Óbó, sem hljóta verðlaunin fyrir plötuna Innhverfi, Pink Street Boys fyrir Trash From The Boys, Hekla Magnúsdóttir fyrirHekla, Börn fyrir Börn, Kippi Kanínus fyrirTemperaments, og Anna Þorvaldsdóttir fyrir Aerial.
„Þetta var sérstaklega sterkt ár í útgáfu og athygli vekur að um þriðjungur platna ársins voru aðeins gefnar út rafrænt,“ sagði Árni Matthíasson, formaður öldungaráðs Kraums.
Kraumur mun styðja við verðlaunaplöturnar og reyna að auka möguleika listamannanna bak við þær til að koma verkum sínum á framfæri erlendis með því að kaupa ákveðinn fjölda af plötunum af tónlistarfólkinu eða útgefendum þeirra og dreifa þeim til ýmissa starfsmanna tónlistarbransans erlendis.
Þá tók Hekla Magnúsdóttir, ein vinningshafa lagið við tilefnið en hún er ein af fáum þeremínleikurum á Íslandi.
Kraumsverðlaunin voru fyrst veitt 2008. Engin listamaður eða hljómsveit hefur hlotið verðlaunin oftar en einu sinni, en verðlaunahafar eru valdir af hinum 20 platna Kraumslista sem birtur er í byrjun desember. Markmiðið með verðlaununum og listanum er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna. Þau eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar.
Kraumslistinn í ár:
- AdHd – AdHd 5
- Anna Þorvaldsdóttir – Aerial
- Ben Frost – Aurora
- Börn – Börn
- Grísalappalísa – Rökrétt framhald
- Hekla Magnúsdóttir – Hekla
- Kippi Kaninus – Temperaments
- Low Roar – O
- M-Band – Haust
- Oyama – Coolboy
- Óbó – Innhverfi
- Ólöf Arnalds – Palme
- Pink Street Boys – Trash From the Boys
- Russian Girls – Old Stories
- Sindri Eldon – Bitter & Resentful
- Singapore Sling – The Tower of Foronicity
- Skakkamanage – Sounds of Merry Making
- Skúli Sverris, Anthony Burr & Yungchen Lhamo – They Hold it For Certain
- Úlfur Kolka – Borgaraleg óhlýðni
- Þórir Georg – Ræfill
Aðstandandi Kraumslistans er Kraumur tónlistarsjóður, sem er sjálfstætt starfandi sjóður á vegum Auroru velgerðarsjóðs. Kraumur hefur það að meginhlutverki að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn.
Kraumslistinn er valinn af tíu manna öldungaráði verðlaunanna, en það skipa:
Árni Matthíasson (formaður dómnefndar), Benedikt Reynisson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Ólafur Halldór Ólafsson, Ragnheiður Eiríksdóttir, Trausti Júlíusson, Valdís Thor og Þórunn Edda Magnúsdóttir.