(Icelandic only)
YFIRLIT YFIR STARFSEMI AURORU VELGERÐASJÓÐS Á ÁRINU 2009
Ákveðið hefur verið að gera þá breytingu á ársskýrslu Auroru Velgerðasjóðs að yfirlitið taki yfir dagatalsárið en ekki starfsárið (á milli aðalfunda) eins og áður hefur verið. Þetta er gert til að samræmi sé á milli skýrslunnar og ársreiknings. Þar af leiðandi er eitthvað um endurtekningar frá því í síðustu ársskýrslu. Beðist er velvirðingar á því.
1. Stjórnarfundir
Stjórn Auroru kom fjórum sinnum saman til fundar á árinu 2009 auk sérstaks stefnumótunarfundar sem haldinn var í apríl og aðalfundar sem haldinn var í maí. Stjórn fór í viku vettvangsferð til Sierra Leone í byrjun nóvember.
2. Kosning stjórnar
Stjórn var endurkosin á aðalfundi sjóðsins sem haldinn var þann 22. maí 2009. Hana skipa;
- Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
- Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Alfesca og annar stofnandi sjóðsins
- Sigurður Einarsson, fjárfestir
- Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ
- Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður Ago.
Formaður stjórnar var kosin Ingibjörg Kristjánsdóttir og gjaldkeri Sigurður Einarsson.
3. Heimasíða
Aurora Velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóði hans, Kraum tónlistarsjóð Auroru, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja.
4. Ferð Auroru Velgerðasjóðs til Sierra Leone í nóvember
Tilgangur ferðarinnar var að kynna stjórn og framkvæmdastjóra stöðu menntaverkefnisins sem Aurora styrkir þar í landi og unnið er í samvinnu við Unicef og menntayfirvöld í landinu. Einnig að skoða hugsanleg ný verkefni.
Fjárframlag Auroru er veitt til uppbyggingar menntunar í Kono héraði sem er í austur/ hluta landsins við landamæri Guineu. Heimsóttir voru m.a. skólar sem byggðir hafa verið fyrir styrk frá Auroru og fundir haldnir með yfirmanni mennta/ mála héraðsins, skólastjórum, kennurum og foreldrum sem gáfu góða innsýn í verkefnið og umfang þess. Miklu hefur verið áorkað og er ánægjulegt að sjá framfarirnar sem orðið hafa í menntamálum landsins undanfarin 3/5 ár.
Menntamálaráðherra landsins Dr. Minkailu Bah tók á móti hópnum í ráðuneyti sínu og upplýsti hann um stöðu og framtíðarsýn ráðuneytisins, uppbyggingu menntakerfisins sem lagðist í rúst í borgarastyrjöldinni sem ríkti í landinu í meira en áratug. Ráðherrann kom á fundi með forseta landsins, Dr. Ernest Bai Koroma en forsetinn hafði kynnt sér störf Auroru velgerðasjóðs í landinu. Forsetinn tók á móti hópnum á skrifstofu sinni og þakkaði stofnendum og stjórn sjóðsins fyrir sýndan hlýhug í garð Sierra Leone og aðstoðina við menntamál landsins.
Einnig kynnti hópurinn sér ýmis önnur verkefni á sviði heilbrigðismála, menntamála og atvinnumála sem gætu hugsanlega fallið að stefnu sjóðsins.
Ferðin gaf hópnum gott yfirlit, betri sýn og skilning á stöðu menntamála í landinu og ekki síður þann veruleika sem Sierra Leonisk börn búa við. å
5. Úthlutanir á árinu 2009
Aurora Velgerðasjóður úthlutaði alls tæpum 114,2 milljónum króna til 8 verkefna á árinu 2009. Formleg úthlutun fór fram einu sinni, þann 13. febrúar, og þar var úthlutað 111,5 milljónum króna til 6 verkefna, en auk þess tók stjórn ákvörðun um að styrkja tvö verkefni til viðbótar; í Nepal og í Malawi. Sex af þessum átta eru ný verkefni og þrjú verkefnanna eru eigin verkefni sjóðsins.
Verkefnin sem hlutu styrki 2009 voru eftirfarandi:
- Nýstofnaður Hönnunarsjóður Auroru……………………………………….kr 25.000.000
- Kraumur, tónlistarsjóður Auroru………………………………………………kr 20.000.000
- Þrjú verkefni á vegum Rauða Kross Íslands……………………………..kr 20.000.000
- MusMap.com – verkefni Huga Guðmundssonar tónskálds…………..kr 3.000.000
- “Útvarp Mosambique” – verkefni á vegum UNICEF ……………………kr 3.500.000
- Menntaverkefni í Sierra Leone á vegum UNICEF………………………kr 40.000.000
- “Shelter for life” – verkefni í Nepal………………………………………………..kr 690.120
- Styrkur til kennaramenntunar í Malawi……………………………………….kr 2.000.000
6. Lýsing verkefna
6.1. Eigin verkefni
Hönnunarsjóður Auroru styrkur kr 25.000.000
Hönnunarsjóður Auroru er nýr sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru Velgerðasjóðs. Sjóðurinn er tilraunaverkefni og var úthlutað 75 milljónum til þriggja ára. Fyrsta greiðsla til sjóðsins, 25 milljónir króna, fór fram við stofnun hans í febrúar 2009.
Markmið með stofnun sjóðsins var að virkja kraftinn, sem býr í hönnunar/ geiranum, með beinum fjárframlögum til framúrskarandi hönnuða og auðvelda þeim að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum og vörum á framfæri hérlendis og erlendis. Enn fremur að miðla þekkingu á þessu sviði, efla grasrótarstarf og stuðla að samstarfi hönnuða og aðila úr athafnalífinu.
Framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru var ráðinn Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður og hóf sjóðurinn starfsemi sína af fullum krafti strax í byrjun febrúar.
Alls var úthlutað 21.070.000 til 16 hönnuða og verkefna á árinu 2009. Úthlutað var tvisvar, í maí og í september. Úthlutunarferlið er unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra og voru haldnir tíu stjórnarfundir á þessu fyrsta ári sjóðsins.
Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.
Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipar eftirtalda aðila:
- Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt, formaður.
- Jóhannes Þórðarsson, arkitekt og deildarforseti hönnunar og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, meðstjórnandi.
- Halla Helgadóttir, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, meðstjórnandi.
Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:
- Áslaug Magnúsdóttir, TSM Capital í New York.
- Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnarháskóla.
- Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal.
- Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia.
- Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, VA arkitektar.
- Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.
- Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður
Nánar er sagt frá verkefnum sjóðsins í viðhengi 1 með ársskýrslunni, en það er úrdráttur úr ársskýrslu Hönnunarsjóðs Auroru 2009, sem lögð var fram á aðalfundi Hönnunarsjóðsins þann 19. maí sl.
Kraumur tónlistarsjóður Auroru styrkur kr 20.000.000
Kraumur, sem er sjálfstætt starfandi sjóður á vegum Auroru Velgerðasjóðs, fékk 20 milljónir króna til að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og til kynningar á verkum sínum. Kraumur var stofnaður í ársbyrjun 2008 að frumkvæði Auroru og var þá tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til tónlistarsjóðsins alls 50 milljónum króna í þrennu lagi á árunum 2008/2010. Stjórn Auroru ákvað síðan í ársbyrjun 2009 að hækka upphæðina í 60 milljónir, þannig að þetta er önnur úthlutunin til Kraums upp á 20.000.000.
Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.
Kraumur úthlutaði alls 11,5 milljónum til 19 verkefna á árinu 2009, en að baki hvers verkefnis eru að jafnaði margir aðilar sem njóta góðs af.
Úthlutanir úr sjóðnum fyrir árið 2009 fóru fram í byrjun apríl. Áhersla var lögð á innlend verkefni á þessu öðru starfsári Kraums með Innrásinni og stuðning við starfsemi listamanna og hljómsveita hérlendis.
Stjórn Kraums tónlistarsjóðs á árinu 2009 skipuðu eftirtaldir aðilar:
- Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarformaður Ago, formaður
- Pétur Grétarsson, tónlistarmaður og framkvæmdarstjóri, meðstjórnandi
- Ásmundur Jónsson, framkvæmdarstjóri, meðstjórnandi.
Í fagráði Kraums tónlistarsjóðs sitja:
- Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdarstjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, ÚTÓN
- Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
- Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu
- Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður
- Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands
- Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar
- SJÓN (Sigurjón Birgir Sigurðsson), rithöfundur.
Framkvæmdastjóri sjóðsins er Eldar Ástþórsson.
Nánar er sagt frá verkefnum sjóðsins í viðhengi 2 sem er úrdráttur úr ársskýrslu Kraums 2009, sem lögð var fram á aðalfundi Kraums þann 15. apríl sl.
6.2. Innlend verkefni
Þrjú verkefni á vegum Rauða Kross Íslands styrkur kr 20.000.000
Rauði kross Íslands fékk 20 milljónir króna til stuðnings innanlandsverkefnum, þ.e. Hjálparsíminn 1717; Vin, athvarfi RKÍ fyrir fólk með geðraskanir og til aðgerða RKÍ vegna efnahagsþrenginga í samfélaginu, sérstaklega þær sem varða sálrænan stuðning.
Vegna efnahagsástands hér á landi þótti mikilvægt að auka þjónustu hjá Hjálparsímanum 1717.
Styrkur Auroru fór m.a. í tvö átök sem tengjast afleiðingum efnahagshrunsins. Í því fyrra var sjónum beint að málefnum fólks í greiðsluerfiðleikum og var tilgangurinn að benda fólki á ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem stæðu þeim til boða. Í seinna átakinu var farið af stað með verkefni undir yfirskriftinni “Hlustum á börnin”. Með því vildi Hjálparsíminn minna fólk á að vera vakandi yfir líðan barna á erfiðum tímum og einnig upplýsa börn og unglinga um þau úrræði sem standa þeim til boða þegar erfiðleikar steðja að.
Styrkurinn frá Auroru var einnig nýttur til stofnunar Rauðakrosshússins í Borgartúni. Þar geta einstaklingar og fjölskyldur sótt sér sálrænan stuðning og ráðgjöf um margvísleg úrræði sem bjóðast í samfélaginu. Þar er í boði ýmis konar fræðsla og félagsstarf opið öllum.
Greiðslum Auora til þessa verkefnis er lokið.
MusMap.com styrkur kr 3.000.000
Hugi Guðmundsson tónskáld fékk 3 milljónir króna fyrir hönd aðstandenda heimasíðunnar MusMap.com til styrktar alþjóðlegu menningarverkefni sem ætlað er að efla klassíska tónlist og vinna henni ný lönd með því að nota vefinn.
Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er lokið.
6.3. Erlend verkefni – þróunarhjálp
Menntaverkefni í Síerra Leóne styrkur kr 40.000.000
Menntaverkefnið í Sierra Leone fékk 40 milljónir króna til að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga. Þetta er önnur úthlutun sjóðsins til verkefnisins af fimm, liður í veigamesta verkefni sjóðsins frá stofnun og unnið í samvinnu við menntayfirvöld þar í landi og UNICEF á Íslandi og í Síerra Leóne.
Markmiðið er að styðja UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir 2015. Stofnað var til verkefnisins árið 2008 og jafnframt tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til þess alls 2.000.000 USD, eða 120 milljónum króna á þáverandi gegni, í þrennu lagi á árunum 2008/2010. Við hrun íslensku krónunnar í lok árs 2008 jókst greiðslubyrgði sjóðsins vegna þessa verkefnis, um helming, þar sem upphafleg upphæð styrksins var í dollurum. Í samvinnu við Landsskrifstofu UNICEF á Íslandi var því ákveðið að dreifa greiðslunum á allt að fimm ár í stað þrjú. Miðað við óbreytt gengi mun því Aurora veita til þessa verkefnis um 200 milljónum króna á fimm árum. Þessar breytingar voru samþykktar af stjórn Auroru Velgerðarsjóði á stjórnarfundi í apríl 2009.
Styrkur Auroru fer allur í eitt af fátækustu héruðum Sierra Leone, Kono hérað sem liggur austast í landinu við landamæri Guineu. Í krafti verkefnisins hafa allt að annað hundrað kennarar hlotið þjálfun nú þegar. Í lok árs 2009 voru framkvæmdir við byggingu níu skóla í héraðinu vel á veg komnar með tilheyrandi vatnsveitu/ og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum. Efnt hefur verið til vitundavakningar í samfélögunum um gildi menntunar og markvisst er unnið að valdeflingu kvenna m.a. með stofnun mæðraklúbba, með það að leiðarljósi að auka þátttöku þeirra í skólastarfinu.
Á árinu var ákveðið að leggja aukna áherslu á gæði námsins og að laga það sem best að þörfum barnanna og þá sérstaklega stúlkubarna. Markmiðið er að halda stúlkunum sem lengst í skóla og koma þannig í veg fyrir að þær gangi í hjónaband og hefji barneignir á æskuárum. Meira er því lagt í endurmenntun kennara og þjálfun í kennsluaðferðum þar sem barnið eru sett í forgang og markvisst unnið að því að eyða félagslegum hindrunum í menntakerfinu sem standa stúlkum fyrir þrifum.
Útvarpsverkefni í Mosambík styrkur kr 3,500.000
Unicef á Íslandi fékk 3,5 milljónir króna til styrktar verðlaunuðu útvarpsverkefni samtakanna með börnum og ungmennum í Mósambík sem snýr að jafningjafræðslu, sjálfstyrkingu og þátttöku barna í samfélaginu. Samhliða voru íslenskir útvarpsþættir framleiddir af íslenskum börnum um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og var þeim útvarpað á rás 1 í Ríkisútvarpinu sl haust.
Um 800 börn og ungmenni taka þátt í útvarpsþættinum. Þau taka viðtöl við önnur ungmenni og koma upplýsingum á framfæri til þúsunda jafnaldra sinna í gegnum vinsælasta miðilinn í Afríku; útvarpið. Útvarpsverkefnið spilar stóran þátt í forvörnum gegn HIV, eiturlyfjum, ofbeldi, o.fl.
Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er lokið.
Shelter for Life – Nepal styrkur USD 6.000
Aurora velgerðasjóður styrkti verkefni í Nepal “Shelter for Life” sem er á vegum bandarísku hjálparstofnunar/ innar “Beyond Tears Worldwide” Tilgangur verkefnisins er að skapa umhverfisvæn heimili og um leið heilbrigðara umhverfi fyrir fjöldskyldur í fátækustu samfélögum Nepal. Þorpsbúum er útvegað og hjálpað við að setja upp eldavélar sem nýta viðinn betur og hleypa reyknum út úr hýbýlum og einnig er settur upp
búnaður til að nýta sólarorku til lýsingar . Með því skapast hreint loft og ljós á hvert heimili en hjálparstofnunin einbeitir kröftum sínum nú að Mugu héraði í Nepal. Vegna lélegs aðbúnaðar í fjallaþorpum Nepals eru það aðeins um 50% barna sem ná eins árs aldri og meðalaldurinn er 36 ár. Öndunarfærasjúkdómar eru megin orsök þessarar háu dánartíðni og mun því þetta verkefni bjarga fjölda mannslífa. Notkun eldavélanna og sólarorku til lýsingar mun einnig minnka notkun á eldivið um 65% og þar af leiðandi ágang á ört minnkandi skóglendi Himalayafjalla.
Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er lokið.
Menntaverkefni í Malaví styrkur kr. 2.000.000
Sjóðurinn styrkti menntaverkefni í Malaví í samvinnu við Rótarýklúbb Reykjavíkur. Um er að ræða styrk til 4 framhaldsskólanema, tveir eru í hjúkrun, sá þriðji í kennaranámi og sá fjórði í viðbótarkennaranámi (B.Ed), tvær konur og tveir karlar. Þau hafa öll undirritað skuldbindingu um að snúa aftur til Monkey Bay að loknu námi til starfa þar, en slíkt var skilyrði styrkveitingar.
Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er lokið.
6.4 Eldri verkefni – staða og framvinda
Heilbrigðisverkefni í Malawi – styrkt 2008 styrkur € 220.000
Aurora Velgerðasjóður greiddi kostnað við hönnun og viðbyggingu barnadeildar héraðssjúkrahússins í Mangochi í Malawi. Farið var af stað með verkefnið 2008 og var styrkurinn upp á 220.000,/ evrur. Deildin var tekin í notkun á haustmánuðum 2009 og hefur aðstaðan fyrir börn og umsjónarmenn þeirra lagast til muna við þessa viðbót, auk þess sem aðstaða starfsfólks deildarinnar er allt önnur. Í nýju viðbyggingunni eru 36
sjúkrarúm, einnig er þar 10 rúma gjörgæslu/ og nýburadeild, móttökudeild og vaktstöð fyrir hjúkrunarfólk. Western Construction Company Ltd sá um framkvæmdina fyrir Auroru. Greiðslur frá sjóðnum til verkefnisins eru allar samkvæmt áætlun, þ.e. aðeins er lokagreiðslan eftir sem er upp á € 11.000/ og greiðist 6 mánuðum eftir afhendingu byggingarinnar. Fyrirhugað er að tveir stjórnar/ menn Auroru fari til Malawi á árinu og taki út verkið og afhendi formlega yfirvöldum í héraðinu hina nýju deild.
Í lok árs 2009 ákvað síðan stjórn Auroru að styrkja sjúkrahúsið til kaupa á nýjum húsgögnum fyrir deildina. Unnið er að því ásamt heilbrigðisyfirvöldum að fá tilboð i húsgögnin.
6.5 Annað
Aschobi Design
Framkvæmdastjóri sjóðsins kynnti fyrir stjórn fatahönnuðinn Adömu Kai frá Sierra Leone. Adama er fædd þar í landi, en ólst hins vegar upp í Bandaríkjunum. Hún lærði fatahönnun í Parsons School of Design í París, en ákvað í framhaldi af því að flytja “heim” til Freetown og koma af stað sinni fyrstu fatalínu þaðan undir nafninu Aschobi Design. Hún hefur opnað verslun í Freetown og einnig selur hún í gegnum netið. Þó ung sé að árum hefur Adama fengið þó nokkra athygli hjá evrópskum og bandarískum tímaritum innan tískuheimsins fyrir metnaðarfulla hönnun og þá staðreynd að hún kýs að vinna að hönnun sinni í Freetown. Stjórn sjóðsins átti fund með henni á ferð sjóðsins í Sierra Leone og kynnti sér starfsemi hennar og viðskiptaáætlun og var niðurstaðan að hér væri athyglisverður einstaklingur á ferð sem áhugavert gæti verið fyrir sjóðinn að styðja við.
Í framhaldi af því samþykkti stjórn að sjóðurinn myndi vinna að frekari hugmyndum um hvernig hægt væri að koma Adömu Kai og fyrirtæki hennar til aðstoðar. Áfram er unnið í þessu verkefni.
- Lokaorð
Eins og sjá má að þá hefur Aurora velgerðasjóður áorkað miklu á sínum fyrstu starfsárum, hér innanlands hefur landslagið breyst, bæði í tónlistar og hönnunargeiraranum með tilkomu dóttursjóðanna tveggja. Stuðningur sjóðsins við frumkvöðlastarf hér á landi í tengslum við uppbyggingu Landnámssetursins í Borgarnesi og Fuglasafn Sigurgeirs við Mývatn hefur aukið á flóru landsins í safna/ og menningartengdri þjónustu við ferðamenn og ekki síður skapað viðkomandi byggðarlögum bæði atvinnu og tekjur vegna tilkomu þeirra.
Í þróunarmálum hefur sjóðurinn að mestu leiti einbeitt sér að menntaverkefninu í Sierra Leone og er það ljóst að það er óþrjótandi en verðugt verkefni.
Reykjavík 27. maí 2010.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður
Hulda Kristín Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri.
VIÐAUKI 1
Hönnunarsjóður Auroru – ýtarefni.
Yfirlit úthlutana og verkefna:
Þetta fyrsta starfsár sjóðsins fóru fram tvær úthlutanir, þar sem samtals var úthlutað 21.070.000 kr. til sextán aðila og skiptust styrkirnir þannig:
- 9.800.000 kr. eða 47% styrkja var úthlutað til lengra kominna hönnuða,
- 9.270.000 kr. eða 44% var úthlutað til grasrótarinnar
- 2.000.000 kr. eða 9% var úthlutað til verkefna sem þjóna mörgum og eru þannig stuðningur við fagið.
Fyrsta úthlutun úr Hönnunarsjóði Auroru fór fram 20.maí á Kjarvalsstöðum. Úthlutað var 12.660.000 kr. til níu hönnuða og samstarfsverkefna.
Þeir sem hlutu styrk voru:
- Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, vöruhönnuður til þróunarvinnu á vistvænum duftkerjum og líkkistum.
- Gunnar Þór Vilhjálmsson grafískur hönnuður til leturhönnunar fyrir Hönnunarsjóðinn sem verður gefið út á almennum markaði að loknu 3ja ára tilrauntímabili sjóðsins.
- Jón Björnsson vöruhönnuður til undirbúnings fjöldaframleiðslu á vösum úr sandi.
- Katrín Ólína vöruhönnuður til faglegrar uppbyggingar vörumerkis síns.
- KronbyKronKron skóhönnuðir til sýningahalds með skólínu sína erlendis.
- Linda Björg Árnadóttir fatahönnuður til sýningahalds með Scintilla, heimilistextíl erlendis.
- Sara María Júlíudóttir fatahönnuður til faglegrar uppbyggingar framleiðslu/ferla Nakta Apans & eftirfylgni sölusamninga erlendis.
- Hönnunarteymið Vík Prjónsdóttir til áframhaldandi þróunarvinnu á vörum Vík Prjónsdóttur, sem er samstarfsverkefni þeirra og Víkurprjóns, Vík í Mýrdal.
- Sýningin “Íslensk samtímahönnun 2009” á vegum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.
Seinni úthlutun ársins fór fram 20.október í nýju húsnæði Hönnunarsjóðs Auroru og Kraums tónlistarsjóðs.
Alls var úthlutað 7.870.000 kr. til átta einstaklinga.
Þeir sem hlutu styrk voru:
- Andrea Maack myndlistarmaður og hönnuður til vöruþróunar ilmvatns sem er innblásið af myndlistarverkum hennar.
- Bóas Kristjánsson til kynningarstarfs á fatalínu sinni 8045 erlendis.
- Charlie Strand með bók um íslenska fatahönnuði.
- Snæbjörn Stefánsson til vöruþróunar á leikföngum innblásnum af íslenskum matarhefðum.
- Sonja Bent til þáttöku í kynningarverkefni í New York með herrafatalínu sína.
- Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir fékk framhaldsstyrk fyrir duftker og líkkistur úr endurunnum efnum, til mótagerðar fyrir framleiðslu.
Auk þessa hlutu styrki fyrir nýlega útskrifaða hönnuði:
- Laufey Jónsdóttir til samstarfs við ullarframleiðslufyrirtækið Glófa ehf. til þróunar fatalínunnar BLIK, verkefni sem hófst árið áður í verkefni Hönnunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs “hönnun til útflutnings”
- Verkefnið “Stefnumót bænda og hönnuða” við LHÍ, sem er verkefni í matarhönnun, þar sem útskrifaðir nemendur fullvinna vörur sem komið hafa út úr námskeiðinu í þverfaglegri teymisvinnu undir handleiðslu reyndra hönnuða.
Eigin verkefni og samstarf
Megináhersla er á beinan fjárstuðning við einstaklinga, en Hönnunarsjóðurinn hefur einnig haft frumkvæði og tekið þátt í nokkrum sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans í samstarfi við ýmsa fagaðila.
Af þessum verkefnum ber hæst sýningin “ÍslenskSamtímahönnun 2009” þar sem Hönnunarsjóðurinn styrkti sérstaklega “Vaxtarsprota” innan sýningarinnar, þ.e. unga efnilega hönnuði. Sýningin var opnunarsýning Listahátíðar 2009 og er farandssýning, sem hefur síðan þá verið sett upp í Danmarks Design Center í Kaupmannahöfn og er nú á heimssýningunni í Shanghai.
Einnig má nefna hönnunarsýninguna “Í barnastærðum” í Hafnarborg, þar sem sjóðurinn kom að mótun og framkvæmd sérstaks nýsköpunarverkefnis þriggja ungra hönnuða.
Fyrirlestraröðin Hagnýtt Hádegi” er samstarfsverkefni Hönnunarsjóðs og Hönnunarmiðstöðvar um hagnýt málefni sem brenna á hönnuðum líkt og útflutningur, verðlagning, skattamál osfrv. Fyrirlestrarnir voru auk þess teknir upp á vegum sjóðsins og eru aðgengilegir á netinu. Þetta verkefni fellur undir þá stefnu hjá Hönnunarsjóðnum að leggja áherslu á ráðgjöf til hönnuða sem er svar sjóðsins við áþreifanlegum skorti á faglegri útfærslu hönnuða á viðskiptahugmyndum sínum og framtíðarsýn.
Framkvæmdastjóri hefur verið styrkþegum og hönnuðum sem til sjóðsins leita til ráðgjafar en sjóðurinn hefur einnig átt í góðu samstarfi við tvo aðila úr fagráði sjóðsins, þau Dr. Eyþór Ívar Jónsson framkvæmdastjóra Viðskiptasmiðjunnar og Klaks nýsköpunarsmiðju atvinnulífsins og Steinunni Sigurðardóttur fatahönnuð. Eyþór hefur veitt viðskiptaráðgjöf og Steinunn hefur veitt faglega ráðgjöf um framleiðslu og tækni. Þessi ráðgjöf hefur mælst vel fyrir þó hún hafi hentað einstaklingunum misvel og þörf á frekari mótun og þróun verkefnisins.
Af sama meiði spretta sérstakir starfsreynslustyrkir fyrir nýlega útskrifaða hönnuði, sem eru veittir til 3ja mánaða í senn til aðkoma til móts við launakostnað. Þessum styrkjum er ætlað að fjölga tækifærum fyrir nýlega útskrifaða hönnuði á vinnumarkaði, auka færni þeirra og efla tengslanet innan greinarinnar, enda er vilyrði starfandi hönnuðar, arkitekts eða fyrirtækis forsenda umsóknar. Árið 2009 voru slíkir styrkir veittir til tveggja aðila.
Utan þess sem hér hefur verið upptalið hefur nokkuð verið leitað til framkvæmdastjóra vegna þáttöku í dómnefndum og almennrar ráðgjafar og er það kannski til marks um að Hönnunarsjóðurinn hefur á þessu fyrsta starfsári sínu skapað sér sess í faginu með starfsemi sinni. Má þar nefna dómnefndarstörf hjá Listaháskólanum og Háskólanum í Reykjavík, í samkeppnum á vegum Hönnunarmiðstöðvar, ráðgjafastjórnum hjá Viðskiptasmiðjunni (Klaki) og þátttöku í stefnumótunarvinnu skapandi greina þar sem framkvæmdastjóri var einn af fulltrúum Hönnunarmiðstöðvar.
Einnig hefur framkvæmdastjóri tekið þátt í mótun verkefna þar sem framlag sjóðsins hefur verið vinnuframlag, hugmyndavinna og stundum aðstoð við framkvæmd en ekki beint fjármagn. Dæmi um þetta er hönnunarsýningin “Í barnastærðum” í Hafnarborg og samstarf við Unicef um aðkomu grafískra hönnuða að jólakortum Unicef fyrir 2010, sem er enn í vinnslu.
Því má segja að Hönnunarsjóður Auroru styrki einnig fagið óbeint með þessu móti. Staðsetning Hönnunarsjóðs Auroru, í nánu sambýli við Hönnunarmiðstöð Íslands allt frá upphafi hefur einnig skapað góðan samstarfsvettvang þessara tveggja fagaðila, ekki hvað síst í kringum HönnunarMars, nokkura daga hönnunarhátíð sem Hönnunarmiðstöð hefur staðið fyrir í mars síðustu tvö ár.
VIÐAUKI 2
Ársskýrsla Kraums tónlistarsjóðs Auroru – ýtarefni.
STARFSEMIN
Alls úthlutaði Kraumur 10,8 milljónum til 19 verkefna á árinu 2009. Á árinu 2009 hefur Kraumur haldið áfram styðja við tónleikahald innanlands með Innrásinni, sérstöku átaki til stuðnings tónleikahaldi á landsbyggðinni, sem og að velja og verðlauna spennandi hluti í íslenskri plötuútáfu með Kraumslistanum (sem áður hét Kraumsverðlaunin).
Kraumur ýtti úr vör nýju verkefni, Hljóðverssmiðjum, í Tankinum á Flateyri sumarið 2009. Með Hljóðverssmiðjunum er ætlunin að styðja við grasrótina í íslensku tónlistarlífi og gefa þeim tækifæri á að vinna með reyndari tónlistarmönnum, sem veita aðstoð og leiðsögn við upptökur og lagasmíðar. Smiðjurnar eru unnar í samstarfi Músíktilraunir, þar sem sigursveitum hljómsveitakeppninnar þetta árið var boðin þátttaka.
Meðal þeirra listamanna og hljómsveita sem Kraumur vann með og studdi við árið 2009 voru; Hjaltalín, Lay Low, Sindri Már Sigfússon (Sin Fang Bous / Seabear), Ólafur Arnalds, Ólöf Arnalds, Mógil, For a Minor Reflection og kammerhópurinn Nordic Affect. Verkefni þessara listamanna var m.a. stuðningur og samstarf við plötugerð, kynningarvinnu og tónleikahald erlendis sem innanlands.
Kraumur studdi jafnframt við Trúbatrix, nýtt tengslanet og tónlistarhóp sem samanstendur af íslenskum tónlistarkonum sem flytja frumsamda íslenska tónlist, til
tónleikahalds innanlands. Auk þess hefur Kraumur í samstarfi við Apparat Organ Quartet og Festingu komið lagerhúsnæði á Gelgjutanga í stand fyrir tónlistariðkun.
Kraumur studdi við tónleika fjölda ungra listamanna á Stofutónleikum Listahátíðar í Reykjavík, hélt námskeið og vinnusmiðjur á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði, átti í samstarfi við Tónlistarhátíð unga fólksins í Kópavogi og studdi við Reykjavik Jazz Performance vinnusmiðjur fyrir unga og upprennandi listamenn á Jazzhátíð í Reykjavík.
YFIRLIT ÚTHLUTANA OG VERKEFNA 2009
Alls úthlutað 11,5 milljónum til 19 verkefna á árinu.
Samstarf og beinn stuðningur við listamenn (5.000.000 kr)
- Hjaltalín (Plötugerð, tónleikahald & önnur starfsemi) 1.200.000 kr
- Nordic Affect (Plötugerð) 500.000 kr
- Sindri Már Sigfússon / Sin Fang Bous (Plötugerð) 500.000 kr
- Ólöf Arnalds (Plötugerð) 500.000 kr
- Ólafur Arnald (Plötugerð) 500.000 kr
- For a Minor Reflection (Plötugerð) 500.000 kr
- Lay Low (Tónleikahald og kynning erlendis) 500.000 kr
- Mógil (Tónleikahald innanlands (Innrás) og á WOMEX hátíðinni) 500.000 kr
- Camina 300.000 kr
Samstarfsverkefni (2.200.000 kr)
- Stuðningur við tónleika ungra listamanna á Listahátíð í Reykjavík (Stofutónleikar) 1.000.000 kr
- Tónlistarhátíð unga fólksins 400.000 kr
- Reykjavik Jazz Performance Workshop 400.000 kr
- Útflutningsskrifstofa Íslenskrar Tónlistar 400.000
Innrásin (1.600.000 kr)
Átak Kraums til stuðnings tónleikahalds á landsbyggðinni. Markmið Innrásarinnar er að auka við möguleika listamanna og hljómsveita til tónleikahalds, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni.
- Árstíðir, Svavar Knútur & Helgi Valur (Rás 2 plokkar hringinn) 400.000 kr
- Trúbatrix (ýmsir listamenn) 400.000 kr
- Sudden Weather Change, Retro Stefson o.fl. (Sumargleði, Lunga) / 400.000 kr
- Nögl og hljómsveitir á þeim stöðum heimsóttir eru / 200.000 kir
- Momentum og fleiri hljómsveitir Molestin Records á Eistnaflugi / 200.000 kr
Eigin verkefni Kraums (2.700.000 kr)
- Kraumsverðlaunin (stuðningur við plötuútgáfu) 1.200.000 kr
- Hljóðverssmiðjur Kraums og Tanksins (þremur verðlaunahöfum Músíktilrauna 2009 tryggt pláss) 1.000.000 kr
- Námskeiðahald og vinnusmiðjur á Aldrei fór ég suður 500.000 kr
VIÐAUKI 3
Ferð Auroru Velgerðarsjóðs til Sierra Leone – ýtarefni.
Tilgangur ferðarinnar var að kynna stjórn og framkvæmdastjóra stöðu menntaverkefnisins sem Aurora styrkir þar í landi og unnið er í samvinnu við Unicef og menntayfirvöld í landinu. Að sjá hverju hefur verið áorkað og heimsækja nokkra skóla sem komust á legg vegna fjárframlags sjóðsins. En einnig að skoða hugsanleg ný verkefni á vegum hjálparstofnana og jafnvel einstaklinga.
Þar sem fjármagn Auroru er veitt til Kono héraðs var haldið þangað eftir sólarhringsdvöl í Freetown. Þar voru starfsmenn Unicef; Vidhya Gangesh aðstoðarframkvæmdastjóri Unicef í SL, en hún er frá Indlandi og er með mikla reynslu í þróunarmálum, Alison Parker, tengill á aðalskrifstofunni í Freetown, Sunkarie Kabba Kamara, yfirmaður skrifstofu Unicef í Makeni, Mario byggingarverkfræðingur ávegum Unicef ásamt 4 bílstjórum með sína fararkosti. Þessi hópur átti veg og vanda að skipulagningu dvalar okkar í Sierra Leone og var hún öll tíl fyrirmyndar.
Þrír skólar sem byggðir hafa verið fyrir fjármagn frá Auroru voru heimsóttir. Auk skólabyggingarinnar sjálfrar eru einnig alltaf byggð kynskipt salerni, aðstaða til handþvottar og vatnsbrunnur. Salernin eru mjög mikilvæg þar sem þau eru hluti af hreinlætisuppeldi og koma í veg fyrir kynferðislega áreitni sem stúlkur verða gjarnan fyrir í skólum þar sem engin salerni eru. Vatnsbrunnarnir eru einnig órjúfanlegur hluti skólabyggingarinnar. Oft eru engir vatnsbrunnar fyrir í þorpunum og þurfa þorpsbúar þá gjarnan að sækja vatn langar leiðir. Vatnsburður er oftast verkefni ungra stúlkna og getur þanng komið í veg fyir skólagöngu þeirra. Með því að byggja brunninn í skólanum er þetta vandamál leyst auk þess sem vatnsbrunnurinn gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki.
Hópurinn átti fund með SMC (School Management Committee) og Mothers Club sem fræddi hann á starfi þeirra og ekki var hægt annað en að hrífast af ákafa þeirra, vilja og krafti til að skapa betra samfélag.
Einnig var fundað með kennurum og skólastjóra sem fræddu okkur á jákvæðum áhrifum endurmenntunar bæði á kennara og nemendur. Endumenntunin snýst m.a. um að uppfræða og þjálfa kennara í barnavænum kennsluaðiferðum þar sem þarfir barnsins hafa forgang en ekki kennarans. Þeir líta ekki á sjálfan sig lengur
sem kennara (teacher), heldur sem “facilitator” og meina með því að þeirra hlutverk væri að auðvelda og hjálpa nemendum að skilja viðfangsefnið á þeirra eigin forsendum. Þetta viðhorf hefur mjög jákvæð áhrif á nemendurna, þeir eru mun áhugasamari og ánægðari í skólanum og það skilar sér einnig í betri árangri í náminu.
Daginn eftir kynntum við okkur aðstæður í heilbrigðismálum landsins og fórum í heimsókn á héraðssjúkrahúsið í Koidu borg, nánar tiltekið á fæðingadeildina þar. Síðan var haldið til Magburaka, heilsugæsla sem er með sérstaka deild fyrir börn sem þjást af næringarskorti. 57% dauðsfalla barna undir 5 ára aldri í Sierra Leone má rekja til næringarskorts. Mæður geta oft á tíðum ekki haft börn sín á brjósti vegna eigin næringarskorts og eru börn því nærð með mjólkurdufti sem blandað er með menguðu vatni sem veldur sýkingu. Á deildinni eru börnin meðhöndluð og mæðurnar fræddar um mikilvægi réttrar næringar og hreinlæti.
Hópurinn kom til Freetown um kvöldið, og þáðum þá kvöldverðarboð Unicef með menntamála/ ráðherra landsins Dr. Minkailu Bah. Það var mjög ánægjulegt að hitta Dr. Bah aftur, en hann hafði komið til Íslands í janúar 2007, er hann þáði boð Auroru Velgerðasjóðs um að vera viðstaddur afhendingu styrks sjóðsins til menntamála í Sierra Leone. Hann var þá nýtekinn við embætti sem menntamálaráðherra að afloknum kosningum haustið 2007. Í ræðu sinni um kvöldið minntist Dr. Bah þess með ánægju að eitt af hans fyrstu embættisverkum hefði verið að þiggja boð um heimsókn til landsins í norðri og taka við styrk upp á 2 milljónir dollara til stuðnings menntunar barna í Sierra Leone. Deginum áður höfðum við spurnir af því, okkur til óvæntrar ánægju að forseti landsins Dr. Ernest Bai Koroma hefði áhuga á að hitta okkur, en Dr. Bah hafði á sínum tíma gert ríkisstjórn landsins grein fyrir styrk Auroru Velgerðarsjóðst til menntamála í landinu.
Snemma á fimmtudagsmorgun átti hópurinn fomlegan fund með mennta/málaráðherranum, í ráðuneyti hans sem síðan fylgdi okkur á fund forseta Sierra Leone. Dr Koroma hefur verið við völd í Sierra Leone í tvö ár og nýtur almennt virðingar fyrir störf sín. Hlutskipti hans er hins vegar ekki öfundsvert og verkefnin gríðarleg. Forsetinn tók hlýlega á móti okkur á skrifstofu sinni og þakkaði stofnendum og stjórn sjóðsins fyrir sýndan hlýhug í garð Sierra Leone og aðstoðina við menntamál
landsins. Hann ræddi einnig nauðsyn þess að uppbygging landsins væri unnin í samráði við einkageirann þannig að hægt væri að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Mikil vinna hefur verið lögð í að bæta lagalegt umhverfi atvinnulífsins m.a. með það að markmiði að laða að alþjóðlega fjárfesta.
Heimsóknin til forsetans var mikill heiður fyrir Auroru og staðfesting á því að styrkir sjóðsins koma að góðum notum og séu vel metnir.
Eins og nefnt var í upphafi að þá var tilgangur ferðarinnar jafnfamt að kynna sér hugsanleg ný verkefni á vegum hjálparstofnana og jafnvel einstaklinga. Ákveðið var að skipta liði, einn hópurinn kynnti sér hvað aðrar hjálparstofnanir eru að gera í heilbrigðismálum, sérstaklega í sambandi við konur, barneignir og vannæringu. Annar hópurinn kynnti sér enn frekar menntamál og heimsóttu kennaraskóla sem starfræktur er í útjaðri Freetown og þriðji hópurinn kynnti sér hvernig hægt væri að hjálpa hjólum atvinnulífsins í gang aftur en um 70% atvinnuleysi er í landinu.