Ferð stjórnar til Sierra Leone

20.11.09

Það var átta manna hópur Íslendinga sem beið óþreyjufullur við innritunarborðið á flugvellinum á Heathrow til að komast í flug til Freetown, Sierra Leone nú í byrjun nóvember. Flugið var yfirbókað sem jók spennuna enn frekar, okkur var boðið að vera degi lengur í London með góðan vasapening en við afþökkuðum, dagskrá næstu daga var þéttsetin og hafði tekið langan tíma í undirbúningi svo við vildum ólm komast á áfangastað.
Hópurinn sem um ræðir var stjórn Auroru og framkvæmdastjóri ásamt framkvæmdastjóra Unicef á Íslandi.
Tilgangur ferðarinnar var að kynna okkur stöðu menntaverkefnisins sem Aurora styrkir þar í landi og unnið er í samvinnu við Unicef og menntayfirvöld í landinu.   Að sjá hverju hefur verið áorkað og heimsækja nokkra skóla sem komust á legg vegna fjárframlags sjóðsins. En einnig að skoða hugsanleg ný verkefni á vegum hjálparstofnana og jafnvel einstaklinga.
Undanfarin ár hafa tugir skólabygginga risið víðs vegar um landið að tilstuðlan stofnenda velgerðarsjóðsins Auroru.  Til að byrja með var áherslan lögð á byggingu skólahúsnæðis, víðs vegar í afskekktum byggðum landsins, enda var þörfin mikil, þar sem mikið hafði eyðilagst í í borgarastyrjöldinni sem geisaði í landinu frá 1991 – 2002.    50 skólar voru byggðir árið 2007 fyrir fjárframlag frá Ólafi og Ingibjörgu  en í framhaldi af því settu þau á laggirnar velgerðarsjóðinn  og hefur hann styrkt menntaverkefnið síðan 2008. Ákveðið var að einbeita sér að einu héraði og var Kono hérað fyrir valinu.  Það er í austanverðu landinu og liggur að landamærum Gíneu. Þar eru einnig helstu demantanámur landsins og þar af leiðandi fór það hérað mjög illa í borgarastríðinu.  Í dag er áherslan lögð á að auka gæði námsins og að laga það sem best að þörfum barnanna og þá sérstaklega stúlkubarna.  Þar af leiðandi eru færri skólabyggingar reistar en meira lagt í  að endurmennta kennara, og þjálfa þá í kennsluaðferðum þar sem barnið er sett í forgang (child centered teaching).  Við hvern skóla eru stofnaðir “Mothers Clubs” og “School Management Committees”. Tilgangur “Mothers Club” er m.a. að vekja mæður samfélagsins til meðvitundar um mikilvægi menntunar og þá sérstaklega að virkja þær sem eftirlits- og stuðningsaðila dætra sinna á meðan á skólagöngu stendur.  Þær standa vörð um réttindi barna sinna og gegna mikilvægu hlutverki þegar mál koma upp sem tengjast kynferðislegu áreiti eða misnotkun.  Þeirra hlutverk er að fylgja eftir málum sem upp koma og sjá til þess að þau verði kærð til yfirvalda.
Markmiðið með stofnun “School Management Committee” sem er að mörgu leiti sambærilegt foreldraráði, er að samfélagið taki þannig meiri ábyrgð á skólastarfinu.  Það er á ábyrgð foreldraráðsins að skólastarfið gangi sem skyldi, það sér til þess að fá kennara til starfa, það sækir um endurmenntun fyrir þá og sér um öll samskipti við yfirvöld. Með þessu er verið að virkja samfélagið umhverfis hvern skóla,  það er á þeirra valdi að auka menntun og þekkingu barna sinna sem leiðir vonandi til betra lífs í framtíðinni.
En aftur að ferðinni þá flugum við svo snemma á þriðjudagsmorgni frá Freetown, höfuðborg landsins til Kono héraðs og lentum rétt fyrir utan Koidu borg sem er  höfuðborg héraðsins og þriðja stærsta borg landsins. Þar tóku á móti okkur starfsmenn Unicef; Vidhya Gangesh aðstoðar-framkvæmdastjóri Unicef í SL, en hún er frá Indlandi og er með mikla reynslu í þróunarmálum, Alison Parker, tengill á aðal-skrifstofunni í Freetown, Sunkarie Kabba Kamara, yfirmaður skrifstofu Unicef í Makeni,  Mario byggingar-verkfræðingur á vegum Unicef ásamt 4 bílstjórum með sína fararkosti.
Við héldum beint í heimsókn til fyrsta skólans, “Sirajudeen Islamic Primary School” en fyrir styrk frá Auroru var  byggður nýr skóli þar nú í ár. Nemendur eru 438 talsins, stúlkur 224 og drengir 214. Til viðmiðunar voru nemendur þessa skóla árið 2003 90 talsins, 50 stúlkur og 40 drengir. Okkur til mikillar ánægju var yfirkennarinn ung kona en annars allir kennarar karlkyns. Yfirkennarinn er jafnframt í fjarnámi til að ná sér í kennarapróf en menntamálaráðuneyti landsins í samvinnu við Unicef hóf fjarkennsluprógramm fyrir rúmu ári til að efla menntun kennara.

Nemendum skólans er skipt niður á 3 skólastofur sem þýðir að tæplega 150 börn eru í hverri stofu. Skólinn er semsagt búinn að sprengja utan af sér húsnæðið nú þegar og skýrði yfirkennarinn þetta á þann veg að þegar börnin í nærliggjandi þorpum sáu hversu falleg byggingin var komu mörg þeirra aftur í skólann sem höfðu hætt námi einhverra hluta vegna. Þannig var það ekki óalgeng sjón að sjá börn á öllum aldri í bekkjunum og mjög svo ánægjulegt að sjá hversu mikið aðdráttarafl skólarnir hafa. Auk skólabyggingarinnar voru einnig ný kynskipt salerni,  aðstaða til handþottar og vatnsbrunnur. Salernin eru mjög mikilvæg þar sem þau eru hluti af hreinlætisuppeldi og koma í veg fyrir kynferðislega áreitni sem stúlkur verða gjarnan fyrir í skólum þar sem engin salerni eru.
Vatnsbrunnarnir eru einnig órjúfanlegur hluti skólabyggingarinnar. Oft eru engir vatnsbrunnar fyrir í þorpunum og þurfa þorpsbúar þá gjarnan að sækja vatn langar leiðir. Vatnsburður er oftast verkefni ungra stúlkna og getur þanng komið í veg fyir skólagöngu þeirra. Með því að byggja brunninn í skólanum er þetta vandamál leyst auk þess sem vatnsbrunnurinn gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki.
Næst var ferðinni heitið til “Bandafaye Community School” en hann var byggður árið 2007. Þar eru nemendur 273, drengir 146 og stúlkur 127. Við fórum beint á fund með SMC (School Management Committee) og Mothers Club sem fræddu okkur á starfi þeirra og ekki var hægt annað en að hrífast af ákafa þeirra, vilja og krafti til að skapa betra samfélag. Eftir að hafa litið inn í skólastofur og hlýtt á söng nemenda var okkur boðið að koma og skoða þorpið þeirra sem við þáðum með þökkum. Þar voru konur  uppteknar við vinnu sína; þvo þvott, merja korn eða að selja vörur sínar á markaðinum sem var við þorpstorgið.  Við veltum því fyrir okkar  hvar karlarnir voru og komum auga á þá þar sem þeir sátu í notalegum skugganum undir tré.  Ekki óalgeng sjón á þessum slóðum.
Fundur með yfirmanni menntamála í Kono héraði, Mr. Komba,  var næstur á dagskrá. Mr Komba var mjög stoltur af framförunum sem átt hafa sér stað í menntamálum í héraðinu, bæði aukningu í skólabyggingum, þökk sé Auroru og Unicef, og auknum áhuga foreldra á að senda börn sín í skóla. Hann benti okkur á töflu sem sýndi árangur nemenda á lokaprófi 6.bekkjar (Primary School) en 79.4% nemenda náðu því prófi, 69.5% drengja og 90.4% stúlkna. Þessar tölur fara stighækkandi ár hvert að hans sögn.
Einnig var áhugavert að sjá skjal sem hékk upp á vegg frá “World Food Program” sem tiltók hvað hver nemandi átti heimtur á að fá að borða daglega; 100 gr af korni, 30 gr af baunum,  10 gr af grænmetisolíu og 3 gr af salti.
Seinasta heimsókn dagsins var til “Sumbedu Community School” og funduðum við með skólastjóra og kennurum. Þar fræddi skólastjórinn okkur á jákvæðum  áhrifum endurmenntunar bæði á kennara og nemendur.  Endumenntunin snýst m.a. um að uppfræða og þjálfa kennara í barnavænum kennsluaðiferðum þar sem þarfir barnsins hafa forgang en ekki kennarans. Hann sagðist ekki líta á sjálfan sig lengur sem kennara (teacher), heldur sem “facilitator” og meinti með því að hans hlutverk væri að auðvelda og hjálpa nemendum að skilja viðfangsefnið á þeirra eigin forsendum.  Hann sagði þetta hafa mjög jákvæð áhrif á nemendurna, þeir væru mun áhugasamari og ánægðari í skólanum og það skilaði sér einnig í betri árangri í náminu.
Einnig upplýsti hann okkur um það að aðeins einn kennari fyrir utan skólastjórann væri á launum frá ríkinu, mánaðarlaunin væru samsvarandi 50 USD en aðrir kennarar væru upp á foreldra og þorpsbúa komnir með aðstoð í formi smærri fjárframlaga, matarframlaga eða vinnuhjálpar.  Þarna kemur foreldraráðið (SMC) einnig sterkt inn en velferð kennara er á ábyrgð þess og því sér það oft um að afla tekna fyrir kennarana.
Eins og í hinum skólunum tóku börnin einkar vel á móti okkur og eftir hressilegan söng var galsi kominn í hópinn enda langur dagur að enda kominn.  Við brugðum á leik með þeim í nýjum leiktækjum sem höfðu verið sett upp á skólalóðinni.  Það stóð ekki á viðbrögðum frá hressum krökkunum og öll vildu þau ólm sýna okkur hvernig þau notuðu leiktækin og ekki var verra að fá mynd af sér í leiðinni.
Miðvikudagurinn byrjaði á heimsókn á héraðssjúkrahúsið í Koidu borg, nánar tiltekið á fæðingadeildina þar. Deildin var í nýrri byggingu sem hafði verið byggð fyrir styrk frá Unicef og öll aðstaða með ágætum.  Þó var tómlegt um að litast þegar okkur bar að garði og virtist ekki mikið um að vera á deildinni þá stundina. Yfirhjúkrunarkonan sannfærði okkur um að þetta væri mjög óvanalegt, deginum áður hefði verið fullt út úr dyrum.
Samkvæmt skýrslu sem unnin var af WHO, UNICEF, UNFPA, og The World Bank  eru dauðsföll vegna barneigna hæst í Sierra Leone, en af hverjum 100.000 barnsfæðandi konum deyja 2100. Næst á eftir kemur Afganistan með 1800 dauðsföll af hverjum 100.000 barnsfæðandi konum.  Helsta skýringin er að flestar konur eiga börn sín heima fyrir í þorpinu og ef eitthvað kemur upp á er oft of langt í hjálp.

Síðan var haldið til Magburaka, heilsugæsla sem er með sérstaka deild fyrir börn sem þjást af  næringarskorti. 57% dauðsfalla barna undir 5 ára aldri í Sierra Leone má rekja til næringarskorts. Mæður geta oft á tíðum ekki haft börn sín á brjósti vegna eigin næringarskorts og eru börn því nærð með mjólkurdufti sem blandað er með menguðu vatni sem veldur sýkingu. Á deildinni eru börnin meðhöndluð  og mæðurnar fræddar um mikilvægi réttrar næringar og hreinlæti. Áberandi var fjöldi ungra mæðra á deildinni, en við hittum eina þeirra sem var með son sinn þar til meðferðar og hafði henni verið nauðgað á leið í skólann. Hún var aðeins 14 ára gömul.
Við komum til Freetown um kvöldið, og þáðum þá kvöldverðarboð Unicef með menntamálaráðherra landsins Dr. Minkailu Bah.  Það var mjög ánægjulegt að hitta Dr. Bah aftur, en hann hafði komið til Íslands tveimur árum áður, er hann þáði boð okkar um að vera viðstaddur afhendingu styrks Auroru til menntamála í Sierra Leone.   Hann var þá nýtekinn við embætti sem menntamálaráðherra að afloknum kosningum haustið 2007.  Í ræðu sinni um kvöldið minntist Dr. Bah þess með ánægju að eitt af hans fyrstu embættisverkum hefði verið að þiggja boð um heimsókn til landsins í norðri og taka við styrk upp á 2 milljónir dollara til stuðnings menntunar barna í Sierra Leone.  Deginum áður höfðum við spurnir af því, okkur til óvæntrar ánægju að forseti landsins Dr. Ernest Bai Koroma hefði áhuga á að hitta okkur, en Dr. Bah hafði á sínum tíma gert ríkisstjórn landsins grein fyrir styrk Auroru Velgerðarsjóðst til menntamála í landinu.
Snemma á fimmtudagsmorgun klæddi hópurinn sig upp í sitt fínasta púss og átti fomlegan fund með menntamálaráðherranum, í ráðuneyti hans sem síðan fylgdi okkur á fund forseta Sierra Leone. Það var ekki laust við spenning í hópnum en á þessum slóðum er það mikill virðingarvottur að vera boðinn á fund með forseta landsins.  Dr Koroma hefur verið við völd í Sierra Leone í tvö ár og nýtur almennt virðingar fyrir störf sín.  Hann hefur sýnt það í verki að hann líður ekki spillingu í stjórnkerfinu, en daginn áður en hópurinn hitti hann gerðust þau óvenjulegu tíðindi að ráðherra heilbrigðismála ásamt tveimur embættismönnum voru látnir taka pokann sinn og ástæðan sögð spilling.  Okkur var sagt að það væru engin fordæmi fyrir því að ráðherra væri rekinn úr ríkisstjórn fyrir spillingu, enda vakti atvikið mikla athygli innanlands sem utan og var m.a. sagt frá því á öllum helstu fréttastöðvum í Evrópu. Hlutskipti hans er hins vegar ekki öfundsvert og verkefnin gríðarleg.  Efnahagslegt hrun litla landsins í norðri sýnist jafnvel hjákátlegt við hlið ástandsins í Sierra Leone.  Að sjálfsögðu  eru ekki allir sammála um forgangsröðunina og ýmsum finnst batinn koma hægt.  En fyrir gestinn sem hefur komið fjórum sinnum til landsins á síðustu fimm árum eru áþreifanlegar breytingar að eiga sér stað.
Forsetinn tók hlýlega á móti okkur á skrifstofu sinni og þakkaði stofnendum og stjórn sjóðsins fyrir sýndan hlýhug í garð Sierra Leone og aðstoðina við menntamál landsins.  Hann ræddi einnig nauðsyn þess að uppbygging landsins væri unnin í samráði við einkageirann þannig að hægt væri að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Mikil vinna hefur verið lögð í að bæta lagalegt umhverfi atvinnulífsins m.a. með það að markmiði að laða að alþjóðlega fjárfesta.
Heimsóknin til forsetans var mikill heiður fyrir Auroru og staðfesting á því að styrkir sjóðsins koma að góðum notum og séu vel metnir.
Eins og nefnt var í upphafi að þá var tilgangur ferðarinnar jafnfamt að kynna sér hugsanleg ný verkefni á vegum hjálparstofnana og jafnvel einstaklinga.  Áhuginn var svo mikill hjá stjórninni að skipta þurfti liði, einn hópurinn kynnti sér hvað aðrar hjálparstofnanir eru að gera í heilbrigðismálum, sérstaklega í sambandi við konur, barneignir og vannæringu. Annar hópurinn kynnti sér enn frekar menntamál og heimsóttu kennaraskóla sem starfræktur er í útjaðri Freetown og þriðji hópurinn kynnti sér hvernig hægt væri að hjálpa hjólum atvinnulífsins í gang aftur en um 70% atvinnuleysi er í landinu. Síðan bárum við saman bækur okkar og óhætt er að segja að af nógu er að taka, það er bara spurningin hvar er þörfin brýnust?
Það voru þreyttir en ánægðir ferðalangar sem kvöddu Sierra Leone í lok vikunnar, það tekur tíma að melta áhrifin sem slík ferð sem þessi hefur en Aurora velgerðasjóður mun svo sannarlega leggja sitt af mörkum til að auðga framtíð Sierra Leone og íbúa þess hrjáða lands.

First Artisan Meet-Up at Aurora House:

First Artisan Meet-Up at Aurora House:

On Tuesday, November 12th, the Aurora Foundation hosted its very first Artisan Meet-Up at the Aurora House, marking a significant milestone in our ongoing efforts to support and empower local artisans in Sierra Leone. This event brought together a vibrant group of...

Inkundula Festival: A Celebration of Sierra Leone’s Creative Spirit

Inkundula Festival: A Celebration of Sierra Leone’s Creative Spirit

Aurora Foundation is proud to have sponsored the inaugural Inkundula Festival, a vibrant three-day celebration of Sierra Leone’s dynamic arts and culture scene. The festival began on the evening of October 31st at the Aurora House, where the atmosphere was alive with...