Of Monsters and Men, Sóley Stefánsdóttir, Sólstafir, Lay Low, og fleiri fá styrk á fimm ára starfsafmæli Kraums.
Á fimm ára starfsafmæli sjóðsins heldur Kraumur áfram að styðja íslenskt tónlistarlíf af krafti. Í dag tilkynnti sjóðurinn stuðning við 15 verkefni; 10 verkefni listamanna sem eru af margvíslegum toga á erlendum og innlendum vettvangi, þrjár tónlistarhátíðir hljóta stuðning og tvö fræðsluverkefni. Ákveðin áhersla er á að vinna með kynningu á íslenskri tónlist erlendis í úthlutun sjóðsins að þessu sinni sem og öflugu tónlistarstarfi hérlendis í formi fræðslu og tónleikahalds metnaðarfullra tónlistarhátíða.. Alls bárust sjóðnum 189 umsóknir. Stærstu styrkina hlaut Sóley Stefánsdóttir og hljómsveitin Sólstafir til kynningar á tónlist sinni erlendis. Þá fengu Of Monsters and Men og Lay Low veglegan stuðning vegna tónleikaferðar þeirra um Bandaríkin og Kanada en hún er nýhafin. Meðal annarra styrkþega eru Kammerkór Suðurlands, Dead Skeletons, Moses Hightower, Mr Silla og Snorri Helgason, Eistnaflug, Stafnbúi og Extreme Chill Festival undir Jökli.
Kraumur tónlistarsjóður styður viðkomandi verkefni með fjárhagslegu framlagi sem og faglegri aðstoð og vinnu.
ÚTRÁS – stuðningur & samstarf við listamenn og hljómsveitir : Samtals 5.400.000 kr.
Sóley Stefánsdóttir Evróputúr og ýmsar tónleikahátíðir 1.200.000 kr.
Sólstafir Tvær tónleikaferðir og rokkhátíðir 1.000.000 kr.
Lay Low Tónleikaferð um BNA og Kanada 800.000 kr.
Of Monsters and Men Tónleikaferð um BNA og Kanada 800.000 kr.
Kammerkór Suðurlands Kynning á kórnum og tengdum verkum 600.000 kr.
Dead Skeletons Tónleikar í Evrópu m.a. Hróarskelda 500.000 kr.
Stafnbúi: Rímur Tónleikar í Þýskalandi með 8 manna sveit 500.000 kr.
INNRÁS – stuðningur og samstarf við listamenn og tónlistarhátíðir við tónleikahald innanlands 2012 : samtals 4.000.000 kr.
Eistnaflug Rokk í þyngri kantinum á Neskaupstað 700.000 kr.
Mr. Silla og Snorri Helga Innrás – 7 tónleikar á 7 stöðum á 7 dögum 700.000 kr.
Orgel Bróðir Tónleikar í ýmsum kirkjum 600.000 kr.
Extreme Chill Festival Rafmögnuð tónlistarhátíð undir Jökli 500.000 kr.
Podium Festival 2012 Klassísk kammermúsíkhátíð og námskeið 500.000 kr.
Moses Hightower Innrás út á land næstkomandi haust 500.000 kr.
Við Djúpið Tónleikaröð og námskeið fyrir ungt fólk 500.000 kr.
PLÖTUGERÐ OG KYNNING – stuðningur og samstarf við listamenn og hljómsveitir á sviði lagasmíða, plötugerðar og kynningar samtals 400.000 kr.
Duo Harpverk Kynning / Plötugerð 400.000 kr.
Ein undantekning var gerð þegar eitt verkefni komst í gegn í þessum flokki enda mikið og gott frumkvöðlastarf í gangi hjá þeim Katie Buckley og Frank Aarnink sem skipa Duo Harpverk sem hafa verið óþreytandi að flytja tónlist eftir ung íslensk tónskáld.
EIGIN VERKEFNI KRAUMS – samtals 3.100.000 kr.
Fræðsla og aðrir styrkir Ýmis verkefni – 1.000.000 kr.
Kraumslistinn 2012 Stuðningur & viðurkenning við ísl. plötuútgáfu – 900.000 kr.
Hljóðverssmiðjur Fræðsla, handleiðsla / samstarfi við Músíktilraunir – 800.000 kr.
Aldrei fór ég suður Námskeið og fræðsla öllum opin – 400.000 kr.
Þetta er í fjórða sinn sem Kraumur stendur að námskeiði og fræðsluverkefni í samvinnu við tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður en þar er reynt að greina ýmis mál sem tengjast tónlistargeiranum og síbreytilegu umhverfi.
______
Megintilgangur Kraums er að stuðla að og styrkja íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga tónlistarmenn. Yfirlýst stefna sjóðsins er að styrkja tiltölulega fá verkefni/listamenn, en gera það þannig að stuðningurinn sé afgerandi. Verkefnaval Kraums tekur mið að því að styrkir til listamanna og verkefna eru í flesta staði hærri og veglegri og þar af leiðandi færri yfir heildina. Þetta er í samræmi við álit fagráðs Kraums sem og niðurstöðu árangursmats Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands sem gert var fyrir Kraum og kynnt var fyrir ári.
Kraumur tónlistarsjóður, sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf – fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Kraumur vill styðja við og ýta undir nýsköpun og metnað á tónlistarsviðinu.
Frá því Kraumur hóf starfsemi sína hafa yfir áttatíu listamenn og hljómsveitir hlotið stuðning frá sjóðnum og má þar nefna Amiina, Bang Gang, Bloodgroup, Celestine, Daníel Bjarnason, Dikta, Elfa Rún Kristinsdóttir, Hjaltalín, Lay Low, Melkorka Ólafsdóttir, Mugison, Nordic Affect, Prinspóló, Ólöf Arnalds, Sin Fang, Skálmöld og Víkingur Heiðar Ólafsson. Kraumur hefur einnig haldið úti samstarfsverkefnum með Músíktilraunum Tónabæjar, Listahátíð í Reykjavík, Jazzhátíð í Reykjavík, Iceland Airwaves, Aldrei fór ég suður, ÚTÓN og fleiri aðilum.