30.09.21

Breytingar á teymi Auroru

Því miður þurftum við í síðustu viku að kveðja vinnufélaga okkar til eins og hálfs árs, hana Makalay, þar sem hún fer nú til annarra starfa. Síðan hún byrjaði hjá Auroru í Freetown hefur Makalay verið mikilvægur partur af litla teyminu okkar og átt stóran þátt í vexti Sweet Salone verkefnisins. Hún tók meðal annars þátt í því að undirbúa og senda fyrsta fulla gáminn sem við sendum úr landi með Sweet Salone vörum sl. febrúar og að skipuleggja fyrstu tvo pop-up markaðina okkar í Freetown.

Þar sem við vildum kveðja Makalay með veglegum hætti fórum við öll saman í Lettie Stuart Pottery keramaikverkstæðið. Þar fékk Auroru teymið að reyna sig við leirkeragerð á stuttu og skemmtilegu dagsnámskeiði sem boðið er upp á í LSP um helgar. Við óskum Makalay að sjálfsögðu áframhaldandi velfarnaðar í sínum störfum á öðrum vettvangi!