Annað frábært ár!

Með þessari frétt viljum við nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn og samstarfið á liðnu ári og óskar ykkur gleðilegs nýs árs!

Okkur langar líka að taka smá stund og fara yfir liðið ár með því að nefna nokkra hápunkta ársins 2019:

Janúar – 1+1+1 teymið kom í heimsókn til Sierra Leone og vann m.a. mikið með vefurunum í Brama Town. Árangurinn var magnaður!

Febrúar – Opnun Lettie Stuart keramiksskólans! Eftir tímabil erfiðrar vinnu og undibúnings var skólinn formlega opnaður!

Auk opnun skólans var einnig undirritaður nýr samningur við Grassroots Gender Empowerment Movement (GGEM) Microfinance, sem er stofnun sem býður upp lán fyrir einstaklinga og smærri fyrirtæki.

Mars – Freetown Music Festival! Samblanda af íslenskum, enskum og síerra leónískum tónlistarmönnum.

Apríl – Við studdum við Magbenteh Community Boarding School með því að fjármagna hluta af matarprógramminu þeirra fyrir 186 nemendur og 10 starfsmenn.

Maí – Mánuður keramiks verkstæðisins! Bæði Peter Korompie og Guðbjörg Káradóttir komu í sjálfboðavinnu á verkstæðið í einn mánuð. Peter stýrði byggingu á nýja brennsluofninum og Guðbjörg hjálpaði til við kennsluna. Einnig voru settar upp sólarsellur og fékk verkstæðið þar með loksins rafmagn til að keyra nauðsynlegan búnað og veita lýsingu á skýjuðum dögum.

Júní – Stjórnarfundur Auroru var haldinn í Geneva í Sviss! Fundurinn stóð yfir í tvo daga og var þar rætt um liðna og komandi tíma og einnig var grunnurinn að Aurora Impact skipulagður!

Júlí – Jafnvel þótt rigningartímabilið stæði yfir sem hæst var undirbúningurinn fyrir útgáfu OSUSU plötunnar í fullum gangi!

Ágúst – Eftirmiðdagur á Íslandi með Guðbjörgu Káradóttur á Íslenska hönnunarsafninu.

September – Aurora fékk nýjan starfsmann! Suzanne byrjaði að vinna fyrir Auroru sem verkefnastjóri, og er eitt af stóru verkefnunum hennar nýtt verkefni  sem við köllum Aurora Impact. Við getum ekki beðið eftir að kynna þetta verkefni árið 2020!

Fyrsta lagið af plötunni Osusu var einnig gefið út, Woman. Platan er samstarfsverkefni íslenskra, breskra og síerra leónískra tónlistrarmanna. Hver hefði haldið fyrir ári síðan að í lok 2019 myndi heil plata koma út?

Október – Fyrsta tölvunámskeiðið var haldið á nýju skrifstofunni. 19 nemendur útskrifuðust eftir 3 vikna námskeið! Einnig gáfum við Leaders Collage 20 tölvur fyrir nýju upplýsingatækni stofunna þeirra.

Talandi um tölvur, þá gáfum við einng Leaders Collage 20 tölvur fyrir nýju upplýsingatækni stofuna þeirra í október.

Nóvember – Annar nýr starfsmaður hjá Aurora! Veronica gekk til liðs við okkur sem móttökuritari!

Annað tölvunámskeið var einnig haldið, og í þetta sinn var það tveggja vikna byrjendanámskeið. Nemendurnir stóðu sig frábærlega vel og vonumst við til að sjá eitthvað af þeim á framhaldsnámskeiðunum okkar!

Desember – Upphaf Technovation Girls í Sierra Leone! Við erum stollt af því að vera einn helsti styrktaraðili þessa verkefnis, þar sem ungar stúlkur á aldrinum 10-18 ára læra grunnatriði kóðunnar og hvernig þróa á farsímaforrit. Þar að auki gáfum við þeim sex tölvur!


Tölvur fyrir Kvennafangelsi!

Í gær heimsóttum við Freetown Female Correctional Center (FFCC) og gáfum þeim fjórar tölvur fyrir tölvuverið þeirra.

FFCC er eitt af kvennafangelsunum í Sierra Leone, upphaflega byggt fyrir 18 konur en í dag eru þar 68 konur sem eru annaðhvort að afplána dóm eða bíða dóms. Með hjálp AdvocAid bíður FFCC m.a. upp á saumanámskeið, lestrarnámskeið og tölvunámskeið. Í augnablikinu eru þau aðeins með sex tölvur en 18 konur sóttu tölvunámskeiðið og er því kennt bæði á morgnanna og seinnipartinn. Með fjórum auka tölvum geta núna fleiri konur tekið þátt í tölvunámskeiðinu, sem mun hjálpa þeim mikið er þær fá frelsið á ný.

Við ákváðum einnig að styðja beint við AdvocAid með því að gefa þeim eina tölvu fyrir fjármálateymið þeirra í Freetown. Þar sem stofnunin þeirra hefur farið vaxandi hafa starfsmenn þurft að deila með sér tölvum. Við viljum þakka SAMSKIP á Íslandi fyrir að gefa okkur tölvurnar, án þeirra hefðum við ekki getað veitt þessa aðstoð.

 


Til hamingju vinningshafar Kraumsverðlaunanna 2019!

Við óskum handhöfum Kraumsverðlaunanna 2019 hjartanlega til hamingu!!

 • Between Mountains – Between Mountains
 • Bjarki – Happy Earthday
 • Gróa – Í glimmerheimi
 • Hlökk – Hulduljóð
 • K.óla – Allt verður alltílæ
 • Sunna Margrét – Art of History

Þetta er í tólfta sinn sem Kraumur tónlistarsjóður Auroru stendur fyrir afhendingu Kraumsverðlaunanna fyrir þær íslensku hljómplötur sem þykja hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar gæði, metnað og frumleika.

Kraumsverðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Allar útgáfur íslenskra listamanna eru gjaldgengar til verðlaunanna – hvort sem þær koma út á geisladisk, vínyl eða á netinu.

Alls hafa nú 62 hljómsveitir og listamenn hlotið Kraumsverðlaunin frá því þau voru fyrst veitt árið 2008. Frekari upplýsingar um Kraumsverðlaunin og fyrri verðlaunhafa má finna hér: http://kraumur.is/forsida/kraumsverdlaunin/

Greinilegt er að mikil gróska er í íslensku tónlistarlífi hvað útgáfurstafsemi varðar í ár, enda fór dómnefndin í gegnum yfir 370íslenskar plötur og útgáfur sem komu út á árinu við val sitt á Kraumsverðlaununum 2019.

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

DÓMNEFND
Kraumslistinn og Kraumsverðlaunin eru valin af átta manna dómnefnd sem skipuð er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi. Dómnefndina í ár skipa; Árni Matthíasson (formaður), Arnar Eggert Thoroddsen, Birna María Másdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Óli Dóri, Tanya Lind, Trausti Júlíusson og Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir.


Öðru tölvunámskeiði er nú lokið!

Í dag útskrifuðust 10 nemendur af byrjenda tölvunámskeiði Auroru! Síðastliðnar tvær vikur hafa nemendurnir nýtt tímann í að skilja vel grunninn að því að verða tölvufær. Í lok námskeiðsins var útskriftarveisla þar sem veitt voru viðurkenningarskjöl og komum við besta nemandanum á óvart með því að gefa honum tölvu!

Við viljum þakka Íslandsbanka fyrir að hafa gefið okkur tölvuna og einnig SAMSKIP fyrir að gefa okkur tölvurnar sem við notum á námskeiðunum okkar!

 

 


Kraumslistinn 2019

Við kynnum með stolti tilnefningar til Kraumsverðlaunanna i ár með birtingu Kraumslistans 2019.

Þetta er í tólfta sinn sem Kraumslistann er birtur yfir þær íslensku hljómplötur sem þykja hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar gæði, metnað og frumleika.

Greinilegt er að mikil gróska er í íslensku tónlistarlífi hvað útgáfurstafsemi varðar, enda fór dómnefndin í gegnum yfir 370 íslenskar plötur og útgáfur sem komu út á árinu við val sit.

Mik­il fjöl­breytni ein­kenn­ir Kraum­slist­ann í ár. Þar er að finna tónlist úr öll­um átt­um og má þar nefna popp og hipp hopp, teknó og raf­tónlist, rokk, pönk, jazz, til­rauna- og kvik­mynda­tónlist.

List­inn hef­ur að geyma plöt­ur frá lista­mönn­um sem hafa gert garðinn fræg­an á alþjóðavett­vangi und­an­farið ár, t.a.m. tón­skáld­inu Hildi Guðna­dótt­ur sem til­nefnd er til Grammy-verðlaun­anna og tekn­ó­tón­list­ar­mann­in­um Bjarka sem spilaði um all­an heim á ár­inu og gaf út sína fjórðu breiðskífu, sem og spenn­andi nýliðum á borð við Between Mountains, Ástu Pjet­urs­dótt­ur, Gugus­ar, Skoff­ín og Sunnu Mar­gréti.

Dómnefndin mun nú velja þær sex breiðskífur af Kraumslistanum sem hljóta munu Kraumsverðlaunin 2019.

KRAUMSLISTINN 2019 – ÚRVALSLISTI KRAUMSVERÐLAUNANNA:

 

 • Anda­vald – Und­ir Skyggðahaldi
 • Ásta Pjet­urs­dótt­ir – Syk­urbað
 • Berg­lind María Tóm­as­dótt­ir – Her­berg­ing
 • Between Mountains – Between Mountains
 • Bjarki – Happy Eart­hday
 • Coun­tess Malaise – Hystería
 • Fel­ix Leif­ur – Brot
 • Grísalappalísa – Týnda rás­in
 • Gróa – Í glimmer heimi
 • Gugus­ar – Mar­tröð
 • Hild­ur Guðna­dótt­ir – Cherno­byl
 • Hist og – Days of Tundra
 • Hlökk – Huldu­hljóð
 • Hush – Pand­emonial Winds
 • K.óla – Allt verður all­tílæ
 • kef LAVÍK – Blautt heitt langt vont sum­ar
 • Kort­er í flog – Anna & Bern­h­ard Blume (drepa alla fas­ista)
 • Krist­ín Anna – I must be the devil
 • Milena Glowacka – Radi­ance
 • Myrra Rós – Thoug­ht Spun
 • Si­deproj­ect – sand­in­ista relea­se party / ætla fara god­mode
 • Skoff­ín – Skoff­ín bjarg­ar heim­in­um
 • Stor­my Daniels – Agi styrk­ur ein­beit­ing harka út­hald hafa gam­an
 • Sunna Mar­grét – Art of History
 • Tumi Árna­son / Magnús Trygva­son Eli­assen — Allt er ómælið

 

Kraumsverðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Allar útgáfur íslenskra listamanna eru gjaldgengar til verðlaunanna – hvort sem þær koma út á geisladisk, vínyl eða á netinu.

Kraumsverðlaunin voru fyrst veitt árið 2008 og hefur verið úthlutað árlega síðan. Alls hafa 56 hljómsveitir og listamenn hlotið verðlaunin, á meðan rúmlega tvö hundruð listamenn og hljómsveitir hafa verið tilnefnd til þeirra með því að komast á Kraumslistann.

MYND með frétti: Auður og GRDN sem voru meðal þeirra sex listamanna og hljómsveita sem hlutu Kraumsverðlaunin árið 2018.

DÓMNEFND
Kraumslistinn og Kraumsverðlaunin eru valin af átta manna dómnefnd sem skipuð er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist í fjölmiðlum og á öðrum vettvangi. Dómnefndina í ár skipa; Árni Matthíasson (formaður), Arnar Eggert Thoroddsen, Birna María Másdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Trausti Júlíusson, Tanya Lind, Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir og Óli Dóri.

Frekari upplýsingar um Kraumsverðlaunin og fyrri verðlaunhafa má finna hér: http://kraumur.is/forsida/kraumsverdlaunin/


Aurora styður við Technovation Girls!

Technovation eru alþjóðleg frjáls félagasamtök sem einblína á að styrkja ungar stúlkur og fjölskyldur þeirra með  tæknimenntun. Technovation er með verkefni og námskeið út um allan heim fyrir stelpur á aldrinum 10-18 ára, þar sem þær öðlast færni í að verða tæknifrumkvöðlar og leiðtogar. Tölurnar sýna að eftir að hafa lokið námskeiði hjá Technovation hafa 58% stúlknanna skráð sig í tölvunarfræði.

Stelpurnar vinna í litlum hópum með leiðbeinanda. Frá árinu 2009 hafa yfir 10.000 stelpur tekið þátt í námskeiðum hjá Technovation í yfir 78 löndum, og hafa 1700 smáforrit verið búin til af þátttakendum Technovation.

Í ár kom Technovation í fyrsta sinn til Sierra Leone og er Aurora velgerðasjóður stoltur styrktaraðili Technovation Girls í Sierra Leone. Auk fjárframlaga hefur Aurora útvegað þeim sex fartölvur, sem Íslandsbanki hafði gefið Auroru. Tölvurnar verða notaðar af stúlkunum til að öðlast grunnkóðunarhæfileika og til að þróa símaforrit sem eiga að leysa raunveruleg vandamál.