Horft yfir sjóndeildarhringinn úr Þjóðminjasafninu

29.01.08

„Megi velgerðasjóðurinn Aurora gera sem flestum kleift að sjá yfir sjóndeildarhringinn!“ sagði Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Aurora, meðal annars þegar hún setti samkomu í Þjóðminjasafninu á miðvikudaginn var, 23. janúar, í tilefni af því að tilkynnt var um fyrstu styrktarverkefni sjóðsins.

Athöfnin hófst reyndar með tónleikum hinnar stórgóðu sveitar Hjaltalín, sem kom svo meira við sögu síðar í dagskránni, og formlegri dagskrá lauk svo með hrífandi fiðluleik Unu Sveinbjörnsdóttur.

Ingibjörg rifjaði upp aðdraganda sjóðsstofnunarinnar í ávarpi sínu og lauk máli sínu á eftirfarandi orðum:

„Rétt eins og fjögur börn gyðjunnar Áróru stóðu fyrir höfuðáttunum norður, suður, austur og vestur, styrkjum við hér í dag fjögur verkefni, tvö menningartengd verkefni hérlendis, eitt fyrir norðan og eitt fyrir sunnan, og tvö þróunarverkefni í Afríku; eitt í austri og annað í vestri. Vert er að benda á að frekari upplýsingar um sjóðinn og verkefnin má nálgast á heimasíðunni www.aurorafund.is. Áður en ég hleypi stjórnarmönnum að vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn með okkur hjónuum til að gera þetta verkefni, sem er okkur mjög hugleikið, að veruleika. Megi velgerðasjóðurinn Aurora gera sem flestum kleift að sjá yfir sjóndeildarhringinn.“

Tugir gesta voru viðstaddir athöfnina, sem tókst sérlega vel og sannarlega var stemningin eins og efni stóðu til! Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra heiðraði samkomuna með nærveru sinni og það gerði líka kollegi hennar úr ríkisstjórn Síerra Leóne, dr. Minkailu Bah. Sá síðarnefndi tók við bréfi úr hendi Ingibjargar stjórnarformanns upp á þiggja ára samstarf Aurora við menntamálayfirvöld í heimalandi sínu og færði sjóðsstjórn innilegar þakkir ríkisstjórnar sinnar og landsmanna allra.

Sigurður Guðmundsson, landlæknir og stjórnarmaður í Aurora, kynnti Malaví-styrktarverkefnið fyrir gestum og var þar á heimavelli í ákveðnum skilningi því hann var við störf á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví á árinu 2007, ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Snæbjörnsdóttur. Enginn fulltrúi frá Malaví var á vettvangi til að taka við styrknum úr hendi Sigurðar en í það skarð hljóp ung íslensk stúlka, Hekla Sól Kristjánsdóttir, og skilaði með miklum sóma hlutverki sínu sem skjótskipaður sendiherra Malaví á Íslandi.

Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og stjórnarmaður í Aurora, kynnti þá ákvörðun sjóðsstjórnar að stofna sjóðinn Kraum til stuðnings ungu tónlistarfólki. Eldar Ástþórsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Kraums, veitti styrknum viðtöku og sagði að sjóðurinn yrði íslensku tónlistarlífi tvímælalaust mikilsverður bakhjarl. Hljómsveitin Hjaltalín þakkaði á sinn hátt ? og jafnframt fyrir hönd tónlistarmanna af yngri kynslóðinni ? með vel völdum tónum úr hinum enda salarins í Þjóðminjasafninu.

Ólafur Ólafsson, annar stofnenda Aurora og stjórnarmaður í sjóðnum, afhenti styrk vegna Fuglasafns Sigurgeirs í Mývatnssveit. Hann sagðist einkum hafa hrifist af þeim frumkvöðlakrafti sem lýsti sér í þeirri djörfu ákvörðun fjölskyldunnar að Ytri-Neslöndum að ráðast í að byggja yfir fuglasafnið sem Sigurgeir Stefánsson skildi eftir sig þegar hann fórst í hörmulegu slysi á Mývatni í vetrarbyrjun 1999. Ólafur bar lof á aðstandendur safnsins fyrir þrautseigju, hugrekki og framsýni en um leið fyrir ráðdeildarsemi og gætni í hverju skrefi verkefnisins. Pétur Bjarni Gíslason, mágur Sigurgeirs heitins, var mættur til að taka við styrknum úr hendi Ólafs. Hann vonast til að fjármunirnir geri aðstandendum safnsins mögulegt að opna það 1. júlí í sumar.

Við upphaf samkomunnar vék Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Aurora, meðal annars að nafni sjóðsins Aurora og sagði meðal annars:

Afríkubúi nokkur stóð eitt sinn frammi fyrir því verkefni að snara á þjóðtungu sína texta þar sem fyrir kom hugtakið von. Honum fannst þýðingin einkar strembin því að orðið von fyrirfannst hreinlega ekki í tungumáli hans. Svo leið og beið og ekkert gekk en allt í einu ljómaði andlit mannsins af ánægju og hann hrópaði upp yfir sig: „Að vona er auðvitað að sjá yfir sjóndeildarhringinn!“

Það var engin tilviljun að við völdum nafnið AURORA á velgerðasjóðinn sem veitt verður úr í fyrsta sinn hér í dag. Merking nafnsins er tvíþætt:

1. Aurora er persónugerving dögunar og hin rómverska gyðja sólarupprásar. Þannig skírskotar Aurora til andlegra verðmæta ljóss og birtu, til þeirrar dagrenningar sem gerir okkur kleift að sjá yfir sjóndeildarhringinn, þangað sem vonin býr.

2.    Aurora er skylt orðinu aurum á latínu sem merkir gull og þá jafnframt skylt íslensku orðunum eyrir og aurar. Þannig skírskotar Aurora til veraldlegra verðmæta, til þess fjármagns er getur komið góðu til leiðar ef rétt hugarfar býr að baki og rétt er á málum haldið. Í þessu felst einmitt hið tvíeina eðli velgerðasjóðsins:Að kveikja með fólki nýja von og efla getu þess til góðra verka.

Ingibjörg fjallaði líka um það í ávarpi sínu hvernig það kom til að hún og bóndi hennar, Ólafur, fóru að beina sjónum sínum að Afríku og þróunarhjálp þar í álfunni og að stuðningi við menningarverkefni hér heima:

„Hugmyndin að virku stuðningsafli við þróunarhjálp kviknaði í tengslum við ferðir og verkefni okkar Ólafs í Afríku, þessari stórkostlegu vöggu alls mannkyns. Það er erfitt annað en að bindast sterkum tilfinningalegum tengslum við þessa álfu ægifagurrar víðáttu, síkvikrar náttúru og stórkostlegra íbúa

Þegar ég hugsa um Síerra Leóne, finn ég alltaf fyrir kraftinum sem býr með þessari þjóð þrátt fyrir allan mótbyr. Ég sé fyrir mér iðandi mannfjöldann í Freetown, óhamda þjóðlega litaauðgi í borg sem aldrei sefur. Þrátt fyrir erfitt atvinnuástand og margvíslegt andstreymi, eiga íbúar Síerra Leóne auðvelt með að gleyma amstri dagsins í söng og dansi. Brosið og hláturinn er aldrei langt undan og þá er auðvelt að hrífast með. Við hjónin höfum oft talað um að í þessum ferðum okkar verði sálartetrið svo sveiflukennt. Það sveiflist frá vondeyfð og jafnvel gremju yfir ástandinu, og þá sérstaklega þeirri algjörlega tilgangslausu eyðileggingu sem átti sér stað í borgarastyrjöldinni, yfir í ákefð og hrifningu yfir öllum þeim möguleikum sem blasa við þessari frábæru heimsálfu EF undirstöðuatriðin eru í lagi, þ.e. heilsugæsla, menntun, hreint vatn og samgöngur. Að lokum tekur svo við gleði yfir öllu því jákvæða sem verið er að gera. Og þá kemur einmitt stóra spurningin: „Hvað er hægt að gera?“

Hugmyndin að stuðningi við menningarstarfsemi á Íslandi kviknaði þegar við hjónin ákváðum að gerast fjárhagslegir bakhjarlar Kjartans Ragnarssonar og Sigríðar M. Guðmundsdóttur við stofnun stórvirkis þeirra, Landnámssetursins í Borgarnesi. Það hefur verið gaman að upplifa hvernig þetta frábæra framtak þeirra hefur sáð fræjum nýrra hugmynda og áræðis út í samfélagið og sýnt hve skammt getur verið á milli góðrar hugmyndar og veruleika.“

Lettie Stuart Pottery School Exhibition

Lettie Stuart Pottery School Exhibition

We are delighted to share the resounding success of the recent Pottery School Exhibition held at Lettie Stuart Pottery in Waterloo on March 14th. The event, hosted by Aurora Foundation, was a vibrant celebration of the remarkable progress achieved by the students of...

Business Model Canvas training – IR Bootcamp

Business Model Canvas training – IR Bootcamp

On March 12th, the Aurora Foundation Training Center buzzed with entrepreneurial energy as we hosted a dynamic Business Model Canvas training session tailored for IR Bootcamp startup businesses. Facilitated by our adept Aurora Impact Programme Manager, Mavis Madaure,...

Successful compelition of ICT Webpage Development Overview Course

Successful compelition of ICT Webpage Development Overview Course

We are excited to share the successful conclusion of our recent 2-week ICT Web Development overview and outline course, finalized on February 27th at the Aurora Office Training Center. Participants joined us on February 12th for a week-long exploration of ICT Webpage...