Lokaskýrslur frá Unicef eftir lok fimm ára verkefnis í Sierra Leone

Stærsta og veigamesta verkefni sem Aurora hefur farið í er fimm ára menntaverkefni í Afríkuríkinu Sierra Leone unnið í samvinnu við Unicef á Íslandi og Unicef í Sierra Leone.  Verkefnið gekk út á það að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði einkum með þarfir stúlkubarna í huga.  Aurora ráðstafaði rúmlega 200 milljónum króna til verkefnisins.
Lokaskýrslurnar má nálgast inná verkefni / Sierra Leone hér á heimasíðunni.
Fulltrúar Auroru og Unicef fóru í ferð til Sierra Leone og má sjá myndir úr þeirri ferð á myndasíðunni.

Ef litið er yfir verkefnið þá hafa rúmlega 60 skólar verið byggðir í fimm héruðum en byrjað var í fátækustu héruðunum  Skólarnir voru allir búnir skólahúsgögnum ásamt kynjaskiptum salernum sem er einn af lykilþáttum þess að tryggja öryggi stúlkna í skólunum.  Vatnsdælum var komið fyrir í hverjum skóla en það er gert til að tryggja nemendum aðgengi að hreinu vatni.  Yfir 100 kennarar hafa hlotið þjálfun í kennsluaðferðum og réttindum barna en því miður er ofbeldi gagnvart börnum í skólum algengt.    Eins hefur mikilvægi menntunar verið rætt innan samfélaganna og í framhaldi af því verið stofnaðar skólanefndir og mæðraklúbbar.  (Myndin hér að ofan er tekin úr skólastofu í Kono héraði)

Mæðraklúbbar hafa reynst öflug og óvenjuleg leið til að koma fátækustu börnunum í Síerra Leóne í skóla, halda gildi menntunar á lofti, haft jákvæð áhrif á vernd barna gegn ofbeldi, styðja við nemendur úr berskjölduðum fjölskyldum.  Auk alls þessa stuðla mæðraklúbbarnir að valdeflingu kvenna en þær fá þjálfun í að skipuleggja félagsstarfsemi, halda fundargerðir og skipulagt bókhald.  Mæðraklúbbarnir styðja síðan við almenna þróun samfélagsins bæði efnahagslega og félagslega en þeir eru hugsanlega góð leið til að auka virðingu kvenna gagnvart karlmönnum ásamt því að konurnar finna hversu sterkar þær eru ef þær standa saman.  (Á myndinni hér að ofan má sjá fulltrúa Auroru ásamt mæðraklúbbi í Kono héraði)

Alls hefur 296 mæðraklúbbum nú þegar verið komið á fót í Kono-héraði og er meðalfjöldi kvenna í hverjum mæðraklúbb í kringum 40 konur en meðalnemendafjöldi í skólunum sem mæðraklúbbarnir sjá um er um 235 börn. Margfeldisáhrifin af starfi mæðraklúbbana eru því mikil og má reikna það út að mæðraklúbbar í Síerra Leóne hafa þegar náð utan um 70.000 börn. (Á mynd er mæðraklúbbur á fundi með fulltrúum Aurora og Unicef)

Það er því alveg ljóst að verkefnið hefur skilað börnum í Sierra Leóne aðgengi að menntun sem þau annars hefðu ekki átt kost á og er merkjanleg 9% aukning í skólasókn og 11% fleiri kennarar sem hlotið hafa þjálfun í Kono héraði á tímabilinu.

Fulltrúar Auroru velgerðasjóðs ásamt fulltrúum Unicef á Íslandi fóru í ferð til Sierra Leone á vormánuðum 2013 til að sjá með eigin augum hversu mikið hefur áunnist með verkefninu.   Myndir úr þeirri ferð má sjá inná myndasíðunni en albúmið heitir Sierra Leone 2013


Úthlutun til dóttursjóða og Menntaverkefnis Auroru í Sierra Leone

Fimmta úthlutun Auroru velgerðasjóðs fór fram þann 15. febrúar sl. þegar 85 milljónum króna var veitt til Hönnunarsjóðs Auroru, Kraums tónlistarsjóðs og Unicef.

Stjórn Auroru velgerðasjóðs ákvað í samræmi við úthlutunarstefnu sjóðsins að aðlaga þessa úthlutun betur að erfiðu ástandi á fjármálamörkuðum.  Miklar sviftingar á mörkuðunum gera það að verkum að ávöxtun sjóðsins er minni en á upphafsárum hans, en samkvæmt markmiðum Auroru þá skal úthlutun vera sem nemur ávöxtun sjóðsins hverju sinni.  Það má því gera ráð fyrir að úthlutanir næstu ára taki mið af þessum breytingum.  Það skal þó tekið fram að þrátt fyrir hrun á fjármálamörkuðum á árinu 2008 og erfiðst ástands í framhaldinu, þá stendur sjóðurinn styrkum fótum eftir sem áður.

Þessi fimmta úthlutun sjóðsins samanstóð af 40 milljón króna styrk til Menntaverkefnisins í Sierra Leone sem unnið er í samstarfi við menntayfirvöld þar í landi og Unicef á Íslandi og í Sierra Leone.  Þetta er fimmta og jafnframt lokagreiðslan í þessu stærsta og jafnframt veigamesta verkefni sjóðsins frá upphafi að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga.  Alls hefur sjóðurinn því ráðstafað um 240 milljónum króna til verkefnisins að meðtöldum 36 milljónum króna sem stofnendur sjóðsins lögðu til áður.
Hönnunarsjóður Auroru fær 25 milljónir króna sem er jafnframt fyrsta greiðslan af 75 milljónum sem honum voru veittar þegar stjórn Auroru ákvað að veita Hönnunarsjóðnum framhaldslíf til þriggja ára í viðbót.   Hönnunarsjóðurinn mun áfram fylgja þeirri stefnu að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn.

Kraumur tónlistarsjóður fékk 20 milljónir króna til að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, aðvelda þeim að koma listsköpun sinni og verkum á framfæri.


Sviðslistir, Rústabjörgunarsveitin Ársæll og sýning Louise Bourgouis í Listasafni Íslands eru ný styrktarverkefni Auroru velgerðasjóðs

Í dag 16.febrúar úthlutar Aurora  Velgerðasjóður í fjórða sinn um 100 milljónum króna til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne.

Styrkur til sviðslista:
Sviðslistir á Íslandi eru í mikilli framþróun og hefur sköpunarkrafturinn vakið athygli út fyrir landsteinana.   Aurora  hefur ákveðið að styrkja sviðslistir á Íslandi þ.e. leiklist, listdans og sönglist um 10 milljónir króna. Með þessum styrk vill Aurora Velgerðasjóður efla enn frekar sviðslistir með því að styrkja framúrskarandi og metnaðarfull verkefni.  Aurora Velgerðasjóður hefur fengið með sér í lið þau Viðar Eggertsson leikstjóra og Ingibjörgu Þórisdóttur dramatúrg og leiklistagagrýnanda, til að veita faglega ráðgjöf við val á verkefnum en lögð verður mikil áhersla á að verkefnin séu listræn, áræðin og unnin af fagfólki.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir og eru allar nánari upplýsingar á heimasíðu sjóðsins.

Nánari upplýsingar: www.aurorafund.is

Rústabjörgunarsveitin Ársæll

Rústabjörgunarsvetin Ársæll er hluti af Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar og sinnir óveðursaðstoð, viðbrögðum við jarðskjálftum og ofanflóðum í byggð á landsvísu.   Sveitin vann mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður á Haítí í kjölfar jarðskjálftans í janúar 2010 en þeir voru með fyrstu björgunarsveitum á svæðið.  Komið er að ýmsu viðhaldi og endurnýjun á þeim sérhæfða búnaði sem hópurinn hefur yfir að ráða og hefur því Aurora Velgerðasjóður ákveðið að styrkja sveitina um 3 milljónir króna en upphæðin verður nýtt  til tækjakaupa.

Nánari upplýsingar : www.bjorgunarsveit.is

Louise Bourgeois – Sýning á listaverkum hennar í Listasafni Íslands:
Louise Bourgeois er í hópi þekktustu listakvenna samtímans. Hún lést í fyrra á 99. aldursári enn þá í fullu í fjöri og starfandi af þrótti sem listamaður. Hún hóf sinn feril sem málari en um miðja síðustu öld fór hún að takast á við skúlptúr sem síðan þróaðist út í viðamiklar innsetningar. Þar er hún brautryðjandi og af mörgum talin vera sá listamaður sem brúaði bilið milli nútímalistar og samtímalistar.  Nú á hundrað ára afmælisári hennar eru sýningar á verkum hennar eftirsóttari en nokkurn tíma áður og því er þetta einstakt tækifæri fyrir Listasafn Íslands að fá sýningu af þessari stærðargráðu en hún verður sú fyrsta í Evrópu eftir andlát listkonunnar og má búast við erlendum gestum sem kæmu gagngert til að sjá sýninguna.  Auroa velgerðarsjóður hefur ákveðið að styrkja Listasafn Íslands um 3 milljónir króna sem fara í uppsetningu á verkum  Louise Bourgeois og útgáfu veglegrar bókar sem gefur þannig Íslendingum tækifæri til að kynnast betur þessari merku listakonu.
Í viðhengi eru nánari upplýsingar ásamt myndum, önnur var tekin af Louise árið 2007 af Dimitris Yeros og hin er af verki hennar Spider/Könguló frá 1995.

Nánari upplýsingar: www.listasafn.is

Kraumur tónlistarsjóður
Kraumur tónlistarsjóður var settur á laggirnar árið 2008  af Auroru Velgerðasjóði sem tilraunaverkefni til þriggja ára.  Starfsemi Kraums hefur verið umfangsmikil og blómleg en sjóðurinn hefur átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans.  Á þessum þremur árum hafa um 100 tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni fengið úthlutað um 60 milljónum króna.  Kraumur  hefur m.a. styrkt tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðað við markaðssetningu erlendis og staðið meðal annars fyrir nýjum tónlistarviðurkenningum undir nafninu Kraumslistinn.  Það er því ljóst að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku tónlistarlífi, en sem dæmi má nefna þá  bárust sjóðnum 232 umsóknir nú fyrir næstu úthlutun. Í ljósi þessa ákvað stjórn Auroru að veita þessu kraftmikla starfi áframhaldandi brautargengi og leggja Kraumi tónlistarsjóði til aðrar 60 milljónir til næstu þriggja ára.

Nánari upplýsingar : www.kraumur.is

Hönnunarsjóður Auroru
Hönnunarsjóður Auroru var stofnaður fyrir tveimur árum síðan og fær nú úthlutað í þriðja sinn 25 milljónum króna.  Sjóðurinn hefur styrkt og starfað með fjölbreyttum hópi hönnuða en markmið sjóðsins er að styðja hönnuði og aðstoða þá við að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum, vörum og verkefnum á framfæri hérlendis og erlendis. Auk þessa miðlar sjóðurinn einnig þekkingu á sviði hönnunar og arkitektúrs, í samstarfi við aðra aðila í faginu, eftir því sem við á. Hönnunarsjóði Auroru er þannig ætlað að styðja við bak efnilegra hönnuða og efla grasrótarstarf í hönnun.  Sjóðurinn leggur áherslu á að styðja verkefni sem skara fram úr á einhvern hátt, hvetja þannig til hugmyndaauðgi og skapandi hugsunar í íslenskri hönnun.

Nánari upplýsingar: www.honnunarsjodur.is

UNICEF – menntaverkefni í Afríkuríkinu Síerra Leóne
Aurora úthlutar í fjórða sinn 40 milljónum króna til að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga. Þetta er liður í veigamesta verkefni sjóðsins frá stofnun en alls hefur verið varið 160 milljónum króna til verkefnisins.  Verkefnið er unnið í samvinnu við menntayfirvöld þar í landi og UNICEF á Íslandi og í Síerra Leóne.  Í krafti þess hafa á annað hundrað kennarar hlotið endurmenntun og um 60 skólabyggingar risið með tilheyrandi vatnsveitu- og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum.  Mikið er lagt í endurmenntun kennara og þjálfun í kennsluaðferðum þar sem barnið er sett í forgang, auk þess sem samfélagið er virkjað með því að stofna foreldrafélög við skólanna og mæðraklúbba.   Verkefnið hefur gengið mjög vel og er verið að skoða það að nota sömu aðferðafræði á fleiri svæðum í Síerra Leóne.

Nánari upplýsingar: www.unicef.is og www.aurorafund.is,

Þetta er í fjórða sinn sem styrkir eru veittir úr Aurora velgerðasjóði sem stofnaður var í janúar 2007 af hjónunum Ingibjörgu Kristjánsdóttur og Ólafi Ólafssyni sem lögðu honum til einn milljarð í stofnfé.  Á þessum árum hefur fjármunum verið varið úr sjóðnum til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og í þróunarlöndum.  Aurora velegerðasjóður er sjálfseignastofnun sem hefur verið trú þeim meginmarkmiðum sínum að styrkja fá en stór verkefni þar sem þörf er fyrir verulega fjármuni til að þau geti orðið að veruleika og dafnað.
Stjórn sjóðsins tekur jafnframt mið af því að viðkomandi verkefni hafi afgerandi áhrif í samfélögum sínum. Lögð er áhersla á að fjárframlög sjóðsins á Íslandi efli nýsköpun og sprotastarfsemi og auðgi þannig flóru atvinnugreina í landinu. Verkefni, sem Aurora styrkir í þróunarlöndunum, eru fyrst og fremst tengd menntun og menningu. Leitast er við að fylgja verkefnum vel eftir og aðstoða styrkþega og samstarfsaðila eftir föngum.
l


Aurora velgerðasjóður ráðstafar 100 milljónum króna til fjögurra verkefna á Íslandi og í Afríku

Stjórn Auroru velgerðasjóðs kynnti í dag þá ákvörðun sína að veita alls 100 milljónir króna til fjögurra verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne.

Nýtt styrktarverkefni sjóðsins er Brúðuheimar í Borgarnesi, lista- og menningarmiðstöð, sem verður mikilvægur þáttur í menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu.  Brúðuheimar fá 15 milljónir króna, þar af 7 milljónir króna í formi láns.
Þrjú verkefni fá styrki í annað eða þriðja sinn: Hönnunarsjóður Auroru fær 25 milljónir króna, Kraumur, tónlistarsjóður Auroru, fær 20 milljónir króna og menntaverkefni í Síerra Leóne fær 40 milljónir króna.
Þetta er í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr Auroru velgerðasjóði, sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson stofnuðu í janúar 2007 og lögðu til einn milljarð króna. Á þessum þremur árum hefur fjármunum verið varið úr sjóðnum til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og í þróunarlöndunum. Stofnfé Auroru velgerðasjóðs hefur ávaxtast ágætlega og er í dag um 1,3 milljarðar króna.
Sjóðurinn hefur verið trúr þeim meginmarkmiðum sínum að styrkja fá en stór verkefni þar sem þörf er fyrir verulega fjármuni til að þau geti orðið að veruleika og dafnað.  Sjóðsstjórn tekur jafnframt mið af því að viðkomandi verkefni hafi afgerandi áhrif í samfélögum sínum. Lögð er áhersla á að fjárframlög sjóðsins á Íslandi efli nýsköpun og sprotastarfsemi og auðgi þannig flóru atvinnugreina í landinu. Verkefni, sem Aurora styrkir í þróunarlöndunum, eru tengd menntun og menningu en einnig heilsugæslu. Leitast er við að fylgja verkefnum vel eftir og aðstoða styrkþega og samstarfsaðila eftir föngum.
Frá stofnun, fyrir þremur árum, hefur Aurora velgerðasjóður ráðstafað alls 322,5 milljónum króna til 11 verkefna.  Þar af hafa 144,5 milljónir króna runnið til fjögurra verkefna í Afríku og Nepal og 178 milljónir króna til sjö verkefna hér á landi. Þess má geta að áður en sjóðurinn var formlega stofnaður styrktu þau Ingibjörg og Ólafur tvö verkefni, hér á landi og í Afríkuríkinu Síerra Leóne, um 78 milljónir króna, þannig að heildarupphæð styrkja er orðin um 400 milljónir króna.
Landnámssetrið í Borgarnesi er annað þessara tveggja innlendu verkefna og markaði reyndar upphafið að stofnun Auroru velgerðasjóðs. Það er um margt dæmigert fyrir verkefni sem sjóðurinn styrkir hér á landi og setrið  hefur tvímælalaust haft mikil áhrif í heimahéraði sínu og raunar í íslensku samfélagi. Fuglasafn Sigurjóns við Mývatn er annað áhugavert verkefni sem Aurora velgerðasjóður hefur styrkt á landsbyggðinni. Sjóðurinn hefur einnig haft frumkvæði að því að stofna tvo dóttursjóði, Kraum tónlistarsjóð og Hönnunarsjóð Auroru.

Brúðuheimar, lista og menningamiðstöð, er frumkvöðlaverkefni hjónanna Bernd Ogrodnik brúðulistamanns og Hildar Jónsdóttur framkvæmdastjóra. Miðstöðin verður í gömlum húsum sem áður hýstu Kaupfélag Borgfirðinga í Borgarnesi. Húsin eru frá 19. öld og mikilvæg fyrir verslunarsögu landsins, enda eru þau friðuð og er verið að endurgera þau í anda byggingarlistar 19. aldar.
Miðstöðin verður annars vegar gagnvirkt leikbrúðusafn og hins vegar brúðuleikhús sem sýnir verk fyrir bæði börn og fullorðna.  Þar verður einnig rekið kaffihús með sérstaka áherslu á hollustu fyrir börn á öllum aldri.
Heimsókn í Brúðuheima verður ævintýraleg upplifun og skemmtileg samverustund fólks á öllum aldri enda er brúðuleikúsið heillandi heimur út af fyrir sig og höfðar bæði til barna og fullorðinna.
Stefnt er að því að opna Brúðuheima í maí 2010 og verður menningarmiðstöðin rekin árið um kring.

Rökstuðningur Auroru velgerðasjóðs:
Brúðuheimar hafa alla burði til að verða töfraheimur fyrir unga sem aldna enda er listrænn stjórnandi Brúðuheima, Bernd Ogrodnik, meðal fremstu brúðulistamanna heims. Brúðuheimar eru öflug viðbót við menningartengda ferðaþjónustu í Borgarbyggð og munu án efa styrkja þá aðila sem fyrir eru, svo sem Landnámssetrið og Snorrastofu í Reykholti.

Í krafti þessara verkefna hafa á annað hundrað kennarar hlotið endurmenntun og um 60 skólabyggingar risið með tilheyrandi vatnsveitu- og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum.
Á árinu sem leið var ákveðið að leggja aukna  áherslu á gæði námsins og að laga það sem best að þörfum barnanna og þá sérstaklega stúlkubarna.  Markmiðið er að halda stúlkunum sem lengst í skóla og koma þannig í veg fyrir að þær gengi í hjónaband og hefji barneignir á æskuárum.  Meira er því lagt í endurmenntun kennara og þjálfun í kennsluaðferðum þar sem barnið er sett í forgang, auk þess sem samfélagið er virkjað með því að stofna foreldrafélög við skólana og mæðraklúbba.  Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Auroru velgerðasjóðs, http://www.aurorafund.is/, og einnig á heimasíðu UNICEF, www.unicef.is

Starfsemi Kraums tónlistarsjóðs hefur verið umfangsmikil og blómleg. Á þessum tveimur árum hefur sjóðurinn úthlutað tæplega 30 milljónum króna í beinum styrkjum til 74 tónlistarmanna, hljómsveita og tónlistartengdra verkefna.  Einnig hefur sjóðurinn átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Sjóðurinn hefur m.a. styrkt tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðað við markaðssetningu erlendis og staðið fyrir nýjum tónlistarviðurkenningum, Kraumslistanum.
Ljóst  er að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku menningarlífi, sem marka má til dæmis af því að tæplega 200 umsóknir bárust þegar síðast var auglýst úthlutun úr sjóðnum! Framkvæmdastjóri Kraums, tónlistarsjóðs Auroru, er Eldar Ástþórsson.  Frekari upplýsingar eru á líflegri heimasíðu Kraums, www.kraumur.is.

Markmið með stofnun sjóðsins var að virkja kraftinn, sem býr í hönnunargeiranum, með beinum fjárframlögum til framúrskarandi hönnuða og auðvelda þeim að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum og vörum á framfæri hérlendis og erlendis, enn fremur að miðla þekkingu á þessu sviði, efla grasrótarstarf og stuðla að samstarfi hönnuða og aðila úr athafnalífinu. Lagt er upp úr því að koma ungum hönnuðum til aðstoðar með ráðgjöf, tengslamyndun og starfsnámsstyrkjum.
Sjóðurinn leggur áherslu á að styðja verkefni sem skara fram úr á einhvern hátt og hvetja þannig til hugmyndaauðgi og skapandi hugsunar í íslenskri hönnun.
Það sem af er hefur Hönnunarsjóður Auroru úthlutað alls 30 milljónum í beinum styrkjum til 25 verkefna og hönnuða og hann hefur einnig tekið þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Frekari upplýsingar um Hönnunarsjóð Auroru eru á heimasíðu sjóðsins, www.honnunarsjodur.is


Aurora velgerðasjóður ráðstafar 111,5 milljónum króna til styrktarverkefna á Íslandi og í Afríku

Stjórn Auroru velgerðasjóðs hefur úthlutað alls 111,5 milljónum króna í styrki til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóene og Mósambík, þar af til fjögurra verkefna sem sjóðurinn hefur ekki styrkt áður.

Stjórn Auroru velgerðasjóðs hefur úthlutað alls 111,5 milljónum króna í styrki til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóene og Mósambík, þar af til fjögurra verkefna sem sjóðurinn hefur ekki styrkt áður.
Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr Auroru velgerðasjóði sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og Alfesca, stofnuðu 23. janúar 2007 og lögðu til einn milljarð króna. Samkvæmt stofnskrá er gert ráð fyrir að verja arði og vaxtatekjum sjóðsins til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og verkefna í þróunarlöndum.
Að þessu sinni ákvað stjórn sjóðsins að áhersla yrði lögð á verkefni hér á landi en fjögur af verkefnunum sex eru íslensk. Þess má geta að það tókst að mestu leyti að verja eignir sjóðsins í efnahagshruninu og sjóðsstjórn heldur því ótrauð áfram að starfa í þeim anda sem til var stofnað.
Ný styrktarverkefni
Rauði kross Íslands fær 20 milljónir króna til stuðnings þremur verkefnum:
Fjárhæðinni verður skipt á milli verkefnanna þriggja. Þörf fyrir aðstoð Rauða krossins af þessu tagi hefur aukist stórlega í efnahagskreppunni.

Rökstuðningur stjórnar Auroru:
Rauði krossinn nýtur virðingar fyrir umfangsmikið mannúðarstarf sitt heima og heiman þar sem fagmennska og óeigingirni er í fyrirrúmi. Aurora velgerðasjóður ákvað að veita aðstoð þeim sem verst verða úti í efnahagskreppunni á Íslandi og þá lá beinast við að leita til Rauða krossins um samstarf. Verkefnin þrjú, sem Aurora styrkir í ár, eru ólík en þjóna í heild mismunandi hópum sem eiga um sárt að binda.

Nýstofnaður Hönnunarsjóður Auroru er tilraunaverkefni til þriggja ára og fær 25 milljónir króna á ári til að styrkja hönnuði við að koma verkefnum sínum á framfæri og aðstoða við vöruþróun, frumframleiðslu og markaðssetningu hérlendis og erlendis. Sjóðurinn mun einnig miðla þekkingu á sviði hönnunar og stuðla að samstarfi hönnuða og aðila úr atvinnulífinu. Sjóður af þessu tagi hefur aldrei verið til á Íslandi. Hönnunarsjóður Auroru opnar fljótlega heimasíðuna www.honnunarsjodur.is og þar verður hægt að nálgast frekari upplýsingar um starfsemina.

Rökstuðningur stjórnar Auroru:
Þörf er á sérstökum hönnunarsjóði á Íslandi til að styðja við bak efnilegra hönnuða en ekki síður til að efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í greininni. Stjórn Auroru vonar að nýi sjóðurinn stuðli að því að íslensk hönnun vaxi og dafni og verði ein af stoðunum sem skotið verði undir atvinnulífið við endurreisn þess.

Hugi Guðmundsson tónskáld fær 3 milljónir króna fyrir hönd aðstandenda heimasíðunnar MusMap.com til styrktar alþjóðlegu menningarverkefni sem ætlað er að efla klassíska tónlist og vinna henni ný lönd með því að nota Vefinn.

Rökstuðningur stjórnar Auroru:
Mus.Map.com er afrakstur sjálfboðavinnu í þeim frumkvöðlaanda sem Aurora velgerðasjóður vill hlúa að og efla, einstætt viðfangsefni á sinn hátt og stuðlar ekki síst að því að klassísk tónlist nái eyrum ungs fólks. Hugi Guðmundsson hefur skýra framtíðarsýn í þessum efnum og þó verkefnið sé tiltölulega smátt í sniðum, enn sem komið er, hefur það alla burði til að verða drifkraftur og áhrifavaldur í heimi klassískrar tónlistar.
UNICEF á Íslandi fær 3,5 milljónir króna til styrktar verðlaunuðu útvarpsverkefni samtakanna með börnum og ungmennum í Mósambík sem snýr að jafningjafræðslu, sjálfstyrkingu og þátttöku barna. Ríkisútvarpið, Rás 1, undirbýr nú sambærilega útvarpsþætti fyrir börn á Íslandi í samvinnu við UNICEF í tilefni tvítugsafmælis Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Rökstuðningur stjórnar Auroru:
Verkefnið í Mósambík er hrífandi dæmi um jafningjafræðslu þar sem börn og unglingar nota útvarp til að ræða saman á eigin forsendum um ýmis vandamál sem að þeim steðja. Áform Unicef og Rásar 1 að stofna til útvarpsþáttar með verkefnið í Mósambík sem fyrirmynd eru mjög áhugaverð en markmiðið er að koma á tengslum ungmenna í þessum tveimur löndum og  stefna þannig saman ólíkum reynsluheimum þeirra.

Verkefni til þriggja ára sem fá styrki í annað sinn

Menntaverkefni UNICEF í Afríkuríkinu Síerra Leóne fær 40 milljóna króna framhaldsstyrk til að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga. Stofnað var til verkefnisins í fyrra og jafnframt tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til þess alls 120 milljónum króna í þrennu lagi á árunum 2008-2010.
Styrktarverkefnið í Síerra Leóne er hið stærsta og umfangsmesta á vegum Auroru velgerðasjóðs til þessa. Í krafti verkefnisins hafa nú þegar á annað hundrað kennarar hlotið þjálfun. Framkvæmdir við byggingu níu skóla í héraðinu Kono, með tilheyrandi vatnsveitu- og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum, eru vel á veg komnar.

Kraumur, tónlistarsjóður Auroru fær 20 milljónir króna til að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og kynningar á verkum sínum. Kraumur var stofnaður í fyrra að frumkvæði Auroru velgerðasjóðs og var þá tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til tónlistarsjóðsins alls 50 milljónum króna í þrennu lagi á árunum 2008-2010.  Stjórn Auroru ákvað að bæta 5 milljónum króna við 15 milljóna króna framlag í ár, enda hefur Kraumur sýnt og sannað að hans er þörf. Nærvera hans skiptir miklu máli í íslensku menningarlífi.

Starfsemi Kraums er umfangsmikil og blómleg og sjóðurinn hefur víða komið við. Hann styrkti tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðaði við markaðssetningu og stóð fyrir nýjum tónlistarverðlaunum, Kraumsverðlaununum, svo nokkuð sé nefnt. Frekari upplýsingar eru að finna á líflegri heimasíðu Kraums, http://kraumur.is/


Saga frá Sierra Leone

UNICEF á Íslandi sendi okkur þessa stuttu frásögn frá Síerra Leóne sem starfsmenn UNICEF þar skrifuðu eftir heimsókn í einn af skólunum sem byggður var fyrir stuðning Auroru-sjóðsins. Í frásögninni er meðal annars tekið viðtal við átta barna móður, Kadiatu Kaloko, sem á dóttur í einum af samfélagsskólunum og lætur vel af þeim tækifærum sem nú hafa opnast fyrir dóttur hennar við opnun skólans.

UNICEF á Íslandi sendi okkur þessa stuttu frásögn frá Síerra Leóne sem starfsmenn UNICEF þar skrifuðu eftir heimsókn í einn af skólunum sem byggður var fyrir stuðning Auroru-sjóðsins. Í frásögninni er meðal annars tekið viðtal við átta barna móður, Kadiatu Kaloko, sem á dóttur í einum af samfélagsskólunum og lætur vel af þeim tækifærum sem nú hafa opnast fyrir dóttur hennar við opnun skólans.
Hér er frásögnin (á ensku):
A mother’s determination for her children’s future
Kadiatu Kaloko, now 35, had her first of eight children when she was about 16. She never had the chance to go to school and can’t read or write, but she understands the importance of education and wants her daughters to attend the community school, which UNICEF upgraded from a simple one-room pavilion structure to a three-class concrete block last year.

As her 10-year old daughter Nanah carefully learns to say English words aloud, Kadiatu still takes up back-breaking farming work every day under the hot sun. She is chairlady of a mothers’ group, a pilot association encouraged by UNICEF to boost the chances of girls at school.
“I started the mothers’ club,” says Kadiatu in energetic Temne, one of Sierra Leone’s many local languages. Each of the 75 member mothers contributes Le500 a month (equivalent to about 16 US cents) and together they work a piece of community farmland, selling the proceeds from their cassava and rice crop to fund their daughters’ education at the school.
“Before [our meetings with UNICEF] we didn’t know the benefit of girls’ education,” says Kadiatu. “But now I want all my children to go to school so they can be somebody in the future to help our family.”
While her mother can’t speak Krio, let alone English, daughter Nanah’s favourite subject is English, taught by teachers who recently attended a UNICEF-supported training session to help make lessons more child-centred, so that students participate more in lessons.
“I want to go to school to help my family in the future,” says Nanah, who follows her class attentively.
Several mothers in the club are still children themselves and already have their own one-year olds. Following their own experiences, some, such as 16-year-old Mabinti Koroma, whose baby is wrapped to her back, hope their own daughters will wait until they are at least 19 before they marry.
“I got married and became pregnant very early. It’s not good,” says Mabinti. “I will tell my daughter to go to school and wait until she’s matured to get married.”
Overall only 64 per cent of primary-school-age children are enrolled in primary school. Special efforts are needed to reach Universal Primary Education in Sierra Leone by 2015. There are some positive indicators, including the development of an Education Sector Plan for 2008 to 2015 and the commitment by Government to allocate 20 per cent of the national budget to education annually.
While gender gaps have nearly disappeared in early primary education, of the children who do enroll in primary school, only 11% finish at the right time for their age, and more than 40% never finish at all, regardless of their age or stage. An estimated nine thousand teachers are volunteers, and many teach an outdated curriculum with old-fashioned methods. Gender disparities also increase with age and stage, leaving girls behind: only 15% of girls go to secondary school.
The major barrier to girls’ education is poverty. Children who are orphans or from single parent families are most likely to be out of school, the indirect costs such as uniforms and school materials are a barrier- children often have to work on the farm or look after younger siblings instead of going to school.  Additional factors which contribute to the high number of out of school children include a low level of female literacy; cultural practices, such as child marriage, and the distance to be traveled to attend a school .
Interventions such as those provided by the Aurora Foundation through the Icelandic NATCOM including the construction of community schools, provision of furniture as well as teaching and learning materials and training of mothers’clubs and school management committees and teachers are crucial to ensure enrolment of all children and to enable children to successfully complete their education, empowering children especially girls.


Afhending skóla í Fasewaya í Koniadugu héraði.

Í marsmánuði afhenti Unicef þorpsbúum í Fasewana nýja skólabyggingu en hún var byggð fyrir tilstuðlan Auroru velgerðasjóðs. Lóa Magnúsdóttir, starfsmaður Unicef Island er stödd í Sierra Leone um þessar mundir og var viðstödd afhendinguna ásamt menntamálaráðherra Sierra Leone, Dr. Bah og framkvæmdastjóra Unicef í Sierra Leone, Geert Cappelaere.

Skólinn sem afhentur var þennan dag er björt, falleg og traustleg bygging, máluð blá og hvít. Blá leiktæki prýða leikvöllinn fyrir framan skólann og kepptust krakkarnir við að fá að sitja í rólunum og príla í klifurgrindunum.
Eftir venjubundna kynningu á gestum og fyrirfólki, héldu Dr. Bah og Geert stuttar ræður. Dr. Bah talaði einna helst um heimsókn sína til Íslands, en hann var viðstaddur þegar afhent var úr sjóðnum í janúar síðasliðinn,  og hvernig landið kom honum fyrir sjónir. Hann hvatti heimamenn til þess að fara vel með þessa skólabyggingu sem þeim var falin og tók íslenskar skólabyggingar sem dæmi um fyrirmyndir í umgengni um opinberar byggingar!
Eftir athöfnina ræddi Lóa við Meru, unga 14 ára stúlku sem er nemandi nýja skólans í Fasewaya. Mera er dæmi um stúlku sem gengur nú í fyrsta skipti í skóla fyrir tilstuðlan Auroru.  Mera hefur aldrei fengið tækifæri til þess að fara í skóla þar sem foreldrar hennar treystu sér ekki til þess að senda hana alla leið til bæjarins Kabala, þar sem nálægasti grunnskólinn er staðsettur, 45 kílómetra leið frá Fasewaya. Að sögn foreldra Meru eru hætturnar margar fyrir stúlkur sem ferðast þurfa til Kabala og margar þeirra koma heim barnshafandi.

Í afskekktum þorpum eins og Fasewaya þekkja aðeins fáir foreldrar gildi menntunar og fáir hafa efni á því að senda börn sín langar leiðir í skóla. Sum barnanna í afskekktum svæðum Síerra Leóne þurfa að ferðast fleiri kílómetra hvern einasta dag til þess að ganga í skóla, meðan önnur börn búa tímabundið hjá fjarskyldum ættingjum meðan á skólagöngu þeirra stendur. Mera telur sig mjög lánsama og sagði okkur að þegar þorpið hennar var valið sem staðsetning fyrir grunnskólann sá hún það sem tækifæri til þess að fá loksins að láta draum sinn rætast og ganga í skóla með stuðningi foreldra sinna. Meru langar til þess að verða hjúkrunarfræðingur í framtíðinni og metur því þetta tækifæri til náms mikils.


Menntamálaráðherra Sierra Leone heimsótti Ísland

Menntamálaráðherra Síerra Leóne, Dr. Minkailu Bah, heimsótti Ísland fyrir skemmstu til að veita viðtöku styrk frá Aurora velgerðasjóði. Nýtti ráðherrann tækifærið og hitti menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur ásamt því að heimsækja ýmsar stofnanir og fyrirtæki á meðan á dvöl hans stóð.

Tilgangur heimsóknar ráðherrans var, eins og áður sagði, að veita viðtöku styrk frá Aurora velgerðasjóði, en sjóðurinn veitti nýlega u.þ.b. 140 milljónum króna (andvirði tveggja milljóna Bandaríkjadala) til menntaverkefnis í Síerra Leóne. Áður höfðu hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson veitt 36 milljónum króna (500 þúsund Bandaríkjadölum) til uppbyggingar á skólaaðstöðu, þjálfunar kennara og kaupa á námsgögnum fyrir strjálbýl svæði landsins.

Ráðherrann hóf heimsókn sína á kvöldverði í ráðherrabústaðnum í boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Með ráðherranum í för var Mrs. Edna M Jones frá ráðuneyti menntamála, vísinda og tækni í Síerra Leóne.

Daginn eftir heimsótti ráðherrann menntamálaráðuneytið og hitti þar Þorgerði Katrínu, Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra og Steingrím Sigurgeirsson aðstoðarmann ráðherra. Þar var farið yfir uppbyggingu menntakerfisins á Íslandi, skólagjöld, lánamál o.fl.

Háskólinn í Reykjavík

Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík tók á móti ráðherranum ásamt Ingu Dóru Sigfúsdóttur, forseta Kennslufræði- og lýðheilsudeildar. Svafa skýrði frá skipulagi og áherslum HR og einnig framtíðaraðstöðu skólans sem verður í Öskjuhlíðinni.  Einnig sagði hún frá verkefni á vegum skólans sem unnið verður í samstarfi við UNICEF í Gíneu Bissau, þar sem kennarar úr Kennslufræði- og lýðheilsudeild HR fara til Gíneu Bissau til að mennta verðandi grunnskólakennara.  Að lokum var litið við í fyrirlestri hjá Geir Gunnlaugssyni lækni, en hann bjó í fimm ár í Gíneu Bissau og var læknisfræðilegur ráðunautur hjá heilbrigðisyfirvöldum.

Háskóli Íslands

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Jón Atli Benediktsson Ph.D. þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors tóku á móti ráðherranum.  Sagði Kristín frá samstarfi við Háskóla Nígeríu, nemendaskiptum og styrkjum, en nokkrir nemendur frá Nígeríu hafa stundað nám við HÍ í tengslum við það.

UNICEF

Dr. Bah heimsótti einnig UNICEF á Íslandi og hélt tölu á opnum málfundi UNICEF Ísland fimmtudaginn 24. janúar sl.

 

Ávarp Dr. Minkailu Bah, ráðherra menntamála Síerra Leóne í Reykjavík, 23. janúar 2008

Ráðherra/r, aðstandendur Aurora velgerðasjóðs, Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson, fulltrúar UNICEF frá Síerra Leóne og aðrir gestir.

Ég færi ykkur kveðju frá Forseta Síerra Leóne, herra Ernest Bai Koroma, frá ríkisstjórninni og þjóðinni allri.  Það gladdi mig mikið þegar ég fékk þetta góða boð frá ykkur, ekki einungis vegna þess rausnarlega framlags sem við veitið okkur hér í dag, heldur einnig vegna þeirrar velvildar sem við njótum frá fólki og landi svo langt í burtu.  Velvild ykkar mun ætíð tengja Ísland og Síerra Leóne sterkum böndum.

Ég er ekki viss hversu mikið viðstaddir vita um Síerra Leóne og stöðu menntunar í landinu.  Ég ætla ekki að þreyta ykkur með langri ræðu en langar að nefna nokkur atriði sem ég vona að geti vakið áhuga ykkar.

Síerra Leóne ber enn það nafn sem portúgalskur landkönnuður gaf því er hann á að hafa “fundið landið” ? eins og það hafi verið týnt.  Höfuðborgin Freetown varð að breskri nýlendu og geymslustaður fyrir frelsaða þræla.  Seinna varð hún vettvangur enskunáms fyrir enskumælandi lönd Afríku og varð þekkt sem Aþena Afríku.  Svo má vel hafa verið en vestræn menntun náði ekki inn til alls landsins.

Sjálfstæði náðist á sjöunda áratugnum en meirihluti þjóðarinnar hafði lítinn sem engan aðgang að menntun.

Tíu ára löng borgarastyrjöld, sem hófst 1990 og endaði með friðarsáttmála árið 2001, gerði illt verra ? Síerra Leóne var í molum. Framtíðin virtist í uppnámi, þjóðin var tvístruð og að niðurlotum komin, hagkerfið nánast að engu orðið og menntastofnanir eyðilagðar.  En við erum sterk og ákveðin þjóð.

Við höfum risið upp úr örvæntingu með hjálp vina eins og Íslands og UNICEF.  Í dag getum við státað af stórkostlegri fjölgun í skólum, byggingu skóla á stöðum þar sem áður voru engir, vaxandi fjölda ungmenna með grunnmenntun og auknum hagvexti. Munur á aðgangi að menntun eftir kyni eða landfræðilegri staðsetningu hefur einnig minnkað mikið.

Ég vildi að ég gæti sagt að nú gengi allt vel í Síerra Leóne, en það væri ekki rétt.  Ný úttekt á menntakerfi landsins sýnir að enn vantar mikið upp á. Stærsti þátturinn er e.t.v. sá, að ríkisstjórn Síerra Leóne getur ekki, ein og sér, séð þegnum sínum fyrir menntun með því að nota eingöngu eigin úrræði.  Þetta þýðir einfaldlega, að án stuðnings vina og samstarfsaðila hefðum við ekki tök á að veita grunnskólabörnum nauðsynlega menntun eða þjálfa og greiða kennurum fyrir sína þjónustu. Við gætum heldur ekki lengur reynt að útrýma aðstöðumun vegna kynferðis eða landfræðilegrar staðsetningar.

Við erum handviss um að tekjur munu halda áfram að vaxa, að verg landsframleiðsla muni enn hækka og að fátækt muni minnka, en töluverður tími mun líða þangað til þörf okkar fyrir utanaðkomandi aðstoð verður að engu. Þangað til munum við þurfa á fjárframlögum að halda, eins og veitt eru hér í dag.

Mikilvægt er að framlög séu gagnsæ, án annarra skuldbindinga, og komi í gegnum trausta aðila, þar sem vitað er að framlögin fari að öllu leyti til uppbyggingar á menntakerfinu.

Allir þeir sem ljúka grunnmenntun, verða að fá viðurkenningu, sem er einhvers virði.  Menntastig þjóðarinnar ákvarðast af gæðum grunnmenntunar í landinu.  Þetta hefur mikil áhrif á hæfni einstaklingsins, efnahag landsins og forystu.  Það dugar ekki lengur að börn gangi í gegnum skólakerfi, heldur verðum við að tryggja þeim menntun sem kennir þeim að lesa og reikna og hvetur þau til að taka þátt í atvinnulífinu eða leita sér frekari menntunar.

Margar hindranir á veginum eru landfræðilegar.  Þegar börn, sérstaklega stúlkur, geta ekki verið örugg á leið í skólann eða í skólanum, þá verður að bregðast við.

Velgerðasjóðurinn sem gefur framlagið hér í dag hefur áður gefið andvirði 500 þúsund Bandaríkjadala í gegnum UNICEF árið 2006 og á eftir því fylgdi framlag upp á 420 þúsund Bandaríkjadali frá íslensku ríkisstjórninni í janúar 2007.  Þetta er því það þriðja og stærsta framlag sem við höfum fengið frá Íslandi á síðastliðnum tveimur árum.

Við erum þakklát Ingibjörgu Kristjánsdóttur og Ólafi Ólafssyni fyrir þessa miklu og innilegu velvild.

Þið getið verið viss um að börnin og fólkið í Síerra Leóne mun verða áskynja um þessa velvild í okkar garð og þið munuð ætíð verða velkomin til Síerra Leóne.

Virðulegur gestir, ég hef talað lengur en ég ætlaði.  Ég vona að ég hafi vakið áhuga ykkar á að vita meira um Síerra Leóne.

Tryggjum að vináttubönd Íslands og Síerra Leóne styrkist enn frekar.

Það er mér mikill heiður að vera hér í dag og taka á móti framlagi úr Aurora velgerðasjóði að upphæð tveimur milljónum Bandaríkjadala til menntaverkefnis UNICEF í Síerra Leóne.

Ég þakka ykkur öllum

 


Aurora velgerðasjóður ráðstafar 210 milljónum króna til fjögurra styrktarverkefna hérlendis og í Afríku

Stjórn Aurora velgerðasjóðs kynnti í dag þá ákvörðun sína að ráðstafa alls 210 milljónum króna til fyrstu styrktarverkefna sjóðsins. Hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir landslags-arkitekt og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og Alfesca, stofnuðu velgerðasjóðinn fyrir réttu ári á fimmtugsafmæli Ólafs, 23. janúar 2007, og lögðu honum til einn milljarð króna í stofnframlag. Sjóðnum var síðar gefið nafnið Aurora (segulljós), honum voru settar samþykktir og starfsreglur og sjóðsstjórn skipuð.

Gert er ráð fyrir að verja arði og vaxtatekjum sjóðsins til ýmissa verkefna í þróunar-löndum og til að göfga mannlíf á Íslandi með því að styrkja verkefni á sviði menningar, mennta og lista í samræmi við samþykktir sjóðsins og ákvörðun sjóðsstjórnar hverju sinni.

Stjórn velgerðasjóðsins tilkynnir nú um fyrstu styrkina úr sjóðnum, samtals 100 milljónir króna, til fjögurra verkefna árið 2008. Tvö þessara verkefna eru til þriggja ára og í raun ráðstafar stjórn velgerðasjóðsins því alls 210 milljónum króna:

Verkefnin sem hlutu styrki til þriggja ára:

Menntamálaráðherra Síerra Leóne, dr. Minkailu Bah, kom til Íslands í tilefni af ákvörðun Aurora velgerðasjóðs um að styðja uppbyggingu menntakerfis landsins. Hann hitti m.a. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að máli og notaði tækifærið til að heimsækja bæði Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Fuglasafn Sigurgeirs er kennt við Sigurgeir Stefánsson á Ytri-Neslöndum við Mývatn, áhugamann um fuglalíf og náttúru sem lést af slysförum árið 1999. Hann safnaði uppstoppuðum fuglum og eggjum og átti orðið um 320 uppstoppaða fugla og egg undan um 100 tegundum varpfugla á Íslandi. Aðstandendur Sigurgeirs ákváðu að ráðast í að byggja hús yfir safnið og hýsa þar líka Sleipni, bát Jóns Sigtryggs-sonar á Syðri-Neslöndum, eitt fyrsta samgöngutæki Mývetninga. Nýja sýningarhúsið var orðið fokhelt á árinu 2006. Þar vantar ýmsan búnað til sýningahalds og Aurora velgerðasjóður ætlar að hlaupa undir bagga. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:
„Fjölskylda Sigurgeirs heitins Stefánssonar á heiður skilinn fyrir að hafa lagt út í að byggja hús yfir fuglasafnið og undirbúa sýningahald þar af fádæma metnaði og þrautseigju. Stjórn Aurora velgerðasjóðs hefur ákveðið að leggja henni lið svo Fuglasafn Sigurgeirs fái sem fyrst þann aðbúnað sem því ber til að auðga mannlíf og menningu í Mývatnssveit og á landinu öllu.“

Heilbrigðisverkefni í Malaví. Aurora velgerða-sjóður greiðir kostnað við viðbyggingu barnadeildar héraðssjúkrahússins í Mangochi og gert er ráð fyrir að nýja húsið verði tekið í gagnið í haust. Barnadeildin er alltof lítil og gert er ráð fyrir að hægt verði að tvöfalda húsrými hennar og bæta 36 sjúkrarúmum við þau 36 rúm sem fyrir eru. Einnig á að koma á laggirnar 10 rúma gjörgæslu- og nýburadeildum, móttökudeild og vaktstöð fyrir hjúkrunarfólk. Jafnframt verður farið í nauðsynlegar framkvæmdir við rotþrær og fráveitulagnir tilheyrandi barnadeildinni/sjúkrahúsinu. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:
„Brýnt er að auka og efla heilbrigðisþjónustu í Malaví, ekki síst við börn. Tíunda hvert lifandi fætt ungabarn deyr og sautján börn af hverjum hundrað deyja áður en þau verða fimm ára. Þarna er því augljóslega verk að vinna og Aurora velgerðasjóður ætlar að leggja sitt af mörkum til að bæta heilbrigðisþjónustu við barnadeild héraðssjúkrahússins í Mangochi í Malaví.“
Menntaverkefni í Síerra Leóne. Markmiðið er að styðja Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir 2015. Aurora velgerðasjóður og UNICEF á Íslandi munu vinna í sameiningu að því marki að 85% barna í Síerra Leóne njóti grunnmenntunar í skóla árið 2010. Sjóðurinn ver jafnvirði 120 milljóna íslenskra króna til að reisa skólahús í Síerra Leóne á árunum 2008-2010. Í hverju húsi verða þrjár til sex skólastofur þar sem gert er ráð fyrir að kenna börnum á aldrinum 6-12 ára. Jafnframt útvegar sjóðurinn húsgögn og nauðsynlegan búnað í skólana og sér húsunum fyrir vatni, hreinlætisaðstöðu og leiktækjum utan dyra. Þá mun sjóðurinn standa straum af kostnaði við að mennta og þjálfa kennara, horfa jafnframt sérstaklega til menntunar og öryggis stúlkna og styðja hópastarf kvenna og mæðra. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Menntun er eitt helsta vopnið gegn fátækt í heiminum og gefur einkum börnum færi á mannsæmandi lífskjörum, eykur sjálfsvirðingu þeirra og hefur víðtæk áhrif til að skapa upplýst samfélag. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur að mati stjórnar Aurora velgerðasjóðs gert heildstæða aðgerðaáætlun um uppbyggingu grunnmenntunar í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims. Þar er ráðist að rótum vandans og tekið á flestum þáttum sem standa í vegi þess að börn á grunnskólaaldri, einkum stúlkur, njóti þeirra menntunar sem þau eiga rétt á.“

Kraumur tónlistarsjóður er sjálfstæður sjóður á vegum Aurora velgerðasjóðs. Hann hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Íslenskt tónlistarlíf er sérstakt um margt, einkum vegna áberandi krafts og áræðis sem einkennir tónlistarfólk af yngri kynslóðinni. Sykurmolarnir og Björk ruddu braut í tónlistarútrás sem á sér enga hliðstæðu. Fjöldamargir tónlistarmenn fetuðu í fótspor þeirra með undraverðum árangri og nú er tónlistarlíf á Íslandi orðið einn sterkasti þátturinn í ímynd lands og þjóðar út á við. Óvenjulegt samspil dægurtónlistar og sígildrar tónlistar getur orðið drifkraftur frekari landvinninga. Stuðningur við unga tónlistarmenn, til verkefna og samstarfs af ýmsu tagi, skýtur styrkari stoðum undir þennan mikilvæga vaxtarbrodd í íslensku menningarlífi.“