Aurora velgerðasjóður ráðstafar 100 milljónum króna til fjögurra verkefna á Íslandi og í Afríku

16.03.10

Stjórn Auroru velgerðasjóðs kynnti í dag þá ákvörðun sína að veita alls 100 milljónir króna til fjögurra verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne.

Nýtt styrktarverkefni sjóðsins er Brúðuheimar í Borgarnesi, lista- og menningarmiðstöð, sem verður mikilvægur þáttur í menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu.  Brúðuheimar fá 15 milljónir króna, þar af 7 milljónir króna í formi láns.
Þrjú verkefni fá styrki í annað eða þriðja sinn: Hönnunarsjóður Auroru fær 25 milljónir króna, Kraumur, tónlistarsjóður Auroru, fær 20 milljónir króna og menntaverkefni í Síerra Leóne fær 40 milljónir króna.
Þetta er í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr Auroru velgerðasjóði, sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson stofnuðu í janúar 2007 og lögðu til einn milljarð króna. Á þessum þremur árum hefur fjármunum verið varið úr sjóðnum til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og í þróunarlöndunum. Stofnfé Auroru velgerðasjóðs hefur ávaxtast ágætlega og er í dag um 1,3 milljarðar króna.
Sjóðurinn hefur verið trúr þeim meginmarkmiðum sínum að styrkja fá en stór verkefni þar sem þörf er fyrir verulega fjármuni til að þau geti orðið að veruleika og dafnað.  Sjóðsstjórn tekur jafnframt mið af því að viðkomandi verkefni hafi afgerandi áhrif í samfélögum sínum. Lögð er áhersla á að fjárframlög sjóðsins á Íslandi efli nýsköpun og sprotastarfsemi og auðgi þannig flóru atvinnugreina í landinu. Verkefni, sem Aurora styrkir í þróunarlöndunum, eru tengd menntun og menningu en einnig heilsugæslu. Leitast er við að fylgja verkefnum vel eftir og aðstoða styrkþega og samstarfsaðila eftir föngum.
Frá stofnun, fyrir þremur árum, hefur Aurora velgerðasjóður ráðstafað alls 322,5 milljónum króna til 11 verkefna.  Þar af hafa 144,5 milljónir króna runnið til fjögurra verkefna í Afríku og Nepal og 178 milljónir króna til sjö verkefna hér á landi. Þess má geta að áður en sjóðurinn var formlega stofnaður styrktu þau Ingibjörg og Ólafur tvö verkefni, hér á landi og í Afríkuríkinu Síerra Leóne, um 78 milljónir króna, þannig að heildarupphæð styrkja er orðin um 400 milljónir króna.
Landnámssetrið í Borgarnesi er annað þessara tveggja innlendu verkefna og markaði reyndar upphafið að stofnun Auroru velgerðasjóðs. Það er um margt dæmigert fyrir verkefni sem sjóðurinn styrkir hér á landi og setrið  hefur tvímælalaust haft mikil áhrif í heimahéraði sínu og raunar í íslensku samfélagi. Fuglasafn Sigurjóns við Mývatn er annað áhugavert verkefni sem Aurora velgerðasjóður hefur styrkt á landsbyggðinni. Sjóðurinn hefur einnig haft frumkvæði að því að stofna tvo dóttursjóði, Kraum tónlistarsjóð og Hönnunarsjóð Auroru.

Brúðuheimar, lista og menningamiðstöð, er frumkvöðlaverkefni hjónanna Bernd Ogrodnik brúðulistamanns og Hildar Jónsdóttur framkvæmdastjóra. Miðstöðin verður í gömlum húsum sem áður hýstu Kaupfélag Borgfirðinga í Borgarnesi. Húsin eru frá 19. öld og mikilvæg fyrir verslunarsögu landsins, enda eru þau friðuð og er verið að endurgera þau í anda byggingarlistar 19. aldar.
Miðstöðin verður annars vegar gagnvirkt leikbrúðusafn og hins vegar brúðuleikhús sem sýnir verk fyrir bæði börn og fullorðna.  Þar verður einnig rekið kaffihús með sérstaka áherslu á hollustu fyrir börn á öllum aldri.
Heimsókn í Brúðuheima verður ævintýraleg upplifun og skemmtileg samverustund fólks á öllum aldri enda er brúðuleikúsið heillandi heimur út af fyrir sig og höfðar bæði til barna og fullorðinna.
Stefnt er að því að opna Brúðuheima í maí 2010 og verður menningarmiðstöðin rekin árið um kring.

Rökstuðningur Auroru velgerðasjóðs:
Brúðuheimar hafa alla burði til að verða töfraheimur fyrir unga sem aldna enda er listrænn stjórnandi Brúðuheima, Bernd Ogrodnik, meðal fremstu brúðulistamanna heims. Brúðuheimar eru öflug viðbót við menningartengda ferðaþjónustu í Borgarbyggð og munu án efa styrkja þá aðila sem fyrir eru, svo sem Landnámssetrið og Snorrastofu í Reykholti.

Í krafti þessara verkefna hafa á annað hundrað kennarar hlotið endurmenntun og um 60 skólabyggingar risið með tilheyrandi vatnsveitu- og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum.
Á árinu sem leið var ákveðið að leggja aukna  áherslu á gæði námsins og að laga það sem best að þörfum barnanna og þá sérstaklega stúlkubarna.  Markmiðið er að halda stúlkunum sem lengst í skóla og koma þannig í veg fyrir að þær gengi í hjónaband og hefji barneignir á æskuárum.  Meira er því lagt í endurmenntun kennara og þjálfun í kennsluaðferðum þar sem barnið er sett í forgang, auk þess sem samfélagið er virkjað með því að stofna foreldrafélög við skólana og mæðraklúbba.  Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Auroru velgerðasjóðs, http://www.aurorafund.is/, og einnig á heimasíðu UNICEF, www.unicef.is

Starfsemi Kraums tónlistarsjóðs hefur verið umfangsmikil og blómleg. Á þessum tveimur árum hefur sjóðurinn úthlutað tæplega 30 milljónum króna í beinum styrkjum til 74 tónlistarmanna, hljómsveita og tónlistartengdra verkefna.  Einnig hefur sjóðurinn átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Sjóðurinn hefur m.a. styrkt tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðað við markaðssetningu erlendis og staðið fyrir nýjum tónlistarviðurkenningum, Kraumslistanum.
Ljóst  er að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku menningarlífi, sem marka má til dæmis af því að tæplega 200 umsóknir bárust þegar síðast var auglýst úthlutun úr sjóðnum! Framkvæmdastjóri Kraums, tónlistarsjóðs Auroru, er Eldar Ástþórsson.  Frekari upplýsingar eru á líflegri heimasíðu Kraums, www.kraumur.is.

Markmið með stofnun sjóðsins var að virkja kraftinn, sem býr í hönnunargeiranum, með beinum fjárframlögum til framúrskarandi hönnuða og auðvelda þeim að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum og vörum á framfæri hérlendis og erlendis, enn fremur að miðla þekkingu á þessu sviði, efla grasrótarstarf og stuðla að samstarfi hönnuða og aðila úr athafnalífinu. Lagt er upp úr því að koma ungum hönnuðum til aðstoðar með ráðgjöf, tengslamyndun og starfsnámsstyrkjum.
Sjóðurinn leggur áherslu á að styðja verkefni sem skara fram úr á einhvern hátt og hvetja þannig til hugmyndaauðgi og skapandi hugsunar í íslenskri hönnun.
Það sem af er hefur Hönnunarsjóður Auroru úthlutað alls 30 milljónum í beinum styrkjum til 25 verkefna og hönnuða og hann hefur einnig tekið þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Frekari upplýsingar um Hönnunarsjóð Auroru eru á heimasíðu sjóðsins, www.honnunarsjodur.is

Six artists and bands received the 2024 Kraumur Music Awards 

Six artists and bands received the 2024 Kraumur Music Awards 

The Kraumur Music Award was awarded for the seventeenth time last night for the Icelandic records that stand out in terms of quality, ambition and originality.  The Kraumur Music Award is an annual album award that has been awarded since 2008. It is intended to...