Ávarp Stjórnarformanns

AURORA Velgerðarsjóður hefur nú lokið sínu fyrsta starfsári. Árið hefur verið viðburðaríkt og við sem að sjóðnum stöndum getum verið nokkuð ánægð með árangurinn. Ég lít svo á að við séum að fikra okkur áfram og hvert skref sem við tökum, sé lærdómur í sjálfu sér.

En ýmis verkefni eru framundan. Í skipulagsskrá sjóðsins, grein 4.0 segir;

“Megintilgangur stofnunarinnar er að stuðla að og styrkja menningar og góðgerðarstarfsemi á Íslandi og erlendis. Í því felst til dæmis fjárhagslegur stuðningur við einstaklinga, félög, félagasamtök og samfélög af ýmsum toga, auk stuðnings við þá sem höllum fæti standa vegna aðstæðna sem þeir búa við s.s. veikinda, slysa, eða af öðrum ástæðum. …..Áhersla er lögð á stuðning við menningar- og/eða mannúðarverkefni sem hafa víðtæk áhrif til almannaheilla.“

Eins og sést þá eru markmið sjóðsins nokkuð opin, en það var meðvituð ákvörðun þar sem starfið var ekki að fullu mótað og við stofnendur vildum gefa stjórninni fullt svigrúm til að koma að stefnumótun. Þó var það markmið okkar stofnenda strax í upphafi að leggja áherslu á færri en stærri verkefni þar sem stuðningurinn gæti haft ‘víðtæk áhrif til almannaheilla.’ Því markmiði hefur stjórnin verið trú og er ég sannfærð um að það sé farsæl stefna og við eigum einmitt að þróa hana áfram. Að einbeita sér að fáum verkefnum hverju sinni gerir okkur kleift að vinna dýpra með hvert verkefni og ýmist nýta yfirgripsmikla þekkingu og reynslu stjórnarmanna, eða leita til sérfræðinga ef með þarf.

Við lögðum einnig áherslu á vandlegt val verkefna og eftirfylgni. Af þessum fjórum verkefnum sem styrkt voru í ár voru tvö þeirra ýmist á ‘teikni-borðinu’ eða jafnvel komin af stað. Þau eru Fuglasafn Sigurjóns á Mývatni og menntaverkefnið í Sierra Leone. Það er óhætt að segja að töluverð vinna var lögð í að kynna sér þessi tvö verkefni og fylgjumst við grannt með framgangi þeirra. Seinni tvö verkefnin sem eru Kraumur Tónlistarsjóður og heilbrigðis-verkefni í Malawi, eru hugmynd stjórnar og þannig mikil vinna fólgin í því að þróa þau áfram, fá með sér samstarfsaðila og jafnvel ráða starfsmenn. En um leið verður til verðmæt reynsla sem sjóðurinn býr að.

Að lokum þá höfum við lagt okkur fram um að starfa með hæfu og áhugasömu fólki í öllum okkar verkefnum, en það er undirstöðuatriði ef verkefnin eiga að dafna og verða að veruleika.

Það að sjóðurinn er ‘tvískiptur’ í þróunarmál annars vegar og menningarmál hins vegar gerir úrvinnslu og utanumhald/rekstur sjóðsins meira krefjandi. Þessi tvö málefni eru stór og flókin og á margan hátt ólík. Vettvangurinn er gjörólíkur; annars vegar allsnægtarlandið Ísland og hins vegar tvö fátækustu ríki veraldar, Sierra Leone og Malawi. Umsýsla verkefnanna er nokkuð ólík, varla er hægt að tala um umsóknarferli í þróunarmálum, en hins vegar fáum við þó nokkuð af umsóknum vegna menningarmála, – þrátt fyrir að sjóðurinn auglýsi ekki. Tengslanetið er einnig annað auk þess sem aðkoma og bakgrunnur fræðimanna og hugsanlegra starfsmanna í framtíðinni er ólíkur.

Það er eitt af viðfangsefni stjórnar að greina þarna frekar á milli og vinna að stefnumótun í hvorum málaflokknum fyrir sig. Við þurfum að geta svarað spurningum eins og ‘hver er úthlutunarstefna sjóðsins í þróunarmálum?’, ‘hver er stefnan í menningarmálum?’’, ‘er samfélagsleg ábyrgð þáttur af rekstri sjóðsins?’ o.s.frv. Skýr stefnumörkun mun auðvelda okkur að vinna að markmiðum okkar og að einbeita okkur að hvoru málefni fyrir sig.

Við höfum einsett okkur að vera með skýra fjárfestingarstefnu sem tekur mið af markmiðum sjóðsins. Í því felst að ekki er fjárfest í fyrirtækjum sem með starfssemi sinni vinna á einhvern hátt gegn grundvallar hugsjón sjóðsins sem velgerðarsjóður. Þörf er á að skýra nánar hvað liggur að baki og síðan að hafa stefnumótun Auroru aðgengilega á heimasíðu sjóðsins.

Ég hef aðeins dreypt á fáum þeim verkefnum sem snúa fyrst og fremst að innra starfi og skipulagi sjóðsins. Það sem skiptir meira máli eru auðvitað verkefnin sem eru styrkt af Auroru, eftirfylgni þeirra og sá lærdómur sem við drögum af.

Fuglasafn Sigurjóns og barnadeildin við Héraðssjúkrahúsið í Mangochi munu klárast á árinu. Fuglasafnið er langt komið og gert er ráð fyrir að það opni í byrjun júlí. Verkefnið er í góðum höndum upphafsmanna þess og við gerum ekki ráð fyrir að þörf verði fyrir frekari aðstoð Auroru þegar sýningin er komin upp og safnið er komið í fullan rekstur.

Stækkun barnadeildarinnar í Mangochi er einnig frekar einfalt verkefni, við munum fylgja því eftir þar til það er að fullu klárað í samræmi við samning, sem verður væntanlega í lok árs.

Hin tvö verkefnin eru hins vegar langtímaverkefni. Kraumur tónlistarsjóður er tilraunaverkefni sem við munum fylgjast grannt með og meta að loknum þremur árum hvort vel hefur tekist til og hvort vert er að halda áfram eða segja staðar numið. Menntaverkefnið í Sierra Leone er einnig 3ja ára verkefni sem við höfum ásett okkur að nota sem prófstein í matsskýrslu sem verður unnin í samvinnu við Háskóla Íslands og mastersnema í Félagsvísindadeild. Verkefnið býður einnig upp á frekari rannsóknarvinnu að því loknu.

Að lokum vil ég þakka stjórn Auroru fyrir frábært samstarf og eins vil ég þakka öllum þeim er hafa lagt okkur lið við að gera sjóðinn að veruleika.

Ingibjörg Kristánsdóttir
Formaður stjórnar

YFIRLIT YFIR STARFSEMI AURORA VELGERÐARSJÓÐS Á ÁRINU

1. Stjórnarfundir

Sjö stjórnarfundir voru haldnir á liðnu starfsári, – á Íslandi, London og í Malawi

2. Kosning stjórnar og ráðning starfsmanns

Stjórn var kosin á fyrsta fundi sjóðsins. Hana skipa;

Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Egla Invest og annar stofnandi sjóðsins
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings
Sigurður Guðmundsson, landlæknir
Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður Unicef

Formaður stjórnar var kosin Ingibjörg Kristjánsdóttir og gjaldkeri Sigurður Einarsson.

Hulda Kristín Magnúsdóttir var ráðinn starfsmaður sjóðsins.

3. Val á nafni og hönnun á merki

Nafnið AURORA Velgerðarsjóður var kynnt á fyrsta stjórnarfundi. AURORA er persónugerving dögunar og hin rómverska gyðja sólarupprásar. Nafnið skírskotar til andlegra verðmæta ljóss og birtu – til þeirrar dagrenningar sem gerir okkur kleift að sjá yfir sjóndeildarhringinn, þangað sem vonin býr.

Aurora er einnig skylt orðinu AURUM á latínu sem merkir gull og þá jafnframt skylt íslensku orðunum EYRIR og AURAR. Nafnið skírskotar þannig til veraldlegra verðmæta – til þess fjármagns er getur komið góðu til leiðar, ef rétt hugarfar býr að baki.

Merki sjóðsins byggir á nafninu; goðsögninni um AURORU, en í lýsingu hönnuðar segir;
‘heitir litir sólarupprásar birtast í fjórum hringjum sem standa fyrir fjögur börn Gyðjunnar Auroru. Þeir hlykkjast hver um annan og mynda þannig sterka heild sem þó hefur ákveðinn léttleika yfir sér’.

Merkið er hannað af Auglýsingastofunni Ennemm og gáfu þau alla vinnu sína við hönnun merkisins.

4. Heimasíða

Unnið var að hönnun heimasíðu á árinu www.aurorafund.is og var hún formlega opnuð við fyrstu styrkveitingu sjóðsins í janúar sl. Auglýsingastofan Ennemm sá um hönnun heimasíðunnar, en markaðsdeild Samskipa sá um uppsetningu og hefur verið okkur innan handar við viðhald hennar.

5. Ferðir

Malawi
Í Október fór stjórn Aurora til Malawi. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér hugsanleg verkefni sem Aurora gæti tekið að sér, en Malawi er eitt af fátækustu ríkjum heims, og skipar 164 sæti, af alls 177 ríkjum heimsbyggðarinnar í Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem birt var 27. nóvember 2007.
Í Malawi tóku á móti okkur heiðurshjónin Sigurður Guðmundsson, landlæknir og stjórnarmaður í Aurora og Sigríður Snæbjörnsdóttir framkvæmdastjóri

Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en þau voru þá að ljúka störfum sína á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og höfðu dvalið þar í rúmt ár.

Stjórn Auroru skoðaði ýmis verkefni á vegum ICEIDA og fleiri aðila. Þar er fyrst að nefna Monkey Bay Community Hospital, en Sigurður og Sigríður hafa verið þar í forsvari sl. ár og m.a. stjórnað uppbyggingu nýrrar barnadeildar við spítalann. Vatns- og hreinlætis-verkefni á vegum ICEIDA var skoðað og læsi verkefni fyrir konur (Adult Literacy Program) einnig á vegum ICEIDA. Millennium Village var heimsótt og MB

Secondary Day Community School sem hefur verið styrktur af Rotary klúbb Reykjavíkur. Sigurður kynnti héraðssjúkrahúsið í Mangochi og þörf fyrir stækkun barnadeildarinnar við sjúkrahúsið, en þau hjón hafa átt gott samstarf við yfirvöld sjúkrahússins og það var ljóst að þörfin er mikil

Ferðin var mjög gagnleg og á síðasta degi ferðarinnar var haldinn stjórnarfundur í Monkey Bay, þar sem ákveðið var að Aurora myndi kanna frekar kostnað og forsendur stækkunar barnadeildar við Héraðssjúkrahúsið í Mangochi.

Sierra Leone

Í Nóvember heimsóttu Hulda Kristín Magnúsdóttir starfsmaður Aurora og Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Sierra Leone. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að hitta fulltrúa Unicef í Sierra Leone Geert Cappalaera og starfsfólk hans sem tengist menntaverkefninu þar í landi. Með í för var Stefán Ingi Stefánsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Þó að fundurinn hefði matt vera lengri þá var hann gagnlegur. Báðir aðilar náðu að skýra út sjónarmið hvors annars og í framhaldi af fundinum, þegar heim var komið var mun auðveldara að vinna í gegnum netmiðla að samkomulagi sem allir voru sáttir við.

Við sama tækifæri hittum við Engilbert Jónsson fulltrúa Alþjóðabankans í Sierra Leone og konu hans Ingunni Önnu Jónasdóttur. Þau hjón eru búin að ver í Sierra Leone í rúmt ár og Ingunn Anna tók að sér að vera sérlegur ráðgjafi okkar, bílstjóri og aðstoðarkokkur.

6. Afhending styrkja

Þann 23 janúar 2008 var úthlutað úr Aurora Velgerðarsjóði í fyrsta sinn. Stjórn Aurora ráðstafaði alls 210 milljónum króna til fjögurra verkefna við hátíðlega athöfn í

Þjóðminjasafninu að viðstöddum fjölda gesta. Um leið og upplýst var um fyrstu styrktarverkefni sjóðsins, var starfsemi sjóðsins kynnt, farið var yfir aðdraganda að stofnun sjóðsins, val á nafni og heimasíða Auroru opnuð.

Tvö verkefni hlutu styrki til tiltekinnar ráðstöfunar árið 2008:

  • Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit, 20 milljónir króna til hönnunar og uppsetningar á sjálfri fuglasýningunni.
  • Héraðssjúkrahúsið í Mangochi í Malaví , 20 milljónir króna vegna framkvæmda við stækkun og eflingu barnadeildar.Tvö verkefni hlutu styrki til þriggja ára:
  • Menntaverkefni í Síerra Leóne, 40 milljónir króna á ári 2008-2010 eða alls 120 milljónir króna.
  • Kraumur tónlistarsjóður, sem Aurora velgerðasjóður stofnaði í því skyni að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og kynningar á verkum sínum. Aurora lagði nýja sjóðnum til 20 milljónir króna árið 2008, 15 milljónir króna 2009 og aftur 15 milljónir króna 2010 eða alls 50 milljónir króna.

7. Heimsókn menntmálaráðherra Sierra Leone

Í tilefni að afhendingu styrkja Auroru velgerðarsjóðs í Þjóðminjasafninu þann 23. Janúar, bauð Aurora menntamálaráðherra Sierra Leone Dr. Minkailu Bah til Íslands.

Tilgangur heimsóknar ráðherrans var auk þess að veita viðtöku styrks til menntaverkefnisins í Sierra Leone, að vekja athygli landsmanna á bágbornu ástandi skólamála í þessu fátækasta ríki heims og jafnframt til að tryggja stuðning yfirvalda í

Sierra Leone við verkefnið. Það var einnig von okkar að með heimsókn sinni gæti ráðherrann myndað tengsl við skólayfirvöld á íslandi sem gæti orðið uppsprettan að frekara samstarfi. Í ræðu sinni í tilefni viðtöku styrksins sagði ráðherrann m.a.

“ Það gladdi mig mikið þegar ég fékk þetta góða boð frá ykkur, ekki einungis vegna þess rausnarlega framlags sem við veitið okkur hér í dag, heldur einnig vegna þeirrar velvildar sem við njótum frá fólki og landi svo langt í burtu. Velvild ykkar mun ætíð tengja Ísland og Síerra Leóne sterkum böndum.”

Ráðherrann þáði kvöldverð í ráðherrabústaðnum í boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og heimsótti síðan menntamála- ráðuneytið daginn eftir og hitti þar Þorgerði Katrínu, Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra og Steingrím Sigurgeirsson aðstoðarmann ráðherra. Þar var farið yfir uppbyggingu menntakerfisins á Íslandi, skólagjöld, lánamál o.fl.

Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík tók á móti ráðherranum ásamt Ingu Dóru Sigfúsdóttur, forseta Kennslufræði- og lýðheilsudeildar. Svafa sagði m.a. frá verkefni á vegum skólans sem unnið verður í samstarfi við UNICEF í Gíneu Bissau, þar sem kennarar úr Kennslufræði- og lýðheilsudeild HR fara til Gíneu Bissau til að mennta verðandi grunnskólakennara.

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Jón Atli Benediktsson Ph.D. þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors tóku á móti ráðherranum. Sagði Kristín frá samstarfi við Háskóla Nígeríu, nemendaskiptum og styrkjum, en nokkrir nemendur frá Nígeríu hafa stundað nám við HÍ í tengslum við það.

Dr. Bah heimsótti einnig UNICEF á Íslandi og hélt þar tölu á opnum málfundi.

Ítarlegt viðtal við ráðherrann birtist í Morgunblaðinu en það má finna í heild sinni á heimasíðu Aurora.

8. Lýsing verkefna og staða

Fuglasafn Sigurgeirs er kennt við Sigurgeir Stefánsson á Ytri-Neslöndum við Mývatn, áhugamann um fuglalíf og náttúru sem lést af slysförum árið 1999. Hann safnaði uppstoppuðum fuglum og eggjum og átti orðið um 320 fugla, auk eggja undan um 100 tegundum íslenskra varpfugla. Aðstandendur Sigurgeirs ákváðu að ráðast í að byggja hús yfir safnið og hýsa þar líka Sleipni, bát Jóns Sigtryggs-sonar á Syðri- Neslöndum, eitt fyrsta samgöngutæki Mývetninga. Nýja sýningarhúsið var orðið fokhelt á árinu 2006. Þar vantar ýmsan búnað til sýningahalds. Í umsögn stjórnar um verkefnið segir meðal annars:

„Fjölskylda Sigurgeirs heitins Stefánssonar á heiður skilinn fyrir að hafa lagt út í að byggja hús yfir fuglasafnið og undirbúa sýningahald þar af fádæma metnaði og þrautseigju. Stjórn Aurora velgerðasjóðs hefur ákveðið að leggja henni lið svo Fuglasafn Sigurgeirs fái sem fyrst þann aðbúnað sem því ber til að auðga mannlíf og menningu í Mývatnssveit og á landinu öllu.“

Frágangur á byggingu fuglasafnsins hefur gengið mjög vel og 17. Maí sl. var haldin fyrsta samkoman í safninu, er Kiwanisklúbburinn Herðubreið hélt aðalfundinn sinn þar. Eftir er að ganga frá umhverfi safnsins og standa framkvæmdir yfir á bílaplani þessa stundina. Ákveðið hefur verið að formleg opnun verður 6. Júlí n.k.

Heilbrigðisverkefni í Malawi. Aurora velgerðasjóður greiðir kostnað við viðbyggingu barnadeildar héraðssjúkrahússins í Mangochi og gert er ráð fyrir að nýja húsið verði tekið í gagnið í haust. Barnadeildin er alltof lítil og gert er ráð fyrir að hægt verði að tvöfalda húsrými hennar og bæta 36 sjúkrarúmum við þau 36 rúm sem fyrir eru. Einnig á að koma á laggirnar 10 rúma gjörgæslu- og nýburadeildum, móttökudeild og vaktstöð fyrir hjúkrunarfólk. Jafnframt verður farið í nauðsynlegar framkvæmdir við rotþrær og fráveitulagnir tilheyrandi barnadeildinni/sjúkrahúsinu. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Brýnt er að auka og efla heilbrigðisþjónustu í Malaví, ekki síst við börn. Tíunda hvert lifandi fætt ungabarn deyr og sautján börn af hverjum hundrað deyja áður þau verða fimm ára. Þarna er því augljóslega verk að vinna og Aurora velgerðasjóður ætlar að leggja sitt af mörkum til að bæta heilbrigðisþjónustu við barnadeild héraðssjúkrahússins í Mangochi í Malaví.“

Gengið var frá samningi við Western Construction Company Ltd um byggingu barnadeildarinnar seinni hluta mars og fyrsta greiðslan af 7 var send í lok mánaðarins. Staðan í dag er sú að unnið hefur verið að færslu fráveitulagna út af viðbyggingunni og uppsetningu á nýrri rotþró. Verktakinn gerir ráð fyrir að klára þann kafla á næstu tveimur vikum. Þeir hafa þegar byrjað að grafa fyrir grunninum og munu steypa undirstöður í næstu viku. Í framhaldi af því byrja þeir á múrsteinsvinnu. Verkefnið er því nokkurn vegin á áætlun.

Menntaverkefni í Síerra Leóne. Markmiðið er að styðja Barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna, UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir 2015. Aurora velgerðasjóður og UNICEF á Íslandi vinna í sameiningu að því marki að 85% barna í Síerra Leóne njóti grunn-menntunar í skóla árið 2010. Sjóðurinn ver jafnvirði 120 milljóna íslenskra króna til að reisa skólahús í Síerra Leóne á árunum 2008-2010.

Í hverju húsi eru flrjár til sex skólastofur þar sem gert er ráð fyrir að kenna börnum á aldrinum 6-12 ára. Jafnframt útvegar sjóðurinn húsgögn og nauðsynlegan búnað í skólana og sér þeim fyrir vatni, kynskiptri hreinlætisaðstöðu og leiktækjum utan dyra. Þá stendur sjóðurinn straum af kostnaði við að mennta og þjálfa kennara, horfa jafnframt sérstaklega til menntunar og öryggis stúlkna og styðja hópastarf kvenna og mæðra. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Menntun er eitt helsta vopnið gegn fátækt í heiminum og gefur einkum börnum færi á mannsæmandi lífskjörum, eykur sjálfsvirðingu fleirra og hefur víðtæk áhrif til að skapa upplýst samfélag. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF hefur að mati stjórnar Aurora velgerðasjóðs gert heildstæða aðgerðaáætlun um uppbyggingu grunnmenntunar í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims. Þar er ráðist að rótum vandans og tekið á flestum þáttum sem standa í vegi þess að börn á grunnskólaaldri, einkum stúlkur, njóti þeirra menntunar sem þau eiga rétt á.“

UNICEF í Sierra Leone hefur staðfest að fyrsta greiðslan kom í hús fyrir tveimur vikum en hún fór frá okkur 1. maí sl. Ástæða þess að ferlið tekur svona langan tíma er vegna þess upphæðin fer í gegnum UNICEF á Íslandi til aðalstöðva UNICEF í New York og þaðan til Sierra Leone. Þetta ferli tekur um tvær vikur. Áætlað er að næstu greiðslur fari frá okkur 1. febrúar 2009 og 1. febrúar 2010.

Þeir 7-8 skólar sem byggðir verða í Kono Héraði í ár hafa þegar verið boðnir út, og verður gengið frá samningum við verktakana í júní mánuði. Aðrir hlutar verkefnissins ss virkjun samfélaganna, fræðsla kennaranna og útvegun skólagagna og búnaðar fyrir skólana fara einnig af stað í júní mánuði.

Í marsmánuði afhenti Unicef þorpsbúum í Fasewana nýja skólabyggingu en hún var byggð fyrir tilstuðlan Auroru velgerðasjóðs. Lóa Magnúsdóttir, starfsmaður Unicef Island er stödd í Sierra Leone um þessar mundir og var viðstödd afhendinguna ásamt menntamálaráðherra Sierra Leone, Dr. Bah og framkvæmdastjóra Unicef í Sierra Leone, Geert Cappelaere. Hún sendi okkur skemmtilegan pistil sem búið er að gera úrdrátt úr og birta á heimasíðu Aurora:

“Skólinn sem afhentur var þennan dag er björt, falleg og traustleg bygging, máluð blá og hvít. Blá leiktæki prýða leikvöllinn fyrir framan skólann og kepptust krakkarnir við að fá að sitja í rólunum og príla í klifurgrindunum.“

Eftir venjubundna kynningu á gestum og fyrirfólki, héldu Dr. Bah og Geert stuttar ræður. Dr. Bah talaði einna helst um heimsókn sína til Íslands, en hann var viðstaddur þegar afhent var úr sjóðnum í janúar síðasliðinn, og hvernig landið kom honum fyrir sjónir. Hann hvatti heimamenn til þess að fara vel með þessa skólabyggingu sem þeim var falin og tók íslenskar skólabyggingar sem dæmi um fyrirmyndir í umgengni um opinberar byggingar!”

Kraumur tónlistarsjóður
er sjálfstæður sjóður á vegum Aurora velgerasjóðs. Hann hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda fleim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla flekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum. Í umsögn stjórnar Aurora velgerðasjóðs segir meðal annars:

„Íslenskt tónlistarlíf er sérstakt um margt, einkum vegna áberandi krafts og áræðis sem einkennir tónlistarfólk af yngri kynslóðinni. Sykurmolarnir og Björk ruddu braut í tónlistarútrás sem á sér enga hliðstæðu. Fjöldamargir tónlistarmenn fetuðu í fótspor þeirra með undraverðum árangri og nú er tónlistarlíf á Íslandi orðið einn sterkasti flátturinn í ímynd lands og þjóðar út á við. Óvenjulegt samspil dægurtónlistar og sígildrar tónlistar getur orðið drifkraftur frekari landvinninga. Stuðningur við unga tónlistarmenn, til verkefna og samstarfs af ýmsu tagi, skýtur styrkari stoðum undir flennan mikilvæga vaxtarbrodd í íslensku menningarlífi.“

Hér á eftir er stutt yfirlit yfir starfsemi Kraums og stöðu verkefna í dag, tekin saman af framkvæmdastjóra sjóðsins, Eldari Ástþórssyni.

Kraumur – tónlistarsjóður
Yfirlit framkvæmdastjóra, 27. maí 2008

Kraumur – tónlistarsjóður var formlega settur á laggirnar í janúar 2008 eftir nokkurra mánaða undirbúningsvinnu. Skömmu síðar var starfseminni fundin skrifstofa á Laugavegi 28, sem síðan hefur verið vel sótt af listamönnum fyrst og fremst, en einnig ýmsum samstarfsaðilum, meðlimum í faghópi sjóðsins og stjórn.

Auk funda fer öll almenn starfsemi Kraums fram á skrifstofunni. Frá því fyrstu samstarfsverkefni sjóðsins voru kynnt hefur hún staðið þeim listamönnum sem sjóðurinn styður og vinnur með opin sem starfsaðstaða fyrir verkefni sín.

Fundir stjórnar og fagráðs

Stjórn Kraums tónlistarsjóðs skipa Þórunn Sigurðardóttir, Ásmundur Jónsson og Pétur Grétarsson. Framkvæmdastjóri Kraums er Eldar Ástþórsson. Stjórnarfundir til þessa hafa verið sex talsins.

Fagráð Kraums hittist þann 27. febrúar, þar sem mættir voru fimm af sjö meðlimum ráðsins. Framkvæmdastjóri hefur jafnframt átt í samskiptum við einstaka fagráðsmeðlimi í hinum ýmsu málum. Fagráðið skipa Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður, Anna Hildur Hildi-brandsdóttir, framkvæmdarstjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN), Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu, Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar og SJÓN (Sigurjón Birgir Sigurðsson), rithöfundur.

Fyrstu verkefni Kraums kynnt

Fyrstu styrkir og verkefni Kraums voru kynnt til leiks þann 1. apríl, og var kynningarathöfninni fundin staður í æfingahúsnæði nokkurra hljómsveita að Smiðjustíg. Vel tókst til við samkomuna, sem vakti verðskuldaða athygli í fjölmiðlum.

Meðal viðstaddra þar voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennamálaráðherra, sem talaði um mikilvægi stuðnings við íslenskt tónlistarlíf, Þórunn Sigurðardóttir, formaður stjórnar Kraums og stjórnarmaður í Auroru velgerðarsjóði, sem gerði grein fyrir markmiðum sjóðsins, og Eldar Ástþórsson, framkvæmdarstjóri Kraums, sem kynnti fyrstu verkefni hans og stuðning. Tónlistarmaðurinn Mugison og hljómsveitin Skakkamanage tóku lagið.

Fyrstu verkefni Kraums sem þarna voru kynnt til leiks felast bæði í beinum stuðningi við listamenn og hljómsveitir, en einnig er um að ræða eigin verkefni Kraums. Flest hafa þau nú hafið göngu sína, með tilheyrandi sérsmíðuðum samningi listamanna við framkvæmdarstjóra Kraums um framkvæmd og greiðslur.

Staða verkefna – Beinn stuðningur við listamenn

Stærstu framlög Kraums til listamanna þetta árið eru stuðningur við Mugison, Víking Heiðar Ólafssona, hljómsveitina Amiinu – og metnaðarfull verkefni þeirra á árinu.

Mugison
er nýkomin úr víðamiklu tónleikaferðalagi ásamt hljómsveit sinni um Kanada. Hann lék á sérstökum kynningartónleikum fyrir blaðamenn og starfsmenn tónlistarbransans í London í síðustu viku – og framundan eru tónleikar víðsvegar á Norðurlöndum, Þýskalandi, Frakkland, Ítalíu og víðar í Evrópu í sumar. Stuðningur Kraums gerir tónleikana mögulega með stuðningi við Mugison og hljómsveit hans í formi launa og ferðakostnaðar.

Víkingur Heiðar fær stuðning við tónleikahald, kennslu og kynningu í framhaldsskólum. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, kemur einnig að verkefninu; mun útskýra verkin og auðvelda nemendum að njóta klassískrar tónlistar. Verkefnið er enn í undirbúningi, en áætlað er að það hefjist næsta haust.

Amiina fær stuðning frá Kraum sem gerir sveitinni m.a. gert kleift að gera að veruleika áætlanir sínar um tónleikaferð um Ísland. Tónleikarnir eru í undirbúningi og hafa æfingastyrkir verið veittir.

Kraumur styður tónlistarmennina Elfu Rún Kristinsdóttir og Ólöf Arnalds og hljómsveitirnar Dikta, FM Belfast, Celestine og Skakkamanage við gerð nýrra hljómplatna á árinu með fjárhagsstuðning og ráðgjöf. Vinna er hafinn við allar plöturnar og, ef frá er talið að útgáfudegi plötu Elfu Rún Kristinsdóttur hefur verið seinkað fram í byrjun næsta árs, eru þessi verkefni öll á áætlun.

Staða verkefna – Eigin verkefni Kraums

Þann 1. apríl voru einnig kynnt til leiks þrjú eigin verkefni Kraums sem sjóðurinn mun vinna að á yfirstandandi starfsári; Innrásina – sem hefur það að markmiði að auðvelda ungu tónlistarfólki tónleikahald á landsbyggðinni, Hljóðverssmiðjur til að efla grasrótina og gefa hljómsveitum og listamönnum færi á að taka upp sín fyrstu lög undir ráðgjöf reyndari listamanna og Kraumsverðlaunin til stuðnings plötuútgáfu og til að auka tækifæri listamanna kringum útgáfu á tónlist sinni.

Umgjörð Innrásarinnar hefur verið komið á fót, sem og samstarf við Rás 2 við kynningu á þeim tónleikum sem tengjast verkefninu. Með Innrásinni verður listamönnum auðveldað tónleikhald innanlands með fjárhagslegum styrk, ferða- og græjustuðning. Jafnframt er stefnt á að búa til gagnagrunn yfir tengiliði sem nýst geta listamönnum við skipulagningu tónleika úti á landi. Þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum í Innrásina og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Ráðgert er að hleypa af stað fyrstu samstarfsverkefnunum í tengslum við Innrásina í byrjun júní.

Hljóðverssmiðjurnar hafa ekki komið til framkvæmda enn. Ráðgert er að þær fari í gang í haust, en einnig er inn í myndinni að fresta framkvæmd þeirra fram á næsta starfsár.

Kraumsverðlaunin verða veitt í fyrsta sinn í desember. Óhætt er að segja að viðbrögðin við hugmyndinni um sérstök plötuverðlaun, með það að markmiði að styðja við og verðlauna það sem er nýtt og spennandi í íslenskri útgáfustarfsemi, hafi lagst vel fyrir hjá listamönnum og öðrum. Undirbúningsvinna er og verður í gangi í sumar.